Fimmta ríma | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Ésúsarrímur 5

Fimmta ríma

ÉSÚSARRÍMUR
Fyrsta ljóðlína:Nýjan braginn nú skal hefja
bls.51–60
Bragarháttur:Skammhent – Víxlhent
Viðm.ártal:≈ 1950
Flokkur:Rímur

Skýringar

Ríman hefur verið borin saman við sömu rímu á heimasíðu Iðunnar og er getið lesbrigða þeirra er þóttu nokkru varða. Á fjórum stöðum voru lebrigði Iðunnar tekin fram yfir hér og eru þeir staðir stjörnumerktir í texta. Þá vantar í texta Iðunnar fjórar vísur: 25, 38, 45 og 53.
1.
Nýjan braginn nú skal hefja,
nýtum veld ég söng;
því með lagi stuðlar stefja
stytta kveldin löng.
2.
Templarar þeygi þurfa’ að kvíða,
– um þá ég skrafa vil:
Umbun megi öðlast síðar
sem unnið hafa til.
3.
Mest þeir líkjast morknum draugum
mein, sem unnið fá,
blína slíkir brostnum augum
bresti hvers manns á.
4.
Erkidjöflar víst án vafa;
veit það trúa mín.
Skyldi Guð þá skapað hafa
skammast mætti’ hann sín.
5.
Látum strákar staupin ganga,
styrkjum andans þol.
Drekkum ákaft ölið stranga.
Engin handaskol!
6.
Hefjum kútinn, hækkum raulið,
fyrst höfum fengið mál.
Mansöngs úti er nú gaulið.
Áfram drengir, – skál! –

