Hóla-dýrð hin forna | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Biskupsvígsla á Hólum 1

Hóla-dýrð hin forna

BISKUPSVÍGSLA Á HÓLUM
Fyrsta ljóðlína:Dunar í forgarði fallinna horfinna virkja!
bls.86
Bragarháttur:Fimm línur (þríliður) fimm,- tví- og þríkvætt AAbbA
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1910
Dunar í forgarði fallinna heilagra virkja! 
Fjöllin og steinarnir þrumandi knýja' oss að yrkja: 
Hóla-tún græn, 
hér óx af lifandi bæn 
kristninnar heimskaut og kirkja. 

Hér stóð hún skorðuð í skrúðdölum snækrýndra fjalla, 
skaparans brúður er skyldi' ei að eilífu falla; 
horfði við sól 
>hátt yfir Norðurlands stól, 
guðmóði gagntók hún alla. 

Nýfæddum unaði titraði héraðsins hjarta, 
hörðustu víkingar stóðust ei dýrðina bjarta. 
Friðandi tár 
féllu sem vorskúra sjár 
niður á nákuldann svarta. 

Skrúðgangan dundi með skínandi brúðfarar ljóma, 
skörungar báru til altaris guðlega dóma. 
Hlustaði Frón: 
heilagur biskupinn Jón 
Davíðs lét hörpuna hljóma! 

Hlustaði fólkið á heimsmenning þúshundrað ára, 
hásöngvar vöktu því drauma svo löngunarsára.
Höggdofa þjóð 
horfði' á guðs líkam og blóð: 
leiftruðu lífsdaggir tára. 

Þey, þey, hún Likaböng! — Hljóðna þú harpan vor unga. 
Hremdir vér stöndum með þjóðsektarbyrðina þunga. 
Sjö hundruð ár 
stóð sú er nú hvílir nár! 
Þagna vor titrandi tunga!