Sjötta ríma | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Ésúsarrímur 6

Sjötta ríma

ÉSÚSARRÍMUR
Fyrsta ljóðlína:Þó að mæði Þundar vín
bls.61–65
Viðm.ártal:≈ 1950
Flokkur:Rímur
1.
Þó að mæði Þundar vín
þellur pellaskrúða
skal ég, glæðu Hrannar Hlín,
hefja kvæðin aftur mín.
2.
Vart má skrika vegum á
vilji’ eg þylja ljóðin.
Stórt ei kvika’ eg stefjum frá,
stikluvik hér skaltu fá.
3.
Í óðinn sprungu afleit skörð,
enginn drengur skyldi
erja klungrin óðs um jörð,
iðja þung er ljóðagjörð.
4.
Mansöng þrýtur þá til sanns,
þótti dróttum betur,
orð má líta innra manns
og einskisnýtu ljóðin hans

> * * *
5.
Jesús gekk í grasgarðinn
greitt með þreytta sveina.
Öls var bekkur uppsopinn,
ei þeir drekka meira’ um sinn.
6.
Eftir svallið uppgefinn
álmur skálma rammur
synd hóf alla á hrygginn,
á honum hallast klyfberinn.
7.
Skundar engill að honum frár,
undir stundi þunga
kundur þengils himna hár,
hrundu’ á vengi blóðug tár.
8.
Himnasendill hugga vann
hristi Mistar loga.
„Ertu kenndur?“ innti hann.
„O, það hendir fjölmargan.“
9.
Öðling svalur andsvör tér:
„Ekki drekk ég meira.
Eitt ég fala þó að þér:
Þennan kaleik tak af mér.
10.
Köllun sinna minni’ ég má
mest þó fresta vildi.
Nauðugur vinn ég nauðsyn. þá.
nú vil ég finna strákana þrjá.
11.
Þengill snjallur þar hittir
þunda mundar klaka.
Það voru kallar þolgóðir;
þeir vóru allir sofnaðir.
12.
Hyrjar spröku hreiðra grér
hjalaði valin orðin:
„Engrar vöku orkið þér,
eymdar slöku kauðarner.“
13.
Vísir semur vísdóm þann:
„Vakið takið biðja.“
Svo enn fremur sagði hann:
„Sjá hér kemur lögreglan.“
14.
Júdas fyrstur fara vann
fylltur illt með sinni,
þá að Kristi þrammar hann.
Þrjóturinn kyssti Frelsarann.
15.
Buðlung nú réð byrsta sig
brátt og hátt svo mælti:
„Satan trúi’ ég sendi þig,
svíkur þú með kossi mig?!“
16.
Pétur flanar fram á svið,
fleininn reyna vildi.
Hinna bana hræddist við
hugarvana skauða lið.
17a. Bjóst að drepa bráðólmur
blauða kauðagarma
Hárs í nepju hamrammur,
Hildar krepju þaulvanur.
17.
Ólma geira efldi þrá,
óður vóð að Malkus;
honum eyrað af réð flá,
ekki fleiri högg þarf sá.
18.
„Hirð ei brand að hvetja þinn,“
herrann snerrinn mælti:
„Í slíður vandað set um sinn
sveðjufjandann, Pétur minn.“
19.
Jesús herja hlunnum tér:
– Hristu þeir kvisti sára. –
„Ekki berjast ættuð hér,
eða að hverjum leitið þér?“
20.
Svör þau fyrst þá sveit út lét
sverða – herði – hríðar:
Jesús Kristur hyggjum hét,
hann er víst frá Nazaret.
21.
Sjóli stæltur svara vann
sára – dárum – teina.
Óðar mælti: „Eg em hann.“
Ei var dælt að fást við þann.
22.
Hrausta og snjalla hér má sjá
hróka er skóku fleina.
Hörfuðu kallar hraustir frá,
hlunkuðust allir rassinn á.
23.
Upp þeir stóðu aftur skjótt,
ekki gekk þeim betur,
Hnikars glóðir hristu ótt,
að Herranum vóðu um miðja nótt.
24.
Þrælar skóku skyggða rönd,
skelltu’ og smelltu vopnum.
Fleina hróka fúl var önd,
Frelsarann tóku’ og keyrðu í bönd.
25.
Hér um masa meira’ ei kann,
mér er hér með lokið.
Kaífasi færðu hann.
– Fjandans þras um Lausnarann!

> * * *
26.
Nú fer síga sálminn á,
svein og meyna’ eg þreyti.
Þeygi lýg ég þessu frá,
þó frá hníga kveðskap má.
27.
Um það veðja eg nú kann
að undan mundi ég láta.
Samt ég geðast sumum vann.
Svo skal kveðja brag þennan.


Athugagreinar

3.1 Í óðinn sprungu afleit skörð] Oft mig stungu undorn hörð Iðunn.
6.2 rammur] ramur Iðunn.
10.3 nauðsyn] nauðung Iðunn.
11.2 loga] klaka Iðunn.
11.3 þolgóðir] þrautseigir Iðunn.
13.3 sagði hann] segja vann Iðunn.
14.3 þrammar hann] þramma vann Iðunn.
16.3 Hinna bana] Himnabana Iðunn.
17a. vísu vantar í útgáfu Sturlu, er aðeins hjá Iðunni.
19.
herjs] Herjans Iðunn.
20.1 út] greidd Iðunn.
23.1 aftur] allir Iðunn.
23.2 betur] miður Iðunn.
24.4 keyrðu] settu Iðunn.
26.4 þó] því Iðunn.
27.2 myndi] > mundi (rímsins vegna) Iðunn.
27.3 Samt ég geðast sumum] suma gleðja samt ég Iðunn.
27.4 skal] má Iðunn.