Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Dettifoss | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Dettifoss

Fyrsta ljóðlína:Syng, Dettifoss. Syng hátt mót himins sól
Bragarháttur:Níu línur (tvíliður) aaBacBccB
Viðm.ártal:≈ 1900
Fyrirvari:Eftir að bera saman við frumheimild
1.
Syng, Dettifoss. Syng hátt mót himins sól.
Skín, hátign ljóss, á skuggans veldisstól.
Og kný minn huga, gnýr, til ljóða, er lifa,
um leik þess mesta krafts, er fold vor ól.
Lát snerta andann djúpt þinn mikla mátt,
sem megnar klettinn hels af ró að bifa.
Ég veit, ég finn við óms þíns undraslátt
má efla mannleg hjörtu. Slá þú hátt,
fosshjarta. Styrk minn hug og hönd að skrifa.
2.
Hér finnst, hér skilst, hve Íslands auðn er stór.
Hver ómur brims, er rís þess fljótasjór!
Þig konung vorra stoltu, sterku fossa,
ég stilla heyri forsöng í þeim kór.
Öll gljúfrahofin hljóma af gulli snauð
um héruð landsins undir sólarblossa
og færa hæðum hærri, dýrri auð
og hreinni fórn en nokkur mannshönd bauð,
er byggði turna og reisti kirkjukrossa.
3.
Hver feiknaöfl um auðnarlöndin stór,
sem öllum drekkir hafsins dauði sjór!
En framtíð á vor þjóð – með þessa fossa,
með þessi römmu tröll í samhljóms-kór.
Einn dag rís foldin gulls og gróðrar snauð
til gæfu nýrrar undir sólarblossa –
og færir himni hærri, dýrri auð
og hækkar sína vegsemd lífs og dauð
með nýja turna, háa kirkjukrossa. –
4.
Heill, vatnsins jötunn, frjáls með breiðan barm.
Þér bindur íssins hel ei fót né arm.
Þín rödd er sótt í afgrunn iðurótsins,
en uppheims-loginn brennur þér um hvarm.
Þú gætir unnið dauðans böli bót,
stráð blómaskrauti yfir rústir grjótsins,
steypt mynd þess aftur upp í lífsins mót
með afli því, frá landsins hjartarót,
sem kviksett er í klettalegstað fljótsins.
5.
Hve mætti bæta lands og lýðs vors kjör
að leggja á bogastreng þinn kraftsins ör, –
að nota máttinn rétt í hrapsins hæðum,
svo hafin yrði í veldi fallsins skör.
– Og frjómögn lofts má draga að blómi og björk
já, búning hitans sníða úr jökuls klæðum.
Hér mætti leiða líf úr dauðans örk
og ljósið tendra í húmsins eyðimörk
við hjartaslög þíns afls í segulæðum. –
6.
Hvað hér er frjálst og frítt við straumsins óð;
hér finnst ei vanans haft um taug né blóð.
Má ekki hér hinn veiki vilji drekka
sér vald til alls við móðutröllsins flóð?
Og má ei hreinsa holdsins lágu sorg
að heyra gljúfrabarmsins djúpa ekka?
Hér finnst ei tál í fossins stoltu borg,
hér fellur andans hismi grjóts í torg,
hér nær ei heimska heims manns sál að flekka.
7.
Ég þykist skynja hér sem djúpt í draum,
við dagsbrún tímans, nýja magnsins straum,
þá aflið, sem í heilans þráðum þýtur,
af þekking æðri verður lagt í taum.
– Er hugarvaldsins voldug öld oss nær,
þá veröld deyr ei, er hún guð sinn lítur,
þá auga manns sér allri fjarlægð fjær,
þá framsýn andans ljósi á eilífð slær
og mustarðskorn af vilja björgin brýtur?
8.
– Líð, unaðsdagur, hægt, – og kenn mér, kyrrð,
að kanna hjartað, langt frá glaumsins hirð.
– Mér finnst sem þögn í fossins dimma rómi,
mér finnst hans myrka ógn í ljósi byrgð.
Og dropinn smár, sem braut fram bjargsins skurð,
slær brú á gljúfrið, skín sem himins ljómi.
Allt stórt er smátt við heljardjúpsins hurð,
hvert hljóð sem þögn í bergsins dauðu urð, –
og landið eins og lostið þrumudómi.
9.
Ég sjálfur þyrstur sit við lífsins brunn.
Þín sjón mér skýrir djúpt míns eðlis grunn.
Þú, straumur auðs við eyðibakkann svarta,
sem á ei strá, ei korn í fuglsins munn.
Þú hefur brennt þinn svip í mína sál
og sungið óminn þinn mér fast í hjarta,
þú, brotsjór krafts í bergsins þunga ál
með brjóstið hvelfda, eflt við jökuls skál,
og himinljómans fall um faldinn bjarta.