Rímur af Flóres og Leó – fimmta ríma | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Rímur af Flóres og Leó 5

Rímur af Flóres og Leó – fimmta ríma

RÍMUR AF FLÓRES OG LEÓ
Fyrsta ljóðlína:Upp skal róms um raddar gil
bls.60–73
Bragarháttur:Gagaraljóð – gagaravilla
Viðm.ártal:≈ 1625
Flokkur:Rímur
1.
Upp skal róms um raddar gil
renna óbrjálað dverga mal,
eg þó fari óðs með spil,
er það heimsku fyrir mig hjal.

2.
Löngum á það liggur stríð,
landinu sú er innfœdd nauð,
berjast út í hvörri hríð,
hafa þó stundum lítið brauð.

3.
Bernskastur eg allra er,
en þó sé hvað gjörir fár,
öreigð hefur því aukist hér
upp í næstu þrjátíu ár.

4.
Ef einn asni œtti jörð,
inntekst sá í kóngsins hirð,
að vísu er honum virðing gjörð,
en viskan fátœks úti byrgð.

5.
Setjast þeir í sœmdar hald,
sú er nú í landi öld,
sem að hafa góss og gjald
að greiða út fyrir störf og völd.

6.
Við margan hangir um hauðrið vítt
hávirðinga nafnið mœtt,
hvað honum þó hœfir lítt,
hef eg að því víða gœtt.

7.
Fátœkur, þó frómur sé,
forsmáður í landi nú,
honum þykir happa fé,
ef hann fœr eina leigukú.

8.
Þó að sumum gifting góð
gefin sé af himna smið,
að fylgja þessu fram hjá þjóð
fáir munu til leggja lið.

9.
Börnin ganga á vonarvöl,
þó veitt hafi guð þeim skyn og mál,
alast upp méð eymd og kvöl,
allt til þess að skilst við sál.

10.
Þeirri gáfu ef þjónaði sá,
þá fœri betur landi í,
sem að helst er hneigður á
og hefði nœring út af því.

11.
Viðrix sem eg gjaldið grannt,
því Gillings drykkju lág er mennt,
mér er nú til annars annt,
ekki verður brotið í tvennt.

12.
Þulist hafa þrjár og ein,
þessi er hin fimmta dverga baun,
voðalega hún verður sein,
veit eg það er fólki raun.
13.
Verður enn í herrans hall
hvíla barn og menja þöll,
fyrst skal ræða um Clemus kall,
Cládíum, Flóres og þau öll.

14.
Flóres ólst með æru og trú
upp í Geirman karli hjá,
Clemus eins og Cládíus nú
hann klæði lét og matinn fá.

15.
Feðgin þekkti sín ei sæl,
sex hann hafði vikna tal
apynja þá honum djörf ódæl,
drottning frá við brunninn stal.

16.
Bræður hugðust börnin hrein,
báðir fæddir af karlsins kvon,
Flóres hugði í hvörri grein,
að hann mundi vera Clemus son.

17.
Þá bæði léku börnin trú
sér borgurunum úti hjá,
löngum sagði lýðurinn: „Nú,
lukkusæll er karlinn sá.

18.
Að eiga skyldi hann soddan son
sinni meður menja Lín.“
Þegnar sögðu: „Þess er von,
að þyki honum vænt um börnin sín.“

19.
Einn dag Flóres óx nú meir
en á fjórum Cládíus þar.
Um alla Párís undrast þeir,
hann Octovíanó líkur var.
20 Ýmsir höfðu á því róm:
„Hann er ei af Clemus fæddur í heim.“
Húsfrú karls það heyrði fróm
og heldur gaf sig fátt að þeim.

