Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Þrætna konan

Fyrsta ljóðlína:Ísmena hét auðar-hlíð
Þýðandi:Jón Þorláksson
Viðm.ártal:≈ 1800

Skýringar

„Snúið úr Gellerts kvæðum (Die Widersprecherinn í Fabeln und Erzählungen 1765, I, bls. 38.) Eptir þrem handritum.“
1.
Ísmena hét auðar hlíð
einhvers staðar á fyrri tíð,
eðlisgáfa mörg og mennt
mælt er henni væri lént,
þó hvað helst að þrætin var og það gat kennt.
2.
Almennt er um breiða byggð
borin fljóðum þessi dyggð;
þúsund sinnum þó nú ríkt
þvogli heimur allur slíkt
hygg eg það sé húsgangs kvis og heldur ýkt.
3.
Opinbert og fortaks-frí
fyrir öllum lýsi eg því
að eg trúnað aldrei skal
um eilífð leggja á þetta hjal,
merkilegri mín er raun um margt kvennval.
4.
Oft eg nefndi fagra frú
ferlíki þó væri sú
því eg kaus að þar á mót
þræta skyldi við mig snót,
en hún nunnað í þann veg lét aldrei hót.
5.
Er því rangt að öllu sé
eignuð þrætnin kvenfólke;
yður niðrar þannig þjóð
þrátt án saka, kæru fljóð! –
Ísmena vill aftur minnist á sig ljóð!
6.
Það eg játa að ei er ein
illkvitni þótt menjarein
þeirri sé um þrætni kennt,
það var hennar aðalmennt.
Sönn er þar um saga gjörð og sett á prent.
7.
Manni sínum með við disk
menþöll sat og hafði fisk
fram með öðru soðinn sett –
sýnist mér eg geta rétt
þó eg steinbít þennan nefni þokka-rétt –.
8.
„Hjartað mitt!“ kvað halur stillt,
„heldur þú eg fari villt?
mér finnst eins og maturinn
muni vera linsoðinn!“ –
„Þessu spáði“ – þá við gall hún, – „þanki minn!“
9.
„Hér sem oftar heyrist það,
hvað vel sem eg ber mig að
orsök finna þykist þú
þína til að sneypa frú.
Verða löngum við þig föst mun venja sú!
10.
Fáum orðum skal fullsagt þér:
fiskurinn dável soðinn er!“
„Víf mitt kæra!“ ver þá kvað,
„við skulum ekki deila um það,
álít eg það einskis vert í allan stað.“
11.
Sem þá rauður hlutur hér
hana völskum* sýndur er,
á augabragði þýtur þá
þar við heiftin rauð og blá
gins og nasa gjár uppí, og gýs þar frá.
12.
Glennir hann þær geysi vítt,
glossar úr báðum augum strítt,
vængjum lemur ótt og oft,
ýfir fiðrið hátt í loft.
Orgið meður illum skræk fer út um hvoft.
13.
Brá nú allt eins baugastorð
bónda síns við fyrrgreind orð:
blóðið hleypur andlit í,
áður bar ei neitt á því.
Þess á milli það varð grátt sem þokuský.
14.
Æðar þrútnar urðu snart,
augun kreistust saman hart,
hljóp í varir bólga blá,
bæði nef og kinnar þá
tognuðu svo tví-slík urðu til að sjá.
15.
Hárið reis á höfði vífs,
heiftin ýfði það til kífs,
við þess hræring eyrum af
ýttist hennar nætur-traf.
Hún skjálfandi honum svör án hýru gaf.
16.
„Eg, þú maður! eg, þín frú,
eg stend við það fast en nú
nóg var fiskur soðinn sá!“ –
Saup hún út af glasi þá –
betur hefði bræði fyllt ei bergt þar á!
17.
Maðurinn skyldi brátt við borð,
burtu fór og mælti ei orð.
Varla genginn var hann fyr
vífi frá um næstu dyr
en hún leið sem lík í dá og lá þar kyr.
18.
Hvernig farið hjá því gat?
hæst þá reiðiblossinn sat
að steypa þar í sterkum drykk
stóran mátti gjöra hnykk.
Allt varð húsið uppvægt nú í einum rykk.
19.
Öldin stumrar yfir frú,
allra bragða leitar nú,
svarran á með svaka bar,
sveigði þumalfingurnar.
Alls kyns balsam orkar þó sem ekki par.
20.
Þunnvanganna þétt var húð
þar með slagæðanna gnúð,
en sig vottar ekkert líf,
eins og bálkur lá hún stíf.
Svo var tekið sviðið hár og sett fyrir víf.
21.
Ónýtt, ónýtt, engan þef
af því finnur hennar nef,
ekkert getur andardrátt
aftur kveikt né hjartaslátt.
Kallað var á kærastann, og kom hann brátt.
22.
„Æ! þú sálast elskan mín!“
æpir bóndinn þá og hrín.
„Æ! þú deyr! æ, auman mig!
ástar beðja hjartanlig!
Hverr bað mig að hefja slíkt og hrella þig?
23.
Ó! þann vondan óláns fisk
illri kominn heill á disk!
– þó veit guð, að hann var hrár!“
Hún er ekki lengur nár,
rétt með sama ristils glymur rómur hár:
24.
„Hann var soðinn! – hann var blár! –
hyggst þú enn að kífa þrár?“
Kraftaverkun þannig þar
þrætnis-andinn meiri bar
en læknaranna reyndust ráð og reikningar.


Athugagreinar

11.2 ’valskir hanar’ verða ólmir þegar rautt er borið að þeim.