Fjórða ríma [Jesús Síraksbók snúin í rímur] | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Síraks rímur 4

Fjórða ríma [Jesús Síraksbók snúin í rímur]

SÍRAKS RÍMUR
Fyrsta ljóðlína:Fjórða sinni ferskan óð
bls.372
Bragarháttur:Gagaraljóð – óbreytt
Viðm.ártal:≈ 1600
Tímasetning:1612
Flokkur:Rímur
Fjórða ríma
1.
Fjórða sinni ferskan óð
færi eg þeim er hlýða til,
hafni ei hin horska þjóð
heilræðin eg ljóða vil.
2.
Skemmtun hvör sem hyggst að fá,
hyggindi og lærdóms mennt,
Síraks orðin elski sá,
af þeim leiðir gagnið tvennt.
3.
Hússins skart og skemmtun dýr,
skikkun mæt og þarfsamlig,
kristin þar sem þjóðin býr
þanninn lætur merkja sig.
4.
Soddan dikt og dyggðarráð
Drottinn skyldi læra flest,
heilags anda hjálpi náð
að halda því oss gegnir best.
Tíundi kapituli
5.
Mannsins vinnan vönduð sé
því verkið lofar meistarann,
margur hygginn höfðingi
heiður af sínum gjörðum fann.
6.
Í valdstjórn er það óráðs vegur
orðmælgi að flytja fram,
soddan skraf og skvaldur dregur
skýran mann í lasta vamm.
7.
Hvör dómari harður er
á hyggindum sá er vissi skil.
Þar sem valdstjórn visku ber
vel mun gjarnan ganga til.
8.
Undirmanna er athöfn ein
augljóst merki stjórnarans.
Illur kóngur eykur mein
og allan skaða lýðs og lands.
9.
Lýðs og landa stjórnin sterk
stendur Guðs í hendi rétt,
Drottinn fyr það dýra verk
dyggva menn hefur löngum sett.
10.
Herrans stoð og sterka vald
stjórnaranum lukku lér,
þeim hann veitir heiðurshald
og hentuglegan kanselier.
11.
Um gjörðir manna girnst ei á
grannt að leggja hefnd á allt,
né sinni þínu svala þá
er sökuðum þú refsa skalt.
12.
Dreissugir og drambsamir
Drottins reyna lyndið strangt,
heimur líka hatar þá hér
því hvörjum tveggju gjörðu rangt.
13.
Ofríki og ágirnd fjár,
ef óréttindin styðja að,
þessar kunna kempur þrjár
kónga ríkin hræra úr stað.
14.
Jörðin aum og öskusaur
ekki þarf að hreykja sér,
sem rjótt er leir og leiður aur
lífið meðan að endist hér.
15.
Og þótt það lappi læknarinn
lyktan svo um síðir fer,
kóngur í dag með dýrleik sinn
dauður strax á morgun er.
16.
En þá maður er fallinn frá
fer það um hann svo til sanns,
maðka verður maturinn þá
og mettar orma holdið hans.
17.
Drambsins er sú daufleg rót
Drottni sínum falla frá,
hvör sem þar í festir fót
föllum varla sneiðir hjá.
18.
Því hefur jafnan Drottins dáð
drambseminni kollvarpað,
lækkað slíka og löngum smáð
en lága sett í þeirra stað.
19.
Heiðingjanna hefðarrót
herrans reiðin sleit upp þrátt,
auðmjúka þar aftur á mót
inn plantaði á þennan hátt.
20.
Herrann lét þau heiðnu láð
hrörna mjög og eyddi þeim,
umturnað og af hefur máð
einninn þeirra nöfn um heim.
21.
Drambsemi er drengjum síst
af Drottni sett í hjartans rann.
Má það öllum virðast víst
að vondan Guð ei gjörði mann.
22.
Heldur sá sem hræðist Guð
með heiðri jafnan gengur fram.
Hinn sem brýtur herrans boð
hittir beint í last og skamm.
23.
Guðhræddir menn vilja víst
valdið heiðra rétt sem ber,
þar fyrir Guð þeim gleymir síst,
gætir þeirra og föllum ver.
24.
Féþurfar og fullríkir,
frómur bæði og vesæll mann,
hrösun þeirra ei önnur er
en ótti Guðs ef geymdu hann.
25.
Fremd er ei að forsmá þann
fátækan er skynsemd ber
en auðugan að akta mann
sem óguðrækinn heldur er.
26.
Höfðingjar og herrar fá
heiðurs lofið vítt um heim,
valdsmenn góssi og gengi ná
en guðhræddur er æðri þeim.
27.
Stundum verður vitrum þjón
að veita æru herra hans,
sér það ekki telur hann tjón
þó tigna bæri skynsemd manns.
28.
Valdstjórnari ef þú ert
eigin þótta styðst ei við,
sérgóður þú síður vert
þá seggjum þarft að veita lið.
29.