> * * *
7.
Fjórða ríman frá því greindi
að fyrri bæði og síð
og alla tíma öðling reyndi
auman fræða lýð.
8.
Út rak púka’ og allan fjandann,
að því er Lúkas tér.
Margur sjúkur illan andann
úr fann rjúka sér.
9.
Eitt sinn þá sín iðkar fræði,
álma Njörður leit
sér skammt frá í sæld og næði
svínahjörð á beit.
10.
Drottinn hóar djöflum mörgum
dýrahróin í.
Þau fóru’ í sjóinn fram af björgum.
– Flestöll dóu’ af því. –
11.
Fóðraði snauða á fiski og brauði,
frelsar í nauðum enn.
Verndaði kauða, *villta sauði,
vakti’ upp dauða menn.
12.
Að næði’ upp fjölda’ af náum köldum
– nokkrir halda það enn; –
en fært það töldu fyrr á öldum
flestir galdramenn.
13.
Til Jerúsalem Jesúm langar,
jafnan að því hné;
löng þó talin leiðin þangað
labbandi manni sé.
14.
Þengill tvo af þegnum sendi
í þorp er nærri lá.
Ritning svo það rekkum kenndi.
Ræsir mælti þá:
15.
„Ösnu bundinn finnið fola,
færið mér hann senn.
Ykkur *mundu þetta þola
þessa héraðs menn.
16.
Ef eitthvert grey vill eitthvað segja
ykkur skiljast má:
Bara segið þeim að þegja,
þengill vilji’ hann fá.“
17.
Alls með kurt þess ýtar geymdu
er öðling skipa vann.
Folann burt í flýti teymdu,
færðu’ honum gripinn þann.
18.
Kómu því næst þeir og sögðu:
„Þvílíkt stímabrak!“
Á folann sína larfa lögðu,
Lausnarann settu’ á bak.
19.
Er þeir svo með hægu hóti
héldu sína leið
æpandi þeim óð á móti
Ísraels hersing gleið.
20.
Borgarfólkið flíkum sínum
fleygði veginn á,
grýtti pálmagreinum fínum
um götuna til og frá.
21.
Lýðurinn hljóp þar hrifning fylltur,
– honum var létt um spor. –
Hósanna æpti hreint sem trylltur:
„Heill þér kóngur vor!“
22.
Buðlung reið um borgarhliðið
með „brogað“ fylgdaralið;
hann er leið þá hafði riðið,
hélt í musterið.
23.
Í musteri valla brask má bralla,
braml réð gera þar:
Rak út alla okurkalla
eins og vera bar.
24.
Næstu viku drottinn dvaldi
í dýrri Zíons borg,
kjaftaði mikið, menn átaldi
í musteri’ og víða um torg.
25.
Postular fundu fylki’ að máli,
feyki Hrannar báls.
Feimni hrundu, hiki’ og prjáli;
hófu þannig máls:
26.
„Gleðin páska geyst að fer nú,
gengur mikið á.
Þeygi háska öllum er nú
ennþá vikið frá.
27.
Hér er skrambans vont að vera,
vantar betri stað.
Páskalambið líst oss skera;
langar að éta það.“
28.
„Reynið hvað þið framkvæmt fáið, “
fylkir tala vann:
„Þekkan stað í þorpi ef sjáið,
þá er að fala hann.“
29.
Meiðar svangir mækis gengu
með farangur sinn.
Breiðan langan loftsal fengu,
löbbuðu þangað inn.
30.
Buðlung góður bar inn sullið
birgðum nægum af.
Sjálfur stóð og signdi fullið,
sveinum þægum gaf.
31.
Næst réð gramur brauðið brjóta,
blessaði fína vist;
bar það fram og bað þá njóta,
borða sína lyst.
32.
Jesús ber fram sögu’ að sinni,
– sú var tíkarlig:
„Sá mun vera einn hér inni
er ætlar að svíkja mig.“
33.
Sveinar urðu sviptir móði.
– Sút varð háskaleg. –
Allir spurðu’ í einu hljóðði:
„Er það máske ég?“
34.
Herrann kerið hóf og sagði:
„Heyrðu Júdas minn,
hvað þú gerir gerðu’ að bragði,
gamli kúturinn!“
35.
Júdas kurteis er þar inni,
ekki hrópa vann;
fór í burtu fúll í sinni.
Fjandinn hljóp í hann.
36.
Júdas klerka fór að finna.
– Fjár þeir *áttu vald, –
Fárlegt verk kvaðst fús að *vinna
fengi’ hann endurgjald.
37.
„Kristi’ á vald vort komdu, góði,
kosta þess allt hvað má.
Þér munum gjalda þungum sjóði;
þóknun skaltu fá.
38.
Þú munt varla verða svikinn,
vér skulum sjá um það;
fær þú, karl minn, fjársjóð mikinn.
Farðu þá af stað!“
39.
Kaífas, sá varð kátur næsta,
kastaði allri sút,
bograði þá í byrðu læsta
borgaði kalli út.
40.
Júdas maura mikils virti
meðan andann dró;
þrjátygi aura *þarna hirti.
– Það var fjandans nóg!
41.
Hinir sátu’ að sinni hátíð,
úr sumra hlátrum dró;
drukku’ og átu allt hvað gátu,
allt í máta þó.
42.
Jóhannes sat næstur Kristi
í nógu flottum stað;
saup með Jesú sem hann lysti.
Sumt bar vott um það.
43.
Kempan hallast Krists að barmi,
kvað sér duga’ um hríð.
Hans var fallið afl úr armi.
– Ölið bugar lýð.
44.
Jesús hvasst nam bragna brýna,
bikar vatt á loft:
„Drekkið fast í minning mína,
mikið, glatt og oft.“
45.
Þeir sem mikið unna ölvi,
eins og gjarnt er lýð,
af fá vikið öllu bölvi,
öðlast bjarta tíð.
46.
Kaleik sinn réð sérhver teyga,
– sumir fengu nóg.
Öra kynning vígðra veiga
við sig enginn dró.
47.
Allt var þrotið, brauðið, bruggið,
um borðið vínið flaut;
skemmtan rotin, skapið hnuggið.
Skjögruðu svínin braut.
48.
Gleðjist það er góður vane.
– Geðið álpast heim.
Þeir gengu’ af stað til Getsemane,
Guð má hjálpa þeim!
49.
Yfir Kedron er þeir kómu
öðling seggjum tér:
„Er nú betra, ýtar frómu,
að yður leggið þér.
50.
Rétt er að lalla litlu betur,“
Lausnarinn spjalla réð.
„Jóhannes kallinn, Kobbi, Pétur,
komið þið allir með.
51.
Einhvers kvíða kenni ég á mér,
kemur Júdas senn.
Viljið þið bíða’ og vaka hjá mér?
Verið eins og menn!“
52.
Naumast Júdas boða bíður,
brýndi’ hann mútan ill.
Klerkar Júda’ og kennilýður
Kristi stúta vill.

> * * *
53.
Glæp þeir slyngan framið fengu.
– Fólin hata má –
að því líka’ að afli gengu.
Eigi Satan þá.
54.
Þollar fróðir Þundar glóða,
þrýtur ljóðin enn.
Sefur þjóðin, svefn er góður,
syfjar fljóð og menn.


Athugagreinar

6.2 fyrst höfum] ef höfum vér Iðunn.
11.3 volaða] > villta Iðunn.
15.3 myndu] > mundu (rímsins vegna) Iðunn.
22.2 fylgdarlið] rustalið Iðunn.
23.3 Rak] hann rak Iðunn.
25.
vísu vantar hjá Iunni.
36.2 kenndu] > áttu Iðunn.
36.3 inna] > vinna Iðunn.
38.
vísu vantar hjá Iðunni.
40.3 þarna] þar hann Iðunn.
45.
vísu vantar hjá Iðunni.
50.2 spjalla réð] snjallur kvað Iðunn.
50.4 komið þið allir með] komist þið valla af stað? Iðunn.
51.1 Einhvers] Nokkurs Iðunn.
53.
vísu vantar hjá Iðunni.
54.1 Þundar glóða] Þundarglóðar Iðunn.