Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Við fossinn | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Við fossinn

Fyrsta ljóðlína:Við komum hjer ennþá, sem erum á ferð
bls.227
Bragarháttur:Átta línur (þríliður) fer- og þríkvætt aBaBcDcD
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1891

Skýringar

Þrátt fyrir óreglulega erindaskipan í Þyrnum er óhætt að lýsa bragnum með þeim áttalínuhætti sem hér er gert.
Ljóðið er ort sem svar við kvæði Einars Benediktssonar, Dettifossi og verður að teljast með meinlegri háðskvæðum. Stephan G. Stephansson las bæði kvæðin og átti átti þriðja og seinasta leik í tafli með kvæðinu Fossaföllum, þar sem hann fór meðalveginn. Þetta má teljast merkileg þrenning, þar eð þrjú af mestu skáldum sinnar tíðar rökræða í kvæðum og sýnist sitt hverjum.
1.
Við komum hér ennþá, sem erum á ferð,
fyrst enn er ei strengur þinn skorinn
né okið þitt telgt eða talið þitt verð
og tjaran í kollinn þinn borin.
Við göfgum þá tign, sem í gígjunni bjó,
og gott var á sönginn að hlýða
því móðurrödd varð hann og flóttamanns fró,
sem fylgt hefur landanum víða.
Úr fósturlands barmi þú fluttir þann óð,
sem fann hjá oss næmasta grunninn,
á því þekkjast oftast nær einmitt þau ljóð,
sem eru frá hjartanu runnin.
Og best hafa úr lægingu lyft okkar dug
og leyst okkur fjötur af tungu
þið skáldin, sem upp um hin íslensku flug
á óleigðu gígjurnar sungu.
Þar gátum við hróðugir hlýtt á þá raust,
sem hetjunni vordrauminn sagði.
Og þangað er vonunum vorkunnarlaust,
sem vegina minningin lagði.
2.
Og þú lékst þér syngjandi að silfrinu því,
sem sindrandi í beltið er grafið,
en mólst ekki gull eins og þorparans þý,
því þeyttirðu dansandi í hafið.
Þó voruð þið auður, sem ýmsum varð stór
og Íslendings dýrasti hróður:
Hann heyrði ykkur syngja það, hvar sem hann fór,
að hann ætti drottning að móður.
Og hér var sá auður, sem óstjórnarskrám
og einokun tókst ekki að ræna.
Þær máðu ekki silfrið af beltunum blám
né borðana af möttlinum græna.
Og ef oss nú sjálfum er ætlað að flá
það af, sem var hægast að bjarga,
þá sést hér þó mark eftir synina þá,
sem síðustu gripunum farga.
Og eins þegar göfgin og gígjan er braut
og gullið er orðið að vonum,
þá þarf ekki móðirin þess háttar skraut
hjá þrautleigðrar ambáttar sonum.
3.
Öll skepnan hér fyrir þér skjálfandi stóð,
og skáldið fékk hríðir við niðinn
og bað þig um lifandi anda í þann óð,
sem ætlaði að fæðast þar liðinn.
Hér fékk það við bænina í fingurna mátt
og farginu af heilanum þokað,
svo andríkið fann þar nú allt upp á gátt,
sem áður var heilt eða lokað. —
Og þar, sem var hálfrökkur, skúm eða ský,
varð skínandi regnbogaljómi,
og leyndist þar glufa, sem eitthvað komst í,
var í hana rennt þínum hljómi.
4.
En hann, sem þar vígði þín volduga hönd
og varð hér svo fagurt á munni,
hví skyldi hann nú byrgja svo ljómandi lönd
og loka svo heilnæmum brunni?
Hví vilja ekki þeir, sem þú tylltir á tá
á titrandi ljósbogans hæðum,
að ættjörðin megi þá aflstrauma fá
úr óbornu skáldanna kvæðum?
5.
Nei. Það er svo stopult, hvað þeim sýnist frítt.
Nú þykir þeim sælast að dreyma,
að þú værir asni, sem upp í er hnýtt
og íslenskar þrælshendur teyma.
Og þeir eru farnir að leita sér lags, —
og líkast þú kröftunum eyðir
hjá hverjum, sem ok er og tjara til taks
og tafarminnst þrælsverðið greiðir.
Þeir halda ekki oss vinnist þá veglegri jörð
með vitrari mönnum og sælum.
Nei, voldugir húsbændur, hundar á vörð
og hópur af mörkuðum þrælum!
En fái þeir selt þig og sett þig við kvörn,
þá sést, hverju er búið að týna
og hvar okkar misþyrmd og máttvana börn
fá malað í hlekkina sína.
6.
Þér finnst þá, ef til vill, þeim fari það verr
um frelsið svo hjartnæmt að tala, —
en eins vinnur haninn til ágætis sér
sitt óþarfahjáverk, að gala.
Og meðan þeir yrkja sín ættjarðarljóð,
öll ósköp að hjartanu streyma,
og sæmd vora, fósturjörð, fossa og þjóð
þeir fá því, — en seint til að geyma,
því buddunnar lífæð í brjóstinu slær
og blóðtöku hverri er þar svarað,
svo óðara en vasanum útsogið nær,
er ámóta í hjartanu fjarað.
7.
Og því er nú dýrlega harpan þín hjá
þeim herrum til fiskvirða metin,
sem hafa það fram yfir hundinn að sjá,
að hún verður seld eða etin, —
sem hálofa „guðsneistans“ hátignarvald
og heitast um manngöfgi tala,
en átt hefur skríðandi undir sinn fald
hver ambátt, sem gull kann að mala.
Og föðurlandsást þeirra fyrst um það spyr,
hve fémikill gripur hún yrði,
því nú selst á þúsundir þetta, sem fyrr
var þrjátíu peninga virði.