Þrymlur – þriðja ríma | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Þrymlur 3

Þrymlur – þriðja ríma

ÞRYMLUR
Bálkur:Þrymlur
Fyrsta ljóðlína:Þar skal brátt en þriðja mærð
Bragarháttur:Stafhent eða stafhenda (stuðlalag)
Viðm.ártal:≈ 1400
Flokkur:Rímur
1.
Þar skal brátt en þriðja mærð
þegna sveit af afli færð.
Loftur greiddi lýðum svör –
löngum þótti hann slyngr við för.
2.
„Ekki svaf hún um átján dægr
– Óðins talaði þrælinn slægr –
svó var hún híngað Freyja fús –
fari nú menn og tjaldið hús.“
3.
Síðan settist brúðr á bekk,
Baugi allt til veislu fekk;
bar hún af flestum brúðum stærð
býsna-digr og allvel hærð.
4.
Loftur svaf hjá lauka rein,
leist hann vera sem þernan ein.
Tröllin frá eg að tóku upp borð,
talaði brúðrin ekki orð.
5.
Allir skipuðust jötnar tólf
öðru megin við hallar gólf,
hlaupa upp með heimsku á bekk,
hefr sá verr að fyr þeim gekk.
6.
Þar var Surtur, Haki og Hrymr,
höfðinginn var jötna Þrymr,
Sörkvir, Móði, Geitir og Glámr,
Grímnir, Brúsi, Dofri og Ámr.
7.
Eigi var þeira flokkrinn fríðr;
Fála kom þar inn og Gríðr,
Hlökk og Syrpa, Gjálp og Greip,
geysiligt var þeira sveip.
8.
Kómu á borðið bryttrog stór,
brúðir sátu upp hjá Þór;
jaxlar veittu jötnum lið,
enginn hafði hnífinn við.
9.
Börðust þeir með býsnum svá,
blóðið dreif um alla þá,
knútum var þar kastað oft,
kómu stundum hnefar á loft.
10.
Uxa frá eg að æti brúðr,
ekki var þeira leikrinn prúðr,
lagði hún að sér laxa tólf
og lét þó aldri bein á gólf.
11.
Undra *tók nú jötna sveit,
át og drykk að brúðar leit,
„fljóð er orðið furðu gert“
flagðið talaði þanninn hvert.
12.
Loftur heyrði ljótan kurr:
„Lengi“, svaraði *Nálar burr,
„hvað kann verða hverju líkt;
hafi þér skamm er talið um slíkt.
13.
Fastað hefr hún fjórtán nætr,
Freyja sjálf og halrinn mætr,
drósin hvórki drakk né át;
drjúg-mjög er hún nú orðinn kát.“
14.
„Fáunst vær ei í forsi nú,
furðu ill er skemmtan sú“,
– Brúsi talaði bragðaforn –
„beri þér inn hið mikla horn.“
15.
Kom sá inn, er krásar mat,
og kennir þegar, hvar brúðrin sat,
hafði á sér höfuðin þrjú;
hræddir mundu flestir nú.
16.
Furðu var það hornið hátt
er Hafli tók við einkar brátt;
byrlara þeim, er Baugi gaf,
brúðrin drakk í einu af.
17.
*Krásar þegar að kómu til,
kenna réð þær menja Bil.
Seggir tóku að segja í senn:
„Sáld af mjöðinum drakk hún enn.“
18.
Kallar Þrymr á kappa sín:
„Komi þér framm í hellir mín;
mæli þér að móðir vár
meyju færi Gefnar tár.“
19.
Kellíng þessi kemr í höll,
knýtt er hún og bömluð öll,
hafði hún vetr um hundrað þrenn;
hvergi var hún þó bognuð enn.
20.
„Syrpa, eg vil senda þig,
sækja skaltu hamar fyr mig
niðr í jarðar neðsta part.“
Nú mun verða leikið mart.
21.
Hvergi gátu hamarinn fært
hundrað manns, þó til sé *hrært (32);
Keila setti upp kryppu bein,
kellíng gat þó borið hann ein.
22.
Hamarinn kom í höllina stór,
hvórt mun nokkuð gleðjast Þór?
Mærin þrífur Mjöllnir viðr; –
margir drápu skeggi niðr.
23.
Sundr í miðju borðin brýtr,
brauð og vín um gólfið hrýtr,
jötnum vesnar heldr í hug,
hjartað þeira er komið á flug.
24.
Braut hann í sundr í Beslu hrygg,
brúðrin fell þar eigi dygg.
Síðan lemr hann tröllin tólf,
tennur hrjóta um hallar gólf.
25.
Æsiligr var Ásaþór,
upp mun reiddur hamarinn stór,
setti hann niðr á Sauðúngs kinn,
sökk hann þegar í hausinn inn.
26.
Pústrað hefr hann pilta Rymr,
prettum var leikinn skálkrinn Þrymr,
hann fekk högg það hausinn tók,
höfuðið fast með afli skók.
27.
Þrymlur heiti þetta spil;
þann veg gekk um hamarinn til;
eignist sá, sem óðar biðr,
ekki skal þeim kasta niðr.


Athugagreinar

Leiðréttingar Finns Jónssonar:
11.1 tók] < taca hdr.(?) [FJ]
12.2 Nálar] < nala hdr. [FJ]
17.1 Krásar] < Krassar hdr. [FJ]
21.2 hrært] < hrætt hdr. [FJ]
Fernir forníslenskir rímnaflokkar er Finnur Jónsson gaf út. Kaupmannahöfn 1896, bls. 14–16).
Finnur gaf Þrymlur út eftir AM 604 g 4to.