Krosshólshlátur hinn nýi | Kvæða- og vísnasafnið Haraldur
Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Innskráning ritstjóra

Krosshólshlátur hinn nýi

Fyrsta ljóðlína:Komið þið sælir, gangnagaurar
bls.81-83
Viðm.ártal:≈ 1975
Tímasetning:1968
Flokkur:Gamankvæði

Skýringar

Bragurinn „ Krosshólshlátur hinn nýi, kveðinn yfir ófélegri hjörð Braggabúa seint að kveldi fyrsta gangnadags “ (1968). Hafði Hjörtur meðfram kvöldmjöltum dundað við að setja saman ljóð um þá gangnamenn sem honum voru hugleiknastir.
Hefur bragurinn allar götur síðan verið fastur liður á söngskrá afréttarmanna.
Komið þið sælir, gangnagaurar
gólandi í einum stórum flokk.
Þið eruð alveg eins og maurar
iðandi í gömlum pestarskrokk.
Það er nú af sem áður var
er úrvalsmenn fóru í göngurnar.

Hér lít ég marga syndaseli
og sóðakarla neðan úr byggð.
Og hér er margur misjafn peli
og margskyns blönduð viðurstyggð.
Ég skal þá nefna nokkra hér
og nóg eru dæmin, því er ver.

Rósant Steingrímur rollustjóri
ræður hér yfir spilltum her.
Honum er sama þótt menn þjóri
og þekk´ ekki naflann á sjálfum sér.
Árangurinn er eftir því:
Allt þarf að smala upp á ný.

Hér er hann Gunnar Hæringsstaða
helvízkur bíladraugurinn.
Honum er tamt í víni að vaða,
það vottar flöskuhaugurinn
sem umlykur hann allt um kring.
Ó, hvílík skömm og svívirðing!

Hér er hann Friðrik Sigurðssonur
svallari alveg niðrí tær,
hér áður fyrri elti hann konur,
nú eltir hann bara gamlar ær.
Það er nú karl sem segir sex,
syngjandi étur hann beinakex.

Hér er hún Imba Hafstað líka
og hefur úti beittar klær.
Það halda ýmsir að sú píka
sé ekki alveg fædd í gær
og við hana piltar pípóli
í París jafnt og á Krosshóli.

Steingrímur Óskarsson á Sökku
situr og lemur fótastokk
langt úti í horni, dimmu og dökku
dregur þar flösku upp úr sokk.
Býður svo manni að bragða á
bergir þó sjálfur á við þrjá.

Friðjón kjötbúðar- stæltur -stjóri
stendur og brytjar hákarlinn.
Lyktin er eins og úr hlandflóri
er að steindrepa mannskapinn.
Það ætti hreint að harðbanna
að hafa í göngum slátrara.

Ríkarður bóndi í Bakkagerði
blessar svo þetta illþýði.
Það er hans draumur að hann verði
aðstoðarprestur í Helvíti.
Þá mun hann fá í flokk með sér
flesta þá menn sem eru hér.

Það mun nú best að halda héðan
og haltra niður í byggðina.
Þið megið hlæja hátt á meðan
en hugsa þó meir um dyggðina.
Gleymist svo jarðlífsgráturinn,
en glymji Krosshólshláturinn.