Ormars rímur – þriðja ríma | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Rímur af Ormari Fraðmarssyni 3

Ormars rímur – þriðja ríma

RÍMUR AF ORMARI FRAÐMARSSYNI
Fyrsta ljóðlína:Þar skal hefjast hróðrinn minn
Bragarháttur:Stafhent eða stafhenda (stuðlalag)
Viðm.ártal:≈ 1450
Flokkur:Rímur

Skýringar

Ormars rímur eru rímnaflokkur frá 15. öld eftir ókunnugt skáld. Í þeim er sagt frá kappanum Ormari Fraðmarssyni sem tekst á við risann Bjarkmar og föðurbræður hans, Gyrð og Atla. Með risavígunum hefnir Ormar föður síns og eignast að auki konungsdóttur og konungsríki. Efni Ormars rímna er einnig til í norrænum sagnadönsum og hafa menn getið þess til að allt megi þetta rekja til glataðrar fornaldarsögu.
Þrjú handrit hafa textagildi og virðast komin hvert sína leið frá sameiginlegu erkiriti. Elst er Kollsbók (Cod. Guelf. 42. 7. Aug. 4to), frá lokum   MEIRA ↲
1.
Þar skal hefjast hróðrinn minn
höldar fara til vópna sín,
bragnar áttu’ að berjast tveir,
bilaði hvórgi’ að rjóða geir.
2.
Ormar vaknar einkar fystr,
ógurliga til rómu lystr,
hugsar þá að hann skal fljótt
hreppa sigr eða falla skjótt.
3.
Buðlungs sonr í brynju fór,
bæði var sú víð og stór,
setr á höfuðið hjálminn blá
hermannlegur var kappinn sjá.
4.
Meyjan björt af mæði’ og þrá
mildings kvíddi *hún falli þá,
angrar það hina ungu frú
að Ormar átti’ að berjast nú.
5.
Rekkum þótti’ hann reyndur lítt,
þó ráðið tæki’ hann furðu frítt,
átta’ og sjau var ára þá
afreks maður sem greinast má.
6.
Ormar hefir sig út af borg,
ærna báru frúrnar sorg,
í burtu skammt frá buðlungs höll
Bjarkmar verður senn á völl.
7.
Heiðurs maðr á hólmi bíðr,
höldum sýndist kappinn stríðr,
bragnar líta Bjarkmars ferð,
bila mun hvórgi’ að rjóða sverð.
8.
Láðin skelfr og loptin öll,
lasta maðrinn kemr á völl,
grimmlega veðr hann grund til *knjá,
garpa sveitin horfir á.
9.
Ferðin hans var furðu greið,
flýtir sér að örva meið,
grimmlegur sýndist geira Týr,
hann grenjar upp sem villidýr.
10.
Það frá eg ýtum auka styr,
Ormar átti að höggva fyrr,
bilaði *ekki bauga Þór,
Birting dregr hann slíðrum *ór.
11.
Ormar reiddi brandinn blá,
Birting þann eg sagði frá,
* listar maður hjó lærið á,
* læknir engi græða má.
12.
Bjarkmar risi með *bölið og pín
beggja missti' *hann fóta sín,
þar frá eg deyja dólginn þann,
drengi biðr hann heygja hann.
13.
Fraðmars sonur með fremd og skraut
fyrða hefir hann leysta þraut,
kóngrinn gleðst og kappa lið,
keypti' *hann öllum mönnum frið.
14.
* Ormar talar við unga frú,
„eg vil hefna föður míns nú,
mægjast *ei við milding fyrr
en meiri aukist randa styrr.“
15.
*Þellan svaraði þorns með dáð,
„það er hið mesta happa ráð,
láttu falla’ að foldu þá
er föður *þinn réðu löndum frá.“
16.
Ógurlegt var Ormars lið,
eigi munu þeir bjóða frið,
hundrað skeiða herrinn skal
hleypa fram *á fiska sal.
17.
Dreki sá einn er *dögling á
dýrstan fekk í heimi þá,
hann skal setja hlunnum af,
hilmir þenna Ormar gaf.
18.