21 Allir sögðu um hvar fór,
ólíkari ei piltar tveir,
Flóres vænn og firna stór,
fram yfir Cládíum efldur meir.

22.
Hugsar Clemus heldur fljótt
handverk þeim að kenna mætt,
til húsfrúr gengur heldur skjótt,
hana við karlinn fær so rætt:

23.
„Hvört skal eg“, segir hann, „hringa rein,
handverk kenna börnum mín,
upp á það fyrir utan mein
í elli megi þess njóta sín.“

24.
Halnum ansar hringa brú:
„Á handverk lær sem viltu þá,
en ef spyr mig að því nú,
eg vil mína hugsun tjá.

25.
Cládíus sonur okkar er
ekki hæfur á verkin stór,
því voðalega virðist mér
hann vesallegur, grannur og mjór.

26.
Til myntmeistarans mitt er ráð
með þitt lát hann ganga féð,
firna ríkdóm fær hann náð,
ef forsjálega þar höndlar með.

27.
En hann Flóres er frábær,
aflið hefur Cládíó meir,
uxum slátrað allvel fær,
so auðgast megi þeir báðir tveir.

28.
Hann fær borið á herðum svín,
hæg er Flóres þetta raun,
margan bita“, mens kvað Lín,
„mun eg hans fá í verkalaun.“

29.
Svarar karl: „Þú ræðir rétt,
ráðið þetta held eg mætt,
hæfir vel sú hvörjum stétt,
ef hennar fá með visku gætt.“

30.
Kallar á sveina Clemus snar:
„Komið strax sem verðugt er.“
Hann innti þeim hvað í efni var
og við Cládíum fyrst so tér:

31.
„Til gjaldmeistarans greitt frá mér
ganga skaltu son í ár,
hann skal kenna handverk þér,
hvörninn mynt í kaupskap gár.“

32.
„Gjöra skal eg greitt“, kvað hann,
„góði faðir, viljann þinn.
Má ei fara á marknað þann
með mér Flóres bróðir minn?“

33.
„Flóres skal ei fara þér með,„
fljótt ansar hann Cládíus nið,
„honum skal annað handverk léð,
sem hafa skal meiri mannskap við.“

34.
Karlinn vék frá Cládíus þar,
Clemus so við Flóres tér:
„Í hug minn kemur, halurinn snar,
handverk eitt að kenna þér.

35.
Eg skal í hendur fá þér féð,
farðu á morgun strax á stað,
hæfir þér sláturs handverkeð,
honum Gunnbrikt færðu það.

36.
Segðu eg hafi beðið hann brátt
þér best kenna að slátra rétt,
handverk þetta hafa þú mátt,
hæfileg er sú fyrir þig stétt.

37.
Eru hjá mér uxar tveir,
eg vil þeim þú slátrir þar,
hvað sem skipar meistarinn meir
mundu að vera vakur og snar.

38.
Sjálfur skaltu selja nú,
sundur höggva velli á,
ef öngvum gjörir órétt þú
á einum vinnur peninga þrjá.“

39.
Flóres ansa fljótt so vann:
„Faðir, gjöra skal vilja þinn.“
Greitt kom dagur, en gríman rann,
til gjaldmeistarans sveinn fór hinn.

40.
Karl fékk þá í Flóres hönd
feita uxa lagt við band,
kynstrastóran keyris vönd
að knýja þá með í sláturs land.
41.
Með sæmd hann biður að sjá til nú,
sagði halurinn þar við já,
kvaddi Flóres karl og frú,
keyrði uxa völlinn á.

42 Sem á kominn völlinn var
við slátrunar trygilinn
sér einn standa þénara þar,
þann spyr: „Hvar er meistarinn?

43.
Hvar er slátrarinn, herm mér skýrt,
hann vilda eg finna snart,
honum af læra handverk dýrt,
hef eg til gáning nokkurn part.“
44.
Þessi nú upp þénarinn leit,
þá til Flóres augum gaut,
hjalar so um hyggju reit:
„Hvað viltu gjöra með þessi naut?“

45.
Þanninn mælti þénarinn:
„Það sé eg með fullan sann,
gantalegur gaurinn þinn,
gjörist þú aldrei sláturs mann.“

46.
Flóres kvað: „Sú fýsn er mín,
faðir minn hefur það ríkdómslán,
uxa, geitur, sauði og svín
selja kann með ekkert rán.

47.
So minn faðir sagði dýr,
sem eg heiman úr Geirmon fór,
á einum peningi ynnist þrír,
og ábati það væri stór.
48.
Hér með kvað hann þess handverks lán,
hvörn dag rautt að drekka vín,
so mætti gamall minnst með rán
maula krás í húsum sín.“

49.
Þénarinn tók að hlæja hátt,
hann til Flóres talar með spott:
„Sendi þig hingað satan brátt
soddan að lasta handverk gott.