Verki því þér vinnur björg
væri betra að fylgja framt
heldur en fremja og fást við mörg,
fátækur þó verða samt.
30.
Haf þú, son minn, hógvært geð
hvað sem vill þér ganga á mót,
embættið það er þér léð
á treystanda vinnur bót.
31.
Hvör vill akta og auðga mann
örvæntinn í sjálfs síns stétt
eða í heiðri halda þann
handverk sitt er lastar slétt.
32.
Helst er haldin fátæks frægð
er fremdin visku prýðir hann,
auðugum manni aura nægð
upphefð stóra veita kann.
33.
Voluðum prís ef viskan lér
voldugum þá miklu best,
fullríkum það forljótt er
fátækum þó langtum best.
34.
Lítilmennis visku val
til virðinga hann hefja kann,
hjá höfðingjum í háum sal
hún mun síðan setja hann.
35.
Öngvum hæl þú ofurfast
þó ásýnd mikla hefði sá
og ekki neinum legg þú last
þó langtum minni væri að sjá.
36.
Býfluga er fuglinn smár
og furðu sætan ávöxt lér,
svo kann vera að visku hár
sem vesalmennið sýndist þér.
37.
Af stórri makt ei stær þú þig
né stolt þó bærir klæði manns,
Drottins verk eru dásamlig,
dylst fyrir oss um ötlun hans.
38.
Ofríkið þeir eð efldu frekt
urðu að setja á foldu víst,
kóruna og kóngleg mekt
kom þeim oft er varði síst.
39.
Stórherrar og stoltir menn
stafkarlar þeir urðu um síð,
miklir kóngar áður og enn
unnir féllu margan tíð.
40.
Áfelli dæm öngvum fyrr
en alla veistu sök um mann,
eftir henni áður spyr
og þá síðan straffa þann.
41.
Öngvan legg þú úrskurð á
alla fyrr en veistu sök,
lát til lykta tína og tjá,
tilfelli og mestu rök.
42.
Vefja þig þú ekki átt
í annarlegu sakfelli
né tefja dag og dvelja þrátt
hjá dómi þeim að rangur sé.
Ellefti kapituli
43.
Ekki skaltu, arfinn kær,
iðju marga stunda senn.
Þetta sjálfur sannað fær
að sjaldan mun það auðga menn.
44.
En þó stórum stundir það
starfalaunum varla nær,
hér og hvar þó hnýsir að
hvörgi að heldur lyktað fær.
45.
Mörgum verður mikið um flest,
mjög til ríkdóms flýtir sér,
hvar með sig þó hindrar mest
og heillum sjálfs þíns þanninn ver.
46.
Hinum sem verður hóft um allt
hjálpar sá þó þyrfti með,
aumt og veikt hans efnið kalt
auka mætti sturlað geð.
47.
Þann á lítur eilíf náð
og eymdinni svo hjálpar frá.
Auðgar hann með æru og dáð
svo undrast þeir eð soddan sjá.
48.
Hamingan og heillabann,
hel og lífið manni valt,
auðlegð hvört eða armóð fann
af einum Guði kemur allt.
49.
Góðum mönnum guðleg náð
gefur auðinn langgæðan,
lánið hans og líknarráð
lukkusamlegt verða kann.
50.
Margur sínkur, súr og spar
safnar þanninn auranægð,
auðugur þá orðinn var
ætlar að hafa hvörs kyns hægð.
51.
Lítið veit af lögunum þeim
að líf er komið til endadags,
aðrir taka við auð og seim
en eigandinn skal deyja strax.
52.
Við herrans orð þig haltu fast,
hirtinn vert í þinni stétt,
undrast ei þótt aurapast
óguðrækum falli slétt.
53.
Treystu Guði og gæt að þér,
gjör það vel sem vinna bar,
almáttugum auðvelt er
að auðga þann sem snauður var.
54.
Góðra manna góss og fé
Guð blessar á marga lund,
alllítið þótt áður sé
eykst það fljótt á heillastund.
55.
Mæl ei svo þá missir plóg:
Mér til bjargar fátt er veitt.
Hugsa eigi þótt hefðir nóg:
Hvörnin kann mig vanta neitt?
56.
Velgengið þá blæs þér blítt,
bústu við það falli ver,
vittu þá þér vegnar lítt
að vænta góðs er þrautin þver.
57.
Drottinn kann á dauðans stund
drengjum endurgjalda rétt,
hvað hvör einn á alla lund
aðhafðist í sinni stétt.
58.
Óstund ein sú angrar mann,
allan nemur fögnuð frá,
í framför sinni finnur hann
það forðum gjörði jörðu á.
59.
Af því lofaðu ekki neinn
uns hann hnígur jörðu að,
hvílíkur að hvör var einn,
hans afkvæmi sýnir það.
60.
Sendi Guð oss sína náð
og sanna trú í dauðans tíð.
Hér skal óbreytt orða sáð
inni byrgt um litla hríð.
(Vísnabók Guðbrands 1612 (útg. 2000), bls. 372–375)