Ormar kvaddi kóng og mey
kappinn áðr en stígr á fley,
gullskorð eptir grátin var,
garpar fara til strandar þar.
19.
Skatnar stigu á skorðu dýr,
skeiðum þegar á æginn snýr,
halda síðan höfnum frá,
höldar vinda segl við rá.
20.
Byrina allvel brögnum gaf,
bar þá skeiður út á haf,
seggjum verður sigling greið,
svífur fram um fiska leið.
21.
Kemur þar loks að lýðrinn má
litla ey fyrir stafni sjá,
heiðurs maður bað harla fljótt
halda þangað sína drótt.
22.
Geysimart var garpa lið,
gleðjast tók þá Ormar við,
til bað halda hafna þar
herra sá sem randir skar.
23.
Herr lá fyrir í höfnum þar,
höldar frétta hverr sá var
er átti’ að ráða röskri sveit
rekkum fyrir á síldarreit.
24.
„Brögnum ráða bræður tveir,
báðir veittu orma leir,
finnur þú eigi foldu á
frægri menn en báða þá.
25.
*Eyða *þeir með *eggjum flest,
aldri *kveða á sigri brest,
höldar þeir *með harðan þrótt
herja einn veg dag sem nótt.
26.
Gyrð og Atla greini’ eg þér.
Garpsins segðu heiti mér!
Hvert er yðvars herra nafn?
Hann mun kunna’ að seðja hrafn.“
27.
„Ormar ungi ýtum ræðr,
allopt veitir linna glæðr,
hann vill feiga herra þá
er höldum sagðir þú áðan frá.
28.
Vann hann einn með vópnum þann
vestan fekk í heimi mann,
áður gekk yfir lönd og láð,
listar manni’ er kringt um dáð.“
29.
Garpar fundu gumna þá,
Gyrð og Atla, og sögðu frá,
„hér er einn með afl og megn,
ykkur þorir að stríða í gegn.
30.
Bilar hann ekki bragðið neitt,
bróðurson hefir ykkarn deytt,
vær sjáum þá gæfu’ á gildum mann,
getu vér ekki sigrað hann.“
31.
Báðir anza bræður þá,
„beiskur mun hann í fleina þrá.
Þér skulið aptr á Ormars fund
ýtar fara í samri stund.
32.
Þér skulið bóta beiða hann,
bragna hverr sem mjúkast kann,
ef getr hann Bjarkmar gulli bætt,
gunnar fái þá fulla sætt.
33.
Ef þegninn eigi vill sem vær
vón er þess að kappinn fær,
dálega mun þá dauðans pín
drengrinn hljóta’ af þrjózku sín.“
34.
Höldar fundu heiðurs mann,
hæversklega þeir kvöddu hann,
erendum skila sem eg vil tjá,
Ormar gjörði’ að hlýða á.
35.
„Ef bræðrum viltu *bjóða seim
só báðum líki frændum tveim,
láð og góz *sem lýða hald
*leggur þú *upp á þeira vald.
36.
Fylgja láttu falda laut,
frestast mun þá branda þraut,
þá skal eyðast odda þrá,
Ormar tók að reiðast þá.“
37.
„Skjóta fær þú skömm og pín
ef skilar þú lengur erendum þín
hefr af öllum hatr og spé
en hreppið hvórki víf né fé.
38.
Skulu *ei frúrnar frétta heim
að fyrðum leggi’ eg brenndan seim,
fyrr skal hverr í fleina þrá
falla niður sem óðast má.
39.
Báðum seg þú bræðrum það
að bragnar skulu nú rétt í stað
vaskir auka vópna þrá,
virðar reyni hverr *sem má.“
40.
Garpar fundu gunna þá,
Gyrð og Atla’ og sögðu frá:
„só er hann gjarn á geira þrá
garpnum engi hamla má.
41.
Að morni setr hann málma dögg,
*munum þá reyna *vaskleg högg,
garpar búist við branda hríð,
berlega vill hann *auka stríð.“
42.
Báðum líkar bræðrum það
þó buðlung auki odda *slag,
þar skal lúka ljóða sal,
lýða herrinn berjast skal.