Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Gríms rímur og Hjálmars 3

Gríms rímur og Hjálmars – Þriðja ríma

GRÍMS RÍMUR OG HJÁLMARS
Fyrsta ljóðlína:Af fræða strönd skal Frosta björninn fríði renna
Heimild:Rímnasafn II bls.124–127
Viðm.ártal:≈ 1400–1500
Flokkur:Rímur
1.
Af fræða strönd skal Frosta björninn fríði renna,
Viðris bjór með vörum kenna.
Vilji þér nokkuð bjórinn þenna?
2.
Mansöng kann ég minnst að bjóða menja Hildi.
Þó skal færa Fjölnis gildi
fyrða sveit ef hlýða vildi.
3.
Hárek tekur að hylja þjóð með hörðu stáli,
hjálmar brynjur Hrungnis máli,
hildar skýja snörpu báli.
4.
Bragning hefur af Bjarmalandi búna þegna,
stinna skjöldu af stáli dregna.
Stríðið mun þeim ekki vegna.
5.
Gengur þegar hin grimma þjóð til græðis skíða.
Dvelur nú ekki dróttin fríða
drafnar fílum burt að ríða.
6.
Blikuðu skildir borðum á með björtum steinum.
Seglin voru á Ræfils reinum
rauð og blá með voðum hreinum.
7.
Hárek tók að herða þjóð með heiftar stríði:
„kólgu brjóti knörinn fríði,
kappinn enginn annars bíði.“
8.
Allir undu seglin senn að siklings ráði.
Vindurinn þegar að vaxa náði
velta tók um húfu láði.
9.
Því var líkust lýða ferð sem leiftrið flýgur.
Barðið hverja báru smýgur.
Branda gleypti ægis gýgur.
10.
Seggir leggja að svenskri jörðu sunda hröfnum.
Þar mun lýðurinn stinga stöfnum
strengja vals í djúpum höfnum.
11.
Bjarmar létu bræddan streng af borði renna.
Gildir fleinar grunna kenna.
Garpar náðu hjálma að spenna.
12.
Hárek eggjar herlið sitt hildi að reisa:
„Nú skal bál og benja eisa
bæði senn um landið geisa!“
13.
Trauður var eigi tiggja her að tækist róma.
Loginn sat ekki langa dóma.
Lífi týndu menn og sóma.
14.
Sviðnar viða hin svenska fold en seggir falla.
Heyrði langt að lúðrar gjalla.
Laufinn klýfur hyggju stalla.
15.
Jarlinn frétti járna sveim jöfurs í landi.
Stillir býður með sterkum brandi
steypa vill hann þessu grandi.
16.
Stefnir að sér þræl og þegn um þengils veldi.
Lýðurinn prýddist Lóðurs eldi.
Lífið margur ýta seldi.
17.
Saman kom her en sverðin náðu seggi að sníða,
Bölverks tjald og brynju fríða.
Bragnar þeyttu lúðra víða.
18.
Fífur rífa fyrða ótt að fleina hreggi.
Brandurinn sníður bein og leggi.
Bar það allt til heljar seggi.
19.
Grunda nefni ég garpinn þann er geysti hildi.
Sá kann brjóta skarð í skildi
og skæðum vargi að auka gildi.
20.
Hertogadæmið hélt hann eitt af Háreks veldi,
fús að beita benja eldi,
bragna líf í dauðann seldi.
21.
Gnauðar valur er Grundi óð í gegnum sveitir.
Blóðgir lágu búkar heitir.
Bræddir urðu vargar teitir.
22.
Jarlinn geystist Grunda á mót af grimmd og reiði.
Eirekur hnígur að örva seiði
undan Grunda hringa meiði.
23.
Það sá drótt að dögling hnígur dauður í hildi.
Ferðin réð að fleygja skildi,
flýði hver sá lífið vildi.
24.
Drengir vöktu darra regn en dróttir flýja.
Glymur var hár til hildar skýja.
Hrottar tóku skjöldu að lýja.
25.
Skundar þjóð á skóga í braut úr skjalda leiki.
Lýður var þar víða á reiki.
Völlu þakti nárinn bleiki.
26.
Hlífði ekki Högna voð né hjálmar skyggðir.
Herinn tók að brenna byggðir.
Bjarmar sýndu litlar dygðir.
27.
Bráðlega spyr kóngurinn Karl um kappa dauða.
Fallið jarls og fossinn rauða
fyrðum aflar stórra nauða.
28.
Hertoginn fylgir Hárek einn er heitir Grundi,
einkar snar að fleina fundi,
fránum vegur hann hjalta lundi.
29.
Heyrði Grímur og hlustar til hvað hirðin sagði,
stangar knífi en stillir sagði,
stáli klæðist her að bragði.
30.
Grenjar lúður en garpar tóku Grímnis klæði.
Frúrnar báru fasta mæði.
Falla læt ég að sinni kvæði.


Athugagreinar

Haukur Þorgeirsson sló inn eftir útgáfu Finns Jónssonar en stafsetning er færð til nútímahorfs. Ríman er aðeins varðveitt í einu handriti, AM 604 c 4to. Flestar leiðréttingar Finns eru teknar upp í textann. Þeirra helstu er getið hér fyrir neðan.
1.3 bjórinn] hdr.
3.3 skýja] hdr. skýs og
8.3 láði] hdr. gráði
13.3 týndu] hdr. týndi
25.2 lýður var þar víða] hdr. víða var þar lýður
26.2 brenna] hdr. hreinsa