Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Bragþing

Bragi er safn- og rannsóknagrunnur sem hefur tvíþætt hlutverk og jafnvel þríþætt:
  • Að skrásetja áreiðanlegar útgáfur kveðskapar, ljóða, lausavísna og háttatala, ásamt aldri kveðskapar (eftir því sem næst verður komist), upplýsingar um höfunda og bragarhætti og tilurð skáldskaparins þar sem við á, ásamt því að gera grein fyrir heimildum og gera þessar upplýsignar aðgengilegar almenningi með sem skýrustum hætti og leitarmöguleikum á veraldarvefnum.
  • Að þróa rannsóknar- og greiningartæki sem nýtist einkum við bragfræðilegar og málfræðilegar rannsóknir en einnig á fleiri sviðum, svo sem í bókmenntum, sagnfræði og þjóðfræði.
  • Í þriðja lagi hafa verið lögð drög að skrá yfir hugtök og heiti í bragfræði. Sú vinna er skammt komin en þó er nú þegar hægt að fletta helstu meginhugtökum upp í skránni á Bragavefnum.
Í Braga hefur verið unnið að myndrænni framsetningu á einkennum bragforma hvað varðar bragliðagerð, rím og stuðlasetningu. Myndræna framsetningin er einkum ætluð til skýringar og einföldunar og hefur kennslufræðilegt gildi. Hún grundvallast þó á kennistreng sem er nákvæm bragarháttarlýsing og lykillinn að rannsóknarhluta gagnagrunnsins.

Bragarhættir: Þegar hafa nú verið skráðir 1343 bragarhættir. Bragarhættir eru sýndir í myndrænu formi (bragmynd) sem tölvan býr til út frá svonefndum kennistreng eins og áður segir. Þá eru einnig gefin dæmi um einstaka hætti. Stefnt er að því að háttgreina í Braga megnið af hefðbundnum kveðskap íslenskum frá upphafi til okkar daga. Út frá þeirri skráningu yrði unnt að gera rækilega grein fyrir íslenskri bragsögu.

Ljóð: Í þessari einingu eru nú skráð 755 ljóð sem aðeins hafa verið bragtekin (bragarhættir þeirra skráðir) og er drjúgur hluti þeirra sálmar úr Sálmabók Guðbrands frá 1589 og ljóð eftir Jón Þorláksson, Bjarna Gissurarson og Hallgrím Pétursson. Þá hafa nú verið skráð 2412 heil kvæði (voru 1089 í janúar 2014). Þar á meðal eru fjölmörg eddukvæði, allir sálmar Marteins Einarssonar úr Sálmakveri hans frá 1555, nær öll þekkt kvæði Einars í Eydölum, allnokkrir rímnaflokkar, nokkrir sagnadansar og allir Passíusálmar Hallgríms Péturssonar og fjölmargir aðrir sálmar hans. Stefnt er að því að færa inn í þessa einingu sem mest af íslenskum kveðskap, að minnsta kosti fram til 1800. Kostað verður kapps um að hafa alltaf besta fáanlegan texta ljóðanna í þessari einingu. Ljóð sem skráð eru í heild eru merkt sérstaklega með mynd af blaðsíðu.

Lausavísur: Skráðar hafa verið 1747 vísur (voru 1129 í janúar 2014) og þær flokkaðar og gerð grein fyrir tildrögum þeirra og sögum sem þeim tengjast séu þær þekktar. Þessi eining ætti að vera orðin nokkuð hnökralítil þótt vafalaust megi þar að ýmsu finna. Nokkrar fornar dróttkveðnar vísur hafa verið færðar hér inn og sumar þeirra skýrðar. Áfram verður unnið að því að skrá í þessa einingu lausavísur, einkum þó frá eldri tíma.

Vinna við Braga. Margir hafa komið að vinnu við Braga – óðfræðivef frá því honum var ýtt úr vör. Tölvuvinnslu og forritun hafa annast: Jón Bragi Björgvinsson, Halldór Svansson og Bragi Valdimar Skúlason og síðast . Sigríður Helga Hauksdóttir hannaði útlit vefsins. Bragskráningu og fræðilega vinnu við hana hafa annast: Kristján Eiríksson, Þórður Helgason, Yelena Sesselja Helgadóttir, Steinn Kristjánsson, Harpa Björnsdóttir, Sigurborg Hilmarsdóttir og . Þá hafa eftirtaldir unnið að því að koma lausavísum og helgikvæðum á tölvutækt form og samræma stafsetningu þeirra: Katrín Ragnarsdóttir, Sverrir Norland og Reynhildur Karlsdóttir. Hefur Kristján sett talsvert af því efni inn á Braga en þar er þó talsvert ennþá óunnið. Framan af sá Kristján að mestu einn um skráningu ljóða og lausavísna á vefinn en síðustu fjögur til fimm ár hafa Kristján og skráð jöfnum höndum og auk þess hefur þróað braggreiningarkerfið áfram og gert það miklu nákvæmara.

Rannsóknarhluti. hefur búið til hugbúnað sem skanderar ljóð og lausavísur miðað við hvaða háttur (kennistrengur) hefur verið settur fram til að lýsa viðkomandi brag. Þannig er hægt að leita uppi ýmis frábrigði í kveðskap á mismunandi tímum bragsögunnar og skoða þróun þeirra. Dæmi um þetta er þróun u-innskots í bundnu máli, vitnisbuður braghrynjandi um leifar fornrar hljóðdvalar og útbreiðsla hinnar forðum algengu venju að ríma i í beygingarendingum ýmist við i eða e í stofni. Þá er hægt að nota greininguna til að sannreynna eldri rannsóknir og má þar nefna kannanir á vitnisburði stuðlunar um upphaf og útbreiðslu kv-framburðar sem hafa áður verið gerðar en með mun minna gagnasafni til grundvallar en nú er mögulegt. (Loks má geta annars hagnýts gildis hinnar sjálfvirku skanderingar, sem er sú að koma upp um villur sem gerðar hafa verið í braggreiningu.)

Framtíð rannsókna: Þróun rannsóknarhlutans og vöxtur textasafnsins hefur valdið því að gagnagrunnskerfið ræður illa við að bera uppi vinnsluna og leggst æ oftar niður undan álagi. Mikilvægt er að flytja kerfið í fullkomnari gagnagrunn á öflugri vefþjóni. Um leið þarf að huga að endurskoðun á gagnahögun sem nú felur í sér ýmsar hömlur, einkum við skráningu kvæða undir mörgum bragarháttum og höfunda sem hafa tengsl við fleiri en eitt landsvæði. Nauðsynlegt er einnig að geta tengt ótakmarkaðan fjölda höfunda, bragarhátta og heimilda við hvert kvæði/vísu. Þá þarf að halda utan um breytingarsögu alls sem skráð er. Þetta er ekki aðeins mikilvægt til að tryggja að upplýsingar séu öruggar, rekjanlegar og nákvæmar heldur er þetta forsenda þess að geta tekið þátt í samstarfi við aðra rannsóknarvefi um dreifða gagnavinnslu, eins og lögð hafa verið drög að í samstarfi við Ísmús, Þjóðfræðasafnið og fleiri aðila. Árnastofnun hefur boðið fram hýsingu á öflugri vefþjóni með PostgreSQL-kerfi en aðrar breytingar eru háðar því að fjámagn fáist til þeirra en þar er ekkert í hendi.

Bragi og innlent samstarf. Fyrir not vefsins skiptir miklu að skjala- og bókasöfnum víðsvegar um land gefst nú kostur á að fá sitt rúm á vefnum. Fyrstur rann Vísnavefur Skagfirðinga þar inn með öllum sínum lausavísnafjölda. Næst bættust í hópinn Kvæðasafn Vestmannaeyja og Kvæðasafn Kópavogs en sáralítið hefur ennþá verið skráð inn á þær einingar. Í byrjun árs 2013 bættust og við Héraðsskjalasafn Mosfellsbæjar og Héraðsskjalasafn Árnesinga og hefur nokkuð verið skráð inn á þau söfn. Einnig var opnaður vísnavefur fyrir Þingeyinga á Braga en skráning á hann er engin enn sem komið er. Skjalasafn Svarfdæla á Dalvík bættist í hópinn í lok árs 2013 og nefnist safn þess Haraldur. Í fyrstu viku ágúst 2014 var opnaður undir Braga kvæða- og vísnavefurinn Húnaflói. Ingi Heiðmar Jónsson stýrir þeim vef. Hann spannar svæðið frá Vatnsskarði til nyrstu stranda vestan Húnaflóa. Auk þessara safna eru tveir rannsóknargrunnar hýstir á Braga. Er annar Greinir skáldskapar þar sem megináhersla liggur á rannsóknum Eddukvæða. Hinn er rannsóknargrunnur Yelenu Sesselju Yersovu með íslenskum þulum og þuluafbrigðum en doktorsverkefni hennar fjallar um íslenskar þulur. Rannsóknargrunnar þessir eru einungis nýttir til rannsókna og ekki opnir almenningi.

Samstarf við Alfræði íslenskra bókmennta (Ástráð Eysteinsson og Garðar Baldvinsson). Alfræðin fær að nýta sér upplýsingar af Braga að vild (þarf þó vitaskuld að geta heimilda) og Bragi fær á sama hátt að nýta upplýsingar alfræðinnar.

Önnur tungumál: Á Alþjóðaþingi esperantista sem haldið var í Hörpu sumarið 2013 var í tengslum við Braga opnaður bragfræðivefur fyrir kveðskap á Esperanto, Poetika retejo. Er það fyrsti vefurinn á öðrum málum en íslensku sem tengist Braga. Þegar hafa verið færð inn á hann 278 ljóð. Þar af eru 125 þýdd úr íslensku. Þá var á fyrrihluta árs 2014 opnaður norskur vefur á Braganetinu, Skalde Brage, í samvinnu við Norðmenn (Gro Tove Sandsmark, Ingeborg Huus og Klaus Myrvoll). Báðir þessir vefir gætu haft talsverða þýðingu fyrir rannsóknir í samanburðarbókmenntum þegar fram líða stundir.

Á næstunni verður kappkostað að treysta grunninn og bæta einstakar einingar hans. Áfram verður hugað að skráningu ljóða og lausavísna og lögð áhersla á að fá vísur eftir höfunda sem víðast af landinu. Jafnframt verður leitast við eftir föngum að birta á vefnum kveðskap sem fram að þessu hefur eingöngu verið til í handritum. Þá verður fram haldið vinnu við Handbók og Hugtök.

Kristján Eiríksson var ritstjóri Braga frá upphafi þar til tók við í mars 2014 og stýrði vefnum til áramóta 2016 og 2017.
tók við forritun Braga árið 2012 og vann að henni til loka árs 2016 auk ritstjórnarstarfa við vefinn á síðari hluta þess tíma. Það má því segja að vinna hans við Braga – óðfræðivef hafi staðið óslitið í að minnsta kosti fjögur ár.

Kristján Eiríksson er nú ritstjóri Braga, tók við af í upphafi árs 2017.

20. ágúst 2017

Kristján Eiríksson