Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Barngælubálkur

Fyrsta ljóðlína:Óð vil eg yrkja / ungum börnum
Bragarháttur:Fornyrðislag
Viðm.ártal:≈ 1575
Flokkur:Jóðmæli

Skýringar

Sjá Barngæludikt. Hér er í raun um sama kvæði að ræða en í Barngælubálki er efninu snúið meir til hins nýja siðar Lútherskunnar og þessi gerð því augljóslega yngri. Sjá um það umfjöllun Guðrúnar Ásu Grímsdóttur í grein sinni Jóðmæli í 3. hefti Sónar 2005.
Kvæðið er gefið út eftir AM 720b 4to
1.
Óð vil eg yrkja
ungum börnum,
þeim sem upp vaxa
hjá föður og móður
að þau spök verði
vinum og frændum
guði unnandi
og góðum mönnum.
2.
Kveð eg meybörnum
kvæðið þetta,
þeim sem þurfa
þeirra muna.
Þegi þú og huggast,
þýðust barn mitt,
göfug, þér ekki
gangi í móti.
3.
Drottin vil eg
þess dýran biðja
að þú spök verðir,
sprakkinn ungi,
og skikki þér skaparinn
góðan engil sinn
að geyma þig, barn mitt,
svo þú grátir eigi.
4.
Mun eg þig selja,
meyjan unga,
guði á hendi
að hann geymi þín,
hans bið eg ásjá
aldri hverfi
af þér, unga,
á aldri þ[ín]um.
5.
Höfuð með hári,
holdi og hliðum,
brjóski, beinum,
blóði og sinum,
æður og innstur
og allt að þér fylgir
gef eg það á guðs vald
góðu mínu barni.
6.
Skipti þér lukku
skaparinn allra,
jóðið góða,
á jörðu og himni
og unni þér
allar dróttir,
faðir og móðir,
fögur, allra best.
7.
Bið eg þú vaxir,
barnið góða,
og dafnir
með dáðum öllum,
málið þú lærir
og mannvit allt,
refskorð, eftir
réttum tíma.
8.
Þegar en unga
þýð kann að mæla
greiðist þér ávallt
gott á tungu
Jesú að nefna
og jafnan ákalla,
blót og eiða
bið eg að þú forðist.
9.
Gefi það barn mitt
guð drottinn þér
að þú fljótliga
fróðleik kunnir
og íþróttir
allar hreppir,
þær sem kvenmanni
kringt [er] að læra.
10.
Lausung bið eg þig
ljóta forðist
en stöðugt ráð
stoltri fylgi.
Guð himnanna
gefi þú festist
manni góðum
meyjan þér unni.
11.
Og þú hann elska
af öllum hug
ævi þína
og uni góðu.
Arfa hljóttu
og auð nógan
giftu drjúga,
göfugt barn mitt sælt.
12.
Arfa skaltu
elska þína
og íþróttir
öllum kenna,
gjör þú öngvan mun,
göfug mær, að því
svo ekki þurfi
annan að kæra.
13.
Elska þú Drottin
af öllum hug
svo voluðum
veittu bjargir,
stunda þar með
stoltar bænir
á hvörjum tíma
með hug góðum.
14.
Gjaltu þrálátum
gildligt andsvar
þeim sem ítrust
á yfir að bjóða,
mundu aldregi
mjög lengi það
þó sundurorða
sætan verði.
15.
Vertu trygg vinum,
vífið fróma,
örlát af fé
með hófi góðu
en fláræði
frem þú aldregi,
drepur það kostum
dróttum allra.
16.
Láttu gott fylgja,
lindin mjófa,
þótt reið verði
rík við dróttir
brigsla þú aldri,
brúðurin unga,
neinum manni,
það er einna verst.
17.
Auð elska þú eigi svo
né arfa þína
að þú Guði þínum
gleymir í neinu.
Láttu jöfnuðinn
ljúfust fylgja
góðu verki,
það er gæfan mest.
18.
Byrja skal eg
barna huggan,
stef til handa
stoltu fljóði,
og biðja þess
blíðan drottin
að hans mey firri
öllum meinum.
19.
Lof bið eg syngist
af lýð öllum
þeim himnum stýrir
og heimi öllum
æfinliga
svo aldrei [minnkist
al]máttur þinn,
enn hæsti drottinn.
20.
Vertu iðjudrjúg,
vífið fróma,
og *sjálf gakk
um sýslur allar,
fylgdu að vinnu
fólki þínu
þá mun verkdrjúgt
*verða svanna.
21.
Ef þér dyggvir
drengir þjóna
haltu eigi
kaupi hjóna *þinna,
bú þú að góðum,
brúður, harðla vel
trú eg það ekki
tjónsamt verði.
22.
Vertu [ei b]akmál,
brúðurin unga,
né til annarra
títt að ræða,
illt hlýtur jafnan
af bakmælgi,
gjörir það öngvum
neitt til góða.
23.
Geymdu vel, góðlund,
gripa þinna
því að misjafnan
margan hittir,
illt er að styggja
auman með gátum
ef þú fé þitt
finnur eigi.
24.
Hús þín gjör þú
heit jafnliga
ef kaldur eða klæðlaus
kann þau að hitta,
það er þriðjungur,
þýðust kvenna,
góðra verka,
geymdu að því.
25.
Gæt þú ráð mitt,
göfug, sem eg beiði,
láttu eigi auman
lágt mjög sitja,
veistu aldri
nær þín vitjar
guð af himnum
gott barn húsa.
26.
Vel skaltu venja
arfa þína,
gjalt þeim sektir
með réttu hófi,
vertu eigi bráðlynd,
brúðurin unga,
fyrr en þú reynir
rétt eð sanna.
27.
Föður og móður,
fögur, virða skalt,
gjör það jafnan
með góðum huga
ef þurfa þau
þinna muna,
þeim skaltu þjóna
af góðu hjarta.
28.
Stygg þú aldri
stolt að líta
vertu var um það,
vífið fróma,
brúður, elska
þú bræður og systur
en frændur auma
fljóð efla skalt.
29.
Guð himnanna
gefi þér, meyja,
giftu alla,
göfug, til handa
svo að þú blífir,
brúðurin unga,
í auðmýkt við Jesúm
æfi langa.
30.
Vel skaltu una
þó að volaðir
frændur þínir
á fé þitt segist,
gleð þá jafnan,
göfug, í orðum,
vist þína og drykk
veit með góðu.
31.
Lof bið eg syngist
af lýð öllum
þeim himnum stýrir
og heimi öllum
æfinliga
svo aldrei minnkist
almáttur þinn,
enn hæsti drottinn.
32.
Get eg þú þjónir,
göfug meyja,
sjálfum guði
af góðu hjarta
miskunnar verk,
mild stunda þú,
sætan fróma,
sex hinu mestu.
33.
Fyrir lifendum,
ljúf, skal biðja
síð og árla,
snót, af hjarta
klæð þú nökta,
kæran unga,
gef þyrstum drykk,
þýðlátt barn mitt.
34.
Dauðum fylg þú,
víf, til graftar,
vertu vönd um það
vel lík búist,
ræk útlenda
auma jafnan
og leys þá úr höftum
sem bundnir eru.
35.
Sjúkra og sárra,
sæl, skaltu vitja,
brúðurin unga,
að bæn minni.
Vel skyldi þér,
vífið, ganga,
ríklundað jóð,
ef eg ráða mætti.
36.
Girnstu aldregi
góss annarra,
vertu gestrisin
við gunna lið,
vinn þú beina
virðum frómum
af góðum hug
og glöðu hjarta.
37.
Varast ferðir
á vetur að heyja
og vorskuldir
virðum að gjalda,
best er að haustum
brögnum að lúka
það þú lofaðir
þorngrund mætri.
38.
Rís upp árla,
ríklundað jóð,
gjör þú þá bænir
fyrir guði þínum
áreiðiliga,
gakk um *sýslur,
*hygg að verkum
hjóna þinna.
39.
Far þú til kirkju,
fljóðið, jafnan
og hlýðtu *með gát
guðspjalls orðum,
skrafa þú eigi
neitt á meðan
þó að kvissamir
*kappar ræði.
40.
Hugsa þú oftast,
hróðri sæl meyja,
á dauða þinn
með dægri hvörju,
mundu, *en unga,
margt það eg greini,
vertu aldregi
vanbúin við því.
41.
Leið þú *bjarta,
lofaður drottinn,
blíðar leiðir
boðorða þinna
æfinliga
svo aldri girnist
annað en þig að elska
af öllu hjarta.
42.
Bið eg himnanna
buðlung hæstan,
yfirmeistara
allra lista,
efling veittu
óði þessum,
styrkur og mildur,
stef megi eg vanda.
43.
Lof bið eg syngist
af lýð öllum
þeim himnum stýrir
og heimi öllum
æfinliga
svo aldrei minnkist
almáttur þinn,
enn hæsti drottinn.
44.
Guð hefr setta
göfu›g‹st meyja
ýta kinda
engla tvenna,
þeir eiga skyggnast
um skipan manna
gæsku og illsku
gumnar í reika.
45.
Minning gjör þú,
mær en unga,
fögrum engli
fyrst á morgna
og að kveldi,
kæran blíða,
áður en ljúfust
leggst til náða.
46.
Geym þú aldri
glæpi vonda
í brjósti þínu
svo þú birtir ei,
vanda þú þó
vel siðaðan mann
þitt að segja,
það vel gjörðist.
47.
Leyndu aldri
ljótum syndum,
góðhugað jóð,
við lærðan mann
allt skaltu tína
þó að ljótt þyki
honum við eyra
hosk með tárum.
48.
Skrift bið eg þig,
skýrust, haldir,
vífið góða,
vel með öllu
fresta þú aldri,
frómust meyja,
ráð þitt að bæta
að þú reitt hefir.
49.
Mörgum verður,
meyjan fríða,
á einni stundu
allt um seinna,
brögnum ríður
brátt að hendi
bani oftsinnis,
bú þig við því.
50.
Enginn skyldi ýta
ofmjög fresta
þungt að bæta
það þú gjört hefir,
hætt er eitt auga
hvörjum manni
er nær 000it
nætur að bíða.
51.
Þolinmæði,
þýð, trygg vinni
kröftum auðgast,
kæran unga,
öllu skrýddu
þig með þessu,
mun þá vífi
vel til ganga.
52.
Mætur Jesús
yfir mey þessa
mildur sendi
miskunn sína
og styrki þig
stolt í öllu
ráði þínu
svo þú rétt girnist.
53.
Sjö eru þær greinir,
sætan unga,
að þú forðast skalt
að föður ráðum,
dramba þú aldri,
dýrust meyja,
af guðs láni
þó þér vel gangi.
54.
Vogir réttar
víf skal hafa
að mæla með,
meyjan unga,
ágirnd ranga
auðs og klæða
ei vélum unna,
það vill drottinn.
55.
Ef lýkst þér klæði,
ljúf, eða vaðmál
stiku rétta
stolt láttu ráða,
auricularis
illa safnar
rekkum fjár oft,
rík það forðast.
56.
Varast skaltu,
veglig meyja,
guðs nafn að leggja,
göfug, með öllu
hosk í lyndi
við hégóma,
sárt syndgast þeir
er svo gjöra.
57.
Öfund skaltu
aldri fremja
þóttú sjáir aðra
í sæmd lifa,
reiði skaltu
ranga láta,
brúðurin unga,
langt í burt frá þér.
58.
Fæðu og drykkju
fljóð skal neyta
mjög eftir hófi
en meir ekki
né annarra
sem eg fyrr sagði,
girnstu ei rangliga
þó að gott þyki.
59.
Leti skaltu
ljóta forðast,
gjör þú ætíð
að guðs vilja,
en saurlífi,
sætan unga,
frem þú aldri
iðuliga.
60.
Hjúskap bið eg þig
hreinan binda
og vanda hann
vel með öllu,
frem þú aldri
þá fasta skal,
eigi, hosk, heldur
á hátíðum.
61.
En þá einna mest
víf skal forðast
þá að klén hefir
kvenligt æði,
drottinn hefir það,
dýrust meyja,
brúður, bannað
[*]mest með ráði öllu.
62.
Göfug, er þá
hætt að getast muni
líkþráir menn,
ljúfust kvenna,
og djöfulóðir,
dregla nauma,
sem eð beiska eitur,
brúður, þú forðist.
63.
Vertu ráðholl
við rekka lið
rektu frá þér
rógsmenn alla,
en sundurþykki
sættu jafnliga
og gakk þeirra
vel á millum.
64.
Hlýð þú aldri
á hvískurmæli
þó þér bragnar
beri að eyrum,
satt skaltu jafnan
segja öðrum,
leik þér aldri
að lygimálum.
65.
Deilur skaltu
drjúgum forðast
og við orð varga
öngu býta,
þrættu aldri
við þrálátan
af kappi mjög,
það er krankt harðla.
66 Faðir himnanna,
formaður allra,
firri mey þessa
meinum öllum
og verði þinn
vörður og brynja
fyrir andskotans
illum skeytum.
67.
Engi skyldi ýta
ofmjög stunda
æfi sína
nema elska guð,
og ónýtur
aldri sitja
svo að iðjulaus
enginn finnist.
68.
Forðast skaltu,
friðlundað jóð,
bragna þá alla
sem bann gjöra
nema vísir þeim
á veg réttan,
það er, þorngrund,
þörf hin mesta.
69.
Sæl vertu aldri,
vífið unga,
þeirra sekta
sem svo gjöra,
sjálfir þeir kynda
eld eilífan
sinni sálu
sem svo syndgast.
70 Boðorð drottins
bið eg þú haldir,
brúðurin unga,
best af öllum hug
elska þú hann
sem eg áður sagði
en seggi aðra
sem sjálfa þig.
71.
Heiðra skaltu
helgar tíðir
og skipa svo
skötnum þínum,
fasta þú jafnan
ef fullstyrk er
svo sem klerkar
köppum bjóða.
72.
Á tiggja himins
trú þú fastliga,
það er grundvöllur
góðra verka,
predikan hlýð þú
prúðra klerka,
haf það jafnan
sem þú heyrir gott.
73.
Ef þú finnur
á farvegi
frómra rekka
fréttu allmargs,
segðu fátt öðrum
þó þeir spyrji þig,
nem þú, en góða,
gjör sem eg beiði.
74 Ef þú, víf, þiggur
veislur margar,
vertu þá góðmál
með góðu hófi,
dæm þú aldri
drótt um aðra,
það er mjög vanstillt
að vel fari.
75.
Drekktu lítið
af drykk góðum,
þá er margt talað
er mál hreyfist,
þá skaltu aldri
mjög hljóð vera,
það mega vondir
virða illa.
76.
Far þú með ýtum
ferðir margar,
vertu ráðholl
við rekka lið,
skemmtu jafnan
skötnum fríðum,
dvelur það stundir
drótt harmsfullar.
77.
Kenn þú gott öðrum,
kæran unga,
og nem það sjálf
sem nytsemd er í,
stöðug vertu
stolt að líta,
sá er mannkostur
bestur allra.
78.
Vertu oft, en nauma,
að nýtu verki,
postula er það
prúðlig dæmi,
nær sem Kristur
kallar á þig
í góða iðju
gef þig jafnan.
79.
Kauptu með elli,
kæran unga,
bænir margar
og být aumum,
ver kirkjum hlýðin
og klerka sveit
svo að þig fróðir
fyrir megi biðja.
80.
*Veð eru það
líf eða heilsa,
vöxtur á jörðu
þó að vori seint,
ægisbúar
þótt ekki gangi,
þorngrund, eftir
þínum vilja.
81.
Lasta þú aldri
lát, góðast fljóð,
það sem gengur
að guðs vilja,
betra er að þegja,
brúðurin unga,
en drottins verk
dýr að minnka.
82.
Á tungl og inna
trú þú aldri,
verði allt
að vilja drottins,
lát þér nægjast,
vitrust meyja,
þó að skaparinn
skýrast ráði.
83.
Húsa þú aldri,
hoskust meyja,
góðlundað víf,
gjöf vinum þínum,
laun mega dveljast
fyrir lof manna,
gef þeim jafnan
sem best gegnir.
84.
Haf þú ráð mín,
hoskust vífa,
þau eru af hjarta
hýru út gefin,
gangi þér dagur
hver að sólu
en þann bestan
að þú deyja skalt.
85.
Drottinn gefi það,
barn mitt dýrligt,
að þú hreppir
allt eð góða
og fylgi þér
sem fljóð stundum,
ljúfust, þér til
lífs og sálar.
86.
Gefi þér guð minn
gæfu alla
og elski þig,
jóðið góð,
hljóttu af höfðