Sjöunda ríma | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Ésúsarrímur 7

Sjöunda ríma

ÉSÚSARRÍMUR
Fyrsta ljóðlína:Margir í heimi hugsa’ um seim og hefð og frama
bls.66–71
Bragarháttur:Afhent – skjálfhent (aloddhent, fimmstiklað, netthent)
Viðm.ártal:≈ 1950
Flokkur:Rímur
1.
Margir í heimi hugsa’ um seim og hefð og frama,
um eilífð þeim er alveg sama.
2.
Þótt þú lammir, þreyttur þrammir þrönga veginn
hlýtur þú skammir hinumegin.
3.
Þú munt kanna þá að sannast þessi óður.
Guð er ekki öllum góður.
4.
Er Drottni stefna þóknast þér fyrir þyngstu dóma
mun hann hefna, en sýna ei sóma.
5.
Og nær Drottinn ætlar þig að yfirheyra
þú skalt leggja þar við eyra.
6.
Þá upp róta þú munt hljóta þínum syndum,
þar er ljótum margt af myndum.
7.
Þá mun Herrann hefja máls og horfa á þig,
– annars lætur hann aldrei sjá sig.
8.
Hann mun segja: „Hér er kominn Herjans þrjótur,
sá er bæði leiður og ljótur.“
9.
Síðan snýr hann sér að þér og segir af móði:
„Hlustaðu á mig, heyrðu góði.
10.
Eg veit glöggt að, auminginn, þú ert í vanda,
við orð þín hér þú átt að standa.“
11.
Göfugt muntu gefa svar ef gjörla eg þekki:
„Guðsi minn, það get ég ekki.“
12.
„Djöfull ertu dreissugur,“ mun Drottinn segja,
„Þú ættir, vondur þræll, að þegja!“
13.
Þú munt svara: „Þess muntu var hver þrælinn skapti.
Haltu bara helvítis kjafti!“
14.
Ef þú skemmta ætlar þér og ert mjög þreyttur,
af angri og kvíða sár og sveittur,
15.
ljóst er þá að lögreglan þinn leysir vanda,
– Aldrei lætur hún á sér standa.
16.
Veit ég það, hún vald sitt fær frá vondum bjálfum,
afl og þrek frá Satan sjálfum.
17.
Hún kastar þér í kvalastað í kjallaranum.
– Eflaust studd af Andskotanum.
18.
Rembilát er réttvísin, hún ræður seinast.
– Sú mun fæstum réttsýn reynast.
19.
Aumt er að hafa yfir sér það arga pakkið;
en klerka segja: „Þegið, þakkið!“
20.
Það er sjálfsagt þakkarvert að þjást og líða,
Eftir hverju er svo að bíða?
21.
Hér ver höfum ávallt iðkað iðjur leiðar,
hvorki haft til hnífs né skeiðar.
22.
Þá um síð að þessu lýkur, – það held ég bara –
til Andskotans þú átt að fara.
23.
Veit ég munu’ þá við þér taka Vítis púkar.
– Þeir hirða allar sálir sjúkar.
24.
Ljóti karlinn leggur þig á logandi glóðir.
– Svo kenndu’ oss forðum klerkar fróðir.
25.
En eitt er víst að ýmsir munu Íslendingar
telja það þunnar trakteringar.
26.
Dýrt er kallað Drottins orð, minn drengur góði.
Mansöngs er nú lokið ljóði.

> * * *
27.
Við sjöttu rímu sú mig glíman sáran þreytti,
orku því ég allrar neytti.
28.
Sú réð kviðan kynna frá þeim karlafjöndum
er lausnarann teymdu burt í böndum.
29.
Því var líka lýst í þessu ljóðamasi
að Krist þeir færðu Kaífasi.
30.
Kaífas vildi við honum taka víst ótrauður.
– Sá er fyrir lifandi löngu dauður.
31.
Þeir keyrðu hann í kjallarann hjá Kaífasi
með alls kyns djöfuls þrefi og þrasi.
32.
Reyndar um síð þeir ráku’ hann upp til réttarhalda.
– Því myndu klerkar og Kölski valda.
33.
„Ertu kóngur?“ Kaífas mælti, „hvar eru gögnin?
Styðja þig kannske myrkra mögnin?“
34.
Kristur gegndi: „Kaífas þú mátt kjafti halda,
aldrei sótti eg til valda.
35.
Víst er ég kóngur, viltu kannske vald mitt rengja?
Þig gæti ég lifandi látið hengja.“
36.
Kaífas meinti *að mundi hann sjálfur manna bestur,
enda var hann æðsti prestur.
37.
„Heyrið, klerkar, hvað hann ruglar, hann er frá sér,
ég held hann finni ennþá á sér.
38.
Vér kennum engan krýndan hér með konungdómi
utan keisarann einn í Rómi.“
39.
Herrann svarar: „Heyri ég hvað þér hermið klerkar,
mjög það illa á mig verkar.
40.
Mitt er veldi vonum meira, eg vel þess geymi,
en það er ekki af þessum heimi.“
41.
Kaífas mælti: „Kristur, þú ert karl hálfskrítinn,
þú hefur fengið þér einn „lítinn“.“
42.
Sjóli tér: „Nú snýst ég hér sem snöruð rjúpa,
kaleik þenna’ eg samt skal súpa.“
43.
Görguðu klerkar: „Gæti þá skeð að gortið lægði?
Æðrast nú sá er aldrei vægði!“
44.
Kaífas þá til þengils leit og þar með brosti’ hann:
„Vér ætlum að lægja í þér rostann!“
45.
Kristu ansar: „Eg held síst ég undan láti.
Þú heldur víst ég guggni’ og gráti.
46.
Eldar Satans senn munu upp þig sjálfan brenna;
þú mér enn ei þarft að kenna.
47.
Þínu valdi eg var aldrei ofurseldur;
ég hræðist ei þína þræla heldur.“
48.
„Helvíti’ ertu hortugur,“ þá hrópa prestar.
„Þínar píslir verða verstar!“

> * * *
49.
Nú hefi’ ég engan leka lengur lífs af vatni.
Þá trúi’ ég drengjum þrekið sjatni!
50.
Mig brestur móðinn, bræður góðir, búinn er óður.
Úti eru ljóðin lagsi góður.


Athugagreinar

1.
erindi vantar hjá Iðunni.
3.
erindi vantar hjá Iðunni.
4.
erindi er þannig hjá Iðunni:
Og er þér stefnt er ásíðan að efsta dómi
lítill mun þér sýndur sómi.
5.1 nær] er Iðunn.
10.1 glöggt] það Iðunn.
12.2 Þú ættir, vondur þræll, að þegja] argur þrællinn ætti að þegja Iðunn.
17.
erindi vantar hjá Iðunni
18.2 fæstum] flestum Iðunn.
19.1 Aumt] Illt Iunn.
22.1 að þessu lýkur] er þessu lokið Iðunn.
24.2 fróðir] góðir Iðunn.
31.2 þrefi] þjarki Iðunn.
32.1 þeir ráku hann] hann rekinn var Iðunn.
32.2 myndu] munu Iðunn.
33.2 Styðja þig kannske] Þig munu styðja Iðunn.
35.2 lifandi látið] látið lifandi Iðunn.
36.1 að myndi hann vera] > að mundi hann sjálfur Iðunn.
37.2 ég held hann finni] sjálfsagt finnur hann Iðunn.
40.1 veldi] valdið Iðunn.
42.2 þenna eg] þann ég Iðunn.
43.1 Gæti þá] Gat það Iðunn.
46.1 upp munu senn] > senn munu upp (vegna stuðlasetningar) Iðunn.