Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Gríms rímur og Hjálmars 1

Gríms rímur og Hjálmars – Fyrsta ríma

GRÍMS RÍMUR OG HJÁLMARS
Fyrsta ljóðlína:Berlings hefur mig blíðu svipt
Heimild:Rímnasafn II bls.114–119
Bragarháttur:Ferskeytt (ferskeytla)
Viðm.ártal:≈ 1400–1500
Flokkur:Rímur
1.
Berlings hefur mig blíðu svipt
baugsins fagra leika,
stjörnu sýti ég strauma nift
strítt fyrir hörundið bleika.
2.
Blekkir mig sú bauga Rán,
björtust allra sprunda,
hef ég því ekki af listum lán
um lilju hrings að stunda.
3.
Sút og blíða saman er allt,
svellur um mitt hjarta,
hef ég því bæði heitt og kalt
hrings fyrir vífið bjarta.
4.
Vaxa mér í visku bý
Viðris haukar báðir,
af því kveikist elskan ný
upp um mærðar sáðir.
5.
Er ég brugðinn brúna nátt
blíðum yndis svefni,
hef ég því ekki að hugsa fátt
fyrir hvíta hringa Gefni.
6.
Karl hefur heitið kóngur sá,
er köppum átti að ráða,
sikling hafði Svíþjóð á
sest til gleði og náða.
7.
Landið vítt og lýða fjöld
lofðung hafði að stýra
mest er öll af menntum völd
mildings sveit hin dýra.
8.
Vísir hafði fengið frú
þá fegurst var ein að líta,
ól við mætri menja brú
motra lindi hvíta.
9.
Ýtar skyldu auðar gátt
Ingigerði kalla,
rann sú upp við rausn og mátt
Rindin Fofnis palla.
10.
Virðar sögðu væri slík
veiga þöllin engi,
sú var bæði björt og rík,
bragnings gladdi drengi.
11.
Eirek nefni eg ítran jarl,
er öðlings varði veldi,
var hann nær sem geirinn gall
og garpa marga felldi.
12.
Fylkir hefur þá frúna átt,
fremdir kunni að veita,
ól hann son við seima gátt,
sá nam Grímur heita.
13.
Vex hann upp og vandist brátt
vigra leik að efla,
rjóða sverð í randa þátt,
renna bjarg og tefla.
14.
Stundar tafl og stjörnu list,
steini langt að varpa;
öngrar hefur hann menntar misst,
er mæta prýðir garpa.
15.
Var hann þá orðinn vintra tólf
vill honum enginn bjóða
skíða ferð og skjóta kólf,
Skilfings eld að rjóða.
16.
Skemmtir sér í skemmu þrátt
hjá skorðu Fofnis landa,
leggur rækt við refla gátt
reynir snarpra branda.
17.
„Spjalda eik, vil ég spyrja þig“,
kvað spennir raddar Iðja,
„viltu auðgrund eiga mig,
ef ég fer þín að biðja?“
18.
„Öngum gifti ég manni mig,
menja svaraði skorða,
láttu föður minn fræða þig
og freista slíkra orða.“
19.
Kappinn gengur kóngs á fund
og kvaddi stilli hinn mæta:
„gift mér fríða falda grund,
fleygir nöðru stræta.“
20.
„Þýða fær þú ei þorna gátt,“
þengill talar af móði,
„unnið hefur þú frægðar fátt
né fæddan varg á blóði.“
21.
„Hvert skal, hilmir, halda þá
hræva lauka að rjóða
svo að ég mætti frúna fá?
Fögur er hringa tróða.“
22.
„Hjálmar nefni ég harðan mann,
hvatan að eggja sálmi,
skjöldu græna skýfir hann
og skiptir björtum málmi.
23.
Vænu gulli virða gleður
og veitir stríð með brandi.
Hárek nefni ég Hjálmars feður,
heldur Bjarma landi.
24.
Veit ég öngvan vænna mann
vöskum stýra lýði,
far þú skjótt að fella hann
og freista þinnar prýði.
25.
Efl þú snarpan laufa leik
og legg hann skjótt að velli,
þá skal ég gefa þér gullhlaðs eik
með gnógu handar svelli.
26.
Heita má það hamingju raun
Hjálmar kappa að fella,
því skal hvíta leggja í laun
lindi auðar þella.“
27.
Grímur frá ég gekk á braut
gullhlaðs eik að finna,
strauma fagnar stjörnu laut
stýri benja linna.
28.
„Hversu fór,“ kvað hringa eik,
„hilmir vil ég þig frétta.“
Rjóð er kinn af reiði bleik.
„Ræsir, grein þú þetta!“
29.
„Hjálmar nefndi hilmir þann
hreyti nöðru stræta,
firra skal ég fjörvi hann
en fá þig, sprundið mæta.“
30.
„Faðir minn vill þig feigan mann,“
fljóðið talar af mæði,
„hér er sá brandur að bíta kann
blóðug Handis klæði.
31.
Stýr þú honum við stála hregg
sterkleg högg að veita.“
Tiggi leit í tyrfings egg,
Trausta frá ég hann heita.
32.
Brúðurin seldi brodda Þund
brynju snákinn þenna;
„hvorki skal ég af hilmis fund
hvika né undan renna.“
33.
Grímur finnur föðurinn sinn,
„þú fá mér skeiður og drengi,
vaxa mun nú vegurinn minn,
vil ég ei fresta lengi.“
34.
„Ég vil fá þér fimmtán skeiður
og fagran dreka að stýra,
vel þú þér með vænan heiður
vopn og þegna dýra.“
35.
Þings er kvatt en þegna fjöld
þangað sótti víða,
þá var Grími gildleg völd
garpa sveitin fríða.
36.
Fús var honum að fylgja hver
fleygir nöðru palla.
Dreif til strandar stillis her.
Sterka frá ég þá alla.
37.
Skatnar hrundu skeiðum þá,
skipuðu öllum reiða.
Högna voðin hörð og blá
huldi bauga meiða.
38.
Vinda segl en veðrið stóð
víst í öllum skautum.
Strengja björn þar er stytti voð
strauk á skeljungs lautum.
39.
Grímur tók að geysa stríð
og gjörði víða að herja.
Engi þoldi örva hríð.
Eiðinn flestir sverja.
40.
Garpar héldu að Gauta láð
græðis hestum mörgum.
Þar mun aukast úlfum bráð
og eflast gildi vörgum.
41.
Lægis hesta létu þeir
að landi renna alla.
Hér mun görpum Gönlis leir
góms af barmi falla.


Athugagreinar

Haukur Þorgeirsson sló inn eftir útgáfu Finns Jónssonar en stafsetning er færð til nútímahorfs. Ríman er aðeins varðveitt í einu handriti, AM 604 c 4to. Flestar leiðréttingar Finns eru teknar upp í textann. Þeirra helstu er getið hér fyrir neðan.
1.4: strítt] hdr. stríðs
5.2: blíðum] hdr. blíðan
16.3 rækt] hdr. rætt
17.2 kvað] orðið er ekki í hdr.
25.4 handar] hdr. hrannar