50.
Þesslegur ei mér þorparinn líst,
að þú munir læra handverk skást,
í hausinn skal eg þinn hýða víst,
haf þig í burt, ei þar við fást.

51.
Því hingað komirðu oftar enn,
eða ef þig á marknað finn,
þér skal launa, það viti menn,
þú ert heimskur, gantinn þinn.“

52.
Flóres kom í þanka þar,
að þetta mundi ei vinnast sér:
„Eg skal finna föður minn snar,
fái hann sjálfur handverk mér.“

53.
Uxunum snýr hann aftur í stað
og ætlar heim til Geirmon leið.
Herramaður á hófa nað
honum á mót með fugl einn reið.

54.
Hönd á bundin hals sá er,
hann um fætur bjöllur bar.
Þá Flóres þennan fuglinn sér,
falur spurði hvort hann var.
55.
Herramaður hugsar fljótt,
hvort hann muni sig dára rétt,
var um það með veikan þrótt,
að verðið mundi fuglsins létt.

56.
Ansar hann so firna fár:
„Fanturinn læst mig dára hér,
má vera viljir, gagarinn grár,
gálgann kaupa á hálsinn þér.

57.
Eru hjá þér uxar tveir,
ef þú þessa báða sker,
gagn er þér það, gikkurinn, meir
en girnast kaupa fugl af mér.“

58.
Flóres ansar firna hratt:
„Frómi herra, gjör þér kátt,
viti menn eg segi það satt,
so er mér til fuglsins dátt.

59.
Eg hirði ei að læra það handverks lán,
hitt er meiri gáning mín,
mér unnið kaups með öngri smán
yðar á mætum fugli fín.“

60.
Svara þanninn seggurinn vann:
„Sé það eflaust vilji þinn,
uxa báða, ungi mann,
eg vil fá fyrir fuglinn minn.“

61.
Flóres þar við gladdist greitt
og gjörði að ansa firna hratt:
„Þetta skal yður verða veitt,
við skulum gjöra kaupið statt.“

62.
Uxa Flóres afhenti þá,
á hans höndum fuglinn bjó.
Greitt hvor öðrum gekk so frá,
glaður þá hvor í læmting hló.

63.
Flóres kátur fuglinn með
flýtti sér til Geirmon leið,
af herramanninum hugðist féð
hafa nú keypt með býtin greið.

64.
„Lukkusamur“, hann segir, „eg varð,
að soddan voru mér kaupin gerð,
hann mun þykja í hilmirs garð
hundrað marka silfurs verð.

65.
Æ, hvað föður míns glatt mun geð
þá gjörir hann sjá nú koma sér að
fagran þennan fuglinn með,
sem frómur væri í allan stað.“

66.
Flóres hljóp nú fuglinn með
föður síns Clemus byggðum að,
af allmörgum fékk undra spéð,
ekkert sveinninn gaf um það.

67.
Karl stóð úti kátur mjög,
Clemus bar það sinnis lag:
Sláturs handverk heiðarleg
hefur Flóres lært í dag.

68.
Þá hann hugsun þessa bar,
þangað koma Flóres sér
hlaupandi svo heimslega var,
á hauka ströndu fuglinn ber.
69.
Undrast karl þann illa sið,
uxana gat hann hvörgi séð,
spyr nú Flóres fljótt án bið
því fuglinn hlypi þanninn með.

70.
Frá eg uxum fréttir að,
furðar karl nú þennan sið.
„Faðir minn góður“, Flóres kvað,
„fuglinum gaf ég þá báða við.

71.
Því eg hef so varið þeim vel,
veit eg þú munt glaður án dvöl,
fegri öngvan fuglinn tel,
fengið höfum á kaupum völ.“

72.
Clemus svarar: „Ertu ær,
ellegar að mér dregurðu dár?
Ódæmunum er það nær
ef mér gjört hefur soddan fár.“

73.
Flóres mælti: „Segi eg þér satt,
so hefur það til gengið rétt,
höfum við faðir hjartað glatt.
Hvar mun eg geta fuglinn sett?

74.
Í húsi þínu hvílu nær
honum gjöra mun enginn fár,
meinsemd við þar forðast fær,
faðir minn góður, síð og ár.“

75.
Sem þá karl veit sannleiks trú,
sínu af vitinu ganga lá:
„Haus þinn“, segir hann, „helst mér nú
og hálsbein liggur sundur slá.
76.
Ertu ekki firna flón,
við fuglinum gafstu uxa mín,
þú hljópst hér með hann líkt sem ljón,
launa skal eg þér heimsku þín.“

77.
„Faðir minn góður“, Flóres tér,
„fuglinn skyldi yður vera kær,
fjaðralit so fagran ber,
finnst hér enginn slíkur nær.

78.
Æ , hvað hans eru augun björt,
allt eins lit og gullið skært,
það var kaupið geðlega gjört,
góð hefur mér hann lukkan fært.

79.
Ef þér grandlega skoðið hann skjótt
skal yður þetta virðast rétt,
utan sakar yfrið ljótt
á mig hafið hatrið sett.“

80.
Karl sem heyrði hryggur nú,
honum so þanki um fuglinn lá,
rennur af honum reiðin sú,
rekkurinn tók að hlæja þá.

81.
„Forsorgaðu fuglinn þinn,
frétti eg þig“, kvað gamli mann,
„seg mér allan sannleikinn,
sástu aldrei meistarann?“

82.
„Hjartans faðir, heyrðu kær,
hvörninn þetta gekk fyrir mér,
þénari nokkur þar stóð nær,
þann spurði eg hvar meistarinn er.
83.
Eg honum sagði soddan hátt,
sem þú við mig ræddir blitt,
að slátrarinn fengi bita brátt,
bæði rautt vín drekka og hvítt.

84.
Þegar eg hafði þetta rætt,
þá kvað hann það væri spott,
og líka kvað nú lasta mætt
ljótlega þetta handverk gott.

85.
Bauð mér þessi þénari skjótt
þaðan að halda yfrið brátt,
ellegar höfuð mitt heldur fljótt
hann kvaðst mundi brjóta í smátt.

86.
Eg tók þá upp annað ráð,
aftur sneri heim á leið,
hafa mér nú fyrir herrans náð
að höndum komið þau býtin greið.

87.
Varð so fyrir á vegi mín
veglegur herramaður í raun,
og þar báða uxa þín
eg honum skenkti fugls í laun.“

88.
Nú sem heyrði hann orðin öll,
ekki lengur reiðin svall,
heldur leynt um hyggju völl
hugsar með sér gamli karl:

89.
„Mun eg hann láta á marknað snar
með honum Cládíó ganga hér,
so að eigi soddan par,
seggurinn oftar leiki mér.“

90.
Kom nú af marknað Cládíus brátt
og kostulega lærði greitt
embættið á allan hátt,
ei veit hann um fuglinn neitt.

91.
Eftir þetta áfram leið
átta daga fögur tíð.
Uxa hafði ærna neyð
innan leynt um geðsins *hlíð.
92.
Clemus talar við Cládíum brátt:
„Kann eg að líta Flóres rétt,
eg sé það á allan hátt,
að aldrei lærir hann sláturs stétt.

93.
Til gjaldmeistarans greitt með þér
ganga skal hann, son minn kær,
ljúflega það líkar mér,
lært ef þetta handverk fær.

94.
Í sekknum borið getur hann gjald,
en gakktu eftir morgna og kveld,
traust með honum í tauminn hald,
so tállaust verði myntin seld.“

95.
Ansa Cládíus aftur vann:
„Ef mér fylgir bróðir minn,
fullgjöra skal sem frekast kann,
faðir minn góður, viljann þinn.“

96 Fús til þess var Flóres nú
að fara með Cládió marknað á.
Berlings læt eg bát af lú
brotinn sundur í skorðum stá.