Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Gríms rímur og Hjálmars 2

Gríms rímur og Hjálmars – Önnur ríma

GRÍMS RÍMUR OG HJÁLMARS
Fyrsta ljóðlína:Berlings hef ég brotna skeið
Heimild:Rímnasafn II bls.119-124
Viðm.ártal:≈ 1400–1500
Flokkur:Rímur
1.
Berlings hef ég brotna skeið
bætta fram með orða leið.
Klókt mun verða kvæða slag
ef keskin fylgir nátt og dag.
2.
Grímur kemur á Gauta láð.
Gefast mun vargi varma bráð
ef þar stríða sterkir nú
stoltarmenn fyrir bjarta frú.
3.
Litu þeir upp á landið vítt.
Langtjöld stóðu einkar títt.
Her var prýddur hrannar eim.
Hjálmar trúi ég að réði þeim.
4.
Hjálmar spurði hrausta menn:
„Hver á skipum að ráða enn?“
Hlýðir Grímur og segir til sín:
„Sumarið allt hef ég leitað þín.“
5.
„Grímur kom þú giftu prýddur,
græðis báli og sæmdum skrýddur.
Væna gull og vínið hreint
vil ég þér bjóða eigi seint.“
6.
„Boð má ég engin þiggja þín.
Þrútin er svo hyggjan mín.
Hyl þú þig með Viðris voð.
Vargi skulum við höggva bráð.“
7.
„Heldur sé ég til hæfra ráð.“
Hjálmar talar með list og dáð.
„Bindum okkart bræðralag.
Báðir fylgjumst nátt og dag.“
8.
Þreyti ég ei það randa regn.
Rétta hef ég til þess fregn.
Fyrr skal sækja falda laut
og flytja hana úr Svíþjóð braut.“
9.
Grimmdin hljóp svo Grími í brjóst.
Garpurinn talar af hörðum þjóst:
Bú þig fljótt og brjótum hlíf!
Bila þú ei við fleina dríf!“
10.
„Mín er systir mæt að sjá.
Mun ég þér bjóða hringa Gná,
Bjarma láð og buðlungs nafn.
Við bræðum ekki að sinni hrafn.“
11.
„Vil ég ei þína systur sjá.
Seg þú mér þar ekki frá.
Bleyði er mest að bila við stríð.
Brúðurin mun það spyrja fríð.“
12.
Hjálmar talar með heiftum sprengdur:
„Hvergi dreg ég mig undan lengur.
Rjóðum sverð og reynum tveir
randa fár með snörpum geir.“
13.
Greip hann hvíta Gjúka voð,
Grímnis eld og Hrumnis slóð.
Viðris faldinn vænan svo
varla mátti slíkan fá.
14.
Grímur átti að höggva fyrr.
Hann var búinn að auka styr.
Skjóminn bítur skjaldar rönd
og skýfir þegar af Hjálmar hönd.
15.
Hjálmar brá sér hvergi við
og hirðir ekki að þiggja grið,
reiðir sverð og reyndi málm,
reist af Grími brynju og hjálm.
16.
Dreyrinn rann en dreng var heitt.
Dörnum gat svo Hjálmar beitt.
Bæði skeindist brjóst og iður.
Brandurinn hljóp í völlinn niður.
17.
„Heldur tók“, kvað Hjálmar, “lítt.
Höggið varð nú ekki strítt.
Ef báðum höndum beitta ég hjör
bragning hefðir látið fjör.“
18.
Báðum höndum gríðar glóð
Grímur tók við eggja flóð,
setur í hjálm en sverðið sneið
sundur höfuð og hyggju leið.
19.
Herinn leit á Hjálmars fall.
Hræva naður í undum gall.
Grímur féll við grimmlegt sár.
Geystar féllu benja ár.
20.
Hjálmar spyr ég heygðan þar.
Herinn Grím til skeiða bar,
sigldu í burt með sverða Þund.
Svo frá ég lyktast þeirra fund.
21.
Seggir héldu að svenskri grund.
Svella náði Grími und.
Megnið þverr en minnkar líf.
Milding spurði slíkt og víf.
22.
Brúðurin græddi geira Þund.
Grímur náði að festa sprund.
Veisla er búin í vísis höll.
Með virktum prýddist hirðin öll.
23.
Vínið gekk að veislu svo
vatnið mátti ei nægra fá.
Brúðhlaup allt með blíðu stóð.
Buðlung veitti ægis glóð.
24.
Hölda leysti hilmir braut
hrævar svelli og ofnis laut.
Bjartri unni bauga Rist
brodda viður með allri list.
25.
Geta skal hins er gjörðist fyrr.
Gautum þótti ærinn styr.
Hjálmar hné við hjörva nauð.
Höldar fengu sáran dauð.
26.
Virðar heygðu Hjálmars lík.
Honum fannst engin kempan slík;
tóku gull og grófu í jörð.
Grimmdin óx með ýtum hörð.
27.
Daprir héldu drengir heim.
Dult var ekki stríð með þeim.
Bragnar líta Bjarma láð.
Beljar stormur í hverri voð.
28.
Höldar líta Háreks borg.
Hvergi minnkar ýtum sorg;
stigu á land og stefndu heim.
Stillir gekk á móti þeim.
29.
Bragning sér að bleik er þjóð.
Brann af stríði hyggju slóð:
„Hvort er skeiðum Hjálmar á,
eður hefur hann fengið menja Ná?“
30.
„Hjálmar hefur við fleina fár
fengið ekki benjar smár.
Lífi næmdur lofðung nú,
leit hann ekki væna frú.“
31.
Stillir blés við sterka nauð:
„Stór er skaði um Hjálmars dauð.
Hornin þeyti hver sem má.
Herja skal ég nú Svíþjóð á.
32.
Skal nú hver sá er skjöldinn má
skeiðum hrinda fram á sjá,
bera í stríð eður brjóta hjálm,
búinn í þennan eggja sálm.
33.
Lýðurinn eyði landið allt.
Logar í brjósti stríðið kalt.
Hyggja mundi Hjálmar það
að hefndin yrði þegar í stað.“
34.
Þings er kvatt en þegna drótt
þangað hefur um landið sótt.
Brynjan huldi bragning hrein.
Benja sól á ýtum skein.
35.
Nenni ég ei fyrir nála reið
negla lengur Austra skeið.
Lóðurs bjór mun lyktast sjá.
Lás skal eigi ganga frá.


Athugagreinar

Haukur Þorgeirsson sló inn eftir útgáfu Finns Jónssonar en stafsetning er færð til nútímahorfs. Ríman er aðeins varðveitt í einu handriti, AM 604 c 4to. Flestar leiðréttingar Finns eru teknar upp í textann. Þeirra helstu er getið hér fyrir neðan.
3.3 eim] hdr. seim
4.3 hlýðir] hdr.
13.2 eld] hdr. fald
13.2 slóð] hdr. glóð
22.4 hirðin] hdr. hríðin
33.1 eyði] hdr. eyddi