Hjörtur E. Þórarinsson á Tjörn 1920–1996
TÓLF LJÓÐ — FIMMTÁN LAUSAVÍSUR
Hjörtur Friðrik eldjárn Þórarinsson fæddist á Tjörn í Svarfaðardal 24. febrúar 1920, sonur þeirra hjóna Sigrúnar Sigurhjartardóttur og Þórarins Kristjánssonar Eldjárns og ólst þar upp í systkinahópi á stóru heimili..
Á Tjörn hefur sama ættin setið í 145 ár síðan séra Hjörleifur Guttormsson langafi Hjartar tók þar við embætti 1870 og hefur lengi verið mikið menningarheimili, kynslóð fram af kynslóð.
Hjörtur lauk stúdentsprófi frá MA vorið 1940 og síðan búfræðinámi frá Edinborgarháskóla.
Varð að loknu námi MEIRA ↲
Hjörtur Friðrik eldjárn Þórarinsson fæddist á Tjörn í Svarfaðardal 24. febrúar 1920, sonur þeirra hjóna Sigrúnar Sigurhjartardóttur og Þórarins Kristjánssonar Eldjárns og ólst þar upp í systkinahópi á stóru heimili..
Á Tjörn hefur sama ættin setið í 145 ár síðan séra Hjörleifur Guttormsson langafi Hjartar tók þar við embætti 1870 og hefur lengi verið mikið menningarheimili, kynslóð fram af kynslóð.
Hjörtur lauk stúdentsprófi frá MA vorið 1940 og síðan búfræðinámi frá Edinborgarháskóla.
Varð að loknu námi 1945 ráðunautur hjá Búnaðarfélagi Íslands, stofnsetti fyrstu sæðingastöð á Íslandi og telst brautryðjandi á sviði tæknifrjóvgunar búfjár hér á landi.
Kvæntist 1948 eftirlifandi konu sinni Sigríði Hafstað frá Vík í Skagafirði og hafa þau búið á Tjörn frá 1950, börnin urðu 7 að tölu, hvert öðru mannvænlegra.
Hjörtur var félagshyggjumaður, sjálfstæður í skoðunum og fróðleikssjór, manna hnyttnastur og skemmtilegastur í samræðum og góður félagi. Hann hafði yndi af góðri ljóðlist og kunni ógrynnin öll af þeim. Sjálfur var hann snjall hagyrðingur, fyndinn á efni og orðaval og hefði mátt halda því meira á lofti.
Hirti voru falin mörg trúnaðarstörf fyrir sveit og samfélag, sem oft voru tímafrek og fjarvistir miklar frá heimili og búskap. Þá kom sér vel að eiga samhenta fjölskyldu að bakhjarli.
Var oddviti um árabil og hreppsstjóri Svarfaðardalshrepps, tók þátt í starfi Búnaðarfélags Svarfdæla, um tíma sem formaður. Varamaður á Alþingi eitt kjörtímabil fyrir Framsóknarflokkinn.
Var í stjórn Kaupfélags Eyfirðinga og stjórnarformaður þess í rúman áratug. Í stjórn Búnaðarfélags Íslands og formaður þess 1987-1991.
Hjörtur var náttúruunnandi og náttúrubarn og elskur að heimahögunum. Líklega fáir þekkt betur fjöllin umhverfis Svarfaðardal, en hann gekk á mörg þeirra, oft í fylgd með Sigríði konu sinni, börnum eða félögum úr Ferðafélagi Svarfdæla. Þá var hugað jafnframt að fuglalífi og plöntum.
Sat í Náttúruverndarráði 1972-1979, var aðalhvatamaður að endurreisn Ferðafélags Svarfdæla og einn af forgöngumönnum þess að koma á fót Friðlandi Svarfdæla.
Eftir Hjört liggur mikið ritað mál, bæði bókverk, tímarits- og blaðagreinar:
Svarfaðardalur. Árbók FÍ 1973, Byggð í Tröllagreipum. Árbók FÍ 1990, Sparisjóður Svarfdæla,
100 ára starf 1884-1984, Saga Kaupfélags Eyfirðinga 1886-1986, Saga Sýslunefndar Eyjafjarðarsýslu 1874-1989
Síðast en ekki síst einn af stofnendum og útgefendum héraðsfréttablaðsins Norðurslóðar sem hóf göngu sína 1977 og hefur komið út óslitið síðan. Hefur það að geyma samtíðarsögu byggðarlagsins fram á þennan dag. Sannkallaður frumkvöðull í sinni sveit!
↑ MINNA