BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Um Braga

Bragi er safn- og rannsóknagrunnur sem hefur margþætt hlutverk:

 

·        Að skrásetja áreiðanlegar útgáfur íslensks kveðskapar og gera grein fyrir aldri einstakra verka eftir því sem næst verður komist, veita upplýsingar um höfunda og bragarhætti og tilurð skáldskaparins þar sem við á og gera grein fyrir heimildum.

·        Að þróa rannsóknar- og greiningartæki sem nýtist á ýmsum sviðum: bragfræði, málfræði, bókmenntum, sagnfræði og þjóðfræði.

 

   Í Braga hefur verið unnið að myndrænni framsetningu á einkennum bragforma hvað varðar bragliðagerð, rím og stuðlasetningu. Myndræna framsetningin er einkum ætluð til skýringar og einföldunar og hefur kennslufræðilegt gildi. Hún grundvallast á kennistreng sem er nákvæm bragarháttarlýsing sem kallar fram bragmyndina. 

   Í Handbók er gerð grein fyrir uppbyggingu vefsins og hinni myndrænu frasetningu hans. Í henni hafa einnig verið lögð drög að skrá yfir hugtök og heiti í bragfræði. Sú vinna er skammt komin en þó er nú þegar hægt að fletta upp á helstu meginhugtökum.

Bragarhættir: Bragarhættir eru sýndir í myndrænu formi (bragmynd) sem tölvan býr til út frá svonefndum kennistreng eins og áður segir. Þá eru einnig gefin dæmi um einstaka hætti. Stefnt er að því að háttgreina í Braga megnið af hefðbundnum kveðskap íslenskum frá upphafi til okkar daga. Út frá þeirri skráningu yrði unnt að gera rækilega grein fyrir íslenskri bragsögu. Ýmsar villur og gallar eru ennþá í þessari einingu. Rangar bragmyndir eru við sum ljóðanna og  ennþá vantar hálfrím í hina myndrænu túlkun. Á næstunni verður unnið að því að koma þessum þáttum smám saman í lag.


Ljóð: Nú hafa verið birt  3012 heil kvæði á Braga - óðfræðivef  (voru 2677 í september 2021). Þar á meðal eru fjölmörg eddukvæði, allir sálmar Marteins Einarssonar úr Sálmakveri hans frá 1555, nær öll þekkt kvæði Einars í Eydölum, allnokkrir rímnaflokkar, nokkrir sagnadansar og allir Passíusálmar Hallgríms Péturssonar og fjölmargir aðrir sálmar hans. Stefnt er að því að færa inn í þessa einingu sem mest af íslenskum kveðskap, að minnsta kosti fram til 1820. Kostað verður kapps um að hafa alltaf besta fáanlegan texta ljóðanna í þessari einingu.

 

Lausavísur: Skráðar hafa verið 2056 lausavísur (voru 2007 í september 2021) og þær flokkaðar og gerð grein fyrir tildrögum þeirra og sögum sem þeim tengjast séu  þær þekktar. Þessi eining ætti að vera orðin nokkuð hnökralítil þótt vafalaust megi þar að ýmsu finna. Nokkrar fornar dróttkveðnar vísur hafa verið færðar hér inn og sumar þeirra skýrðar. Áfram verður unnið að því að skrá í þessa einingu lausavísur, einkum þó frá eldri tíma.


Vinna við Braga. Höfundar hinnar nýju myndrænu framsetningar á Braga eru Kristján Eiríksson og Jón Bragi Björgvinsson. Kristján hannaði hin myndrænu form en Jón Bragi sá um útfærslu þeirra á rafrænu formi og hönnun gagnagrunnsins fyrir háttatal. (Sjá: Óðfræðiágrip sem þeir gáfu út á lokadag vetrarvertíðar 2001). — Margir hafa síðan komið að vinnu við Braga - óðfræðivef frá því honum var ýtt úr vör. Tölvuvinnslu og forritun annast Trausti Dagsson og Magnús Ágúst Magnússon.

  Kristján Eiríksson hefur allt frá stofnun unnið að bragskráningu og fræðilegri vinnu en fleiri hafa þar komið að, t. d. Yelena Sesselja Helgadóttir og Sigurborg Hilmarsdóttir. Þá hafa eftirtaldir unnið að því að koma lausavísum og helgikvæðum á tölvutækt form og samræma stafsetningu þeirra: Katrín Ragnarsdóttir, Sverrir Norland og Reynhildur Karlsdóttir. Hefur talsvert af því efni verið sett inn á Braga en þar er þó ennþá allmikið óunnið.


Bragi og innlent samstarf. Fyrir not vefsins skiptir miklu að skjala- og bókasöfnum víðsvegar um land gefst nú kostur á að fá sitt rúm á vefnum. Fyrstur rann Vísnavefur Skagfirðinga þar inn með öllum sínum lausavísnafjölda. Næst bættust í hópinn Kvæðasafn Vestmannaeyja og Kvæðasafn Kópavogs en sáralítið hefur ennþá verið skráð inn á þær einingar. Í byrjun árs 2013 bættust og við Héraðsskjalasafn Mosfellsbæjar og Héraðsskjalasafn Árnesinga og hefur nokkuð verið skráð inn á þau söfn. Einnig var opnaður vísnavefur fyrir Þingeyinga á Braga en skráning á hann er engin enn sem komið er. Skjalasafn Svarfdæla á Dalvík bættist í hópinn í lok árs 2013 og nefnist safn þess Haraldur. Í fyrstu viku ágúst 2014 var opnaður undir Braga kvæða- og vísnavefurinn Húnaflói. Ingi Heiðmar Jónsson stýrir þeim vef. Hann spannar svæðið frá Vatnsskarði til nyrstu stranda vestan Húnaflóa. Hver stofnun (útgefandi) ber ábyrgð á sínu efni.
   Samstarf við Alfræði íslenskra bókmennta (Ástráð Eysteinsson og Garðar Baldvinsson). Alfræðin fær að nýta sér upplýsingar af Braga að vild (þarf þó vitaskuld að geta heimilda) og Bragi fær á sama hátt að nýta upplýsingar alfræðinnar.

[Önnur tungumál. Á Alþjóðaþingi esperantista sem haldið var í Hörpu sumarið 2013 var í tengslum við Braga opnaður bragfræðivefur fyrir kveðskap á Esperanto, Poetika retejo. Er það fyrsti vefurinn á öðrum málum en íslensku sem tengist Braga. Þegar hafa verið færð inn á hann 278 ljóð. Þar af eru 125 þýdd úr íslensku. Þá var á fyrrihluta árs 2014 opnaður norskur vefur á Braganetinu, Skalde Brage, í samvinnu við Norðmenn (Gro Tove Sandsmark, Ingeborg Huus og Klaus Myrvoll). Báðir þessir vefir gætu haft talsverða þýðingu fyrir rannsóknir í samanburðarbókmenntum þegar fram líða stundir.

Þessir vefir eru þó ekki vistaðir á Braganetinu]

Á næstunni verður kappkostað að treysta grunninn og bæta einstakar einingar hans. Áhersla verður lögð á að bæta skráningu bragarhátta. Áfram verður unnið að skráningu ljóða og lausavísna og lögð áhersla á að fá skáldskap eftir höfunda sem víðast af landinu og tengja við bæja- og staðatal sem nú er unnið að. Jafnframt verður leitast við eftir föngum að birta á vefnum kveðskap sem fram að þessu hefur eingöngu verið til í handritum eða öðrum lítt aðgengilegum heimildum. Þá verður fram haldið vinnu við Handbók og Hugtök og gert einfaldara að fletta upp skáldskap frá ákveðnum tímabilum. Líka verður stefnt að því að skilgreina efnisflokka ljóða og lausavísna og færa skilgreiningar þeirra inn á Handbók Braga. 

   Í upphafi þessa árs var mynduð fimm manna ritstjórn Braga og áttu sæti í henni: Haukur Þorgeirsson, Kristján Eiríksson, Magnús Ágúst Magnússon, Rósa Þorsteinsdóttir og Þórunn Sigurðardóttir.  

   Þá hefur Haukur Þorgeirsson nú tekið við af Kristjáni Eiríkssyni sem ritstjóri Braga.


  23. nóvember 2022. 


Kristján Eiríksson tók aftur við ritstjórn Braga seinni hluta árs 2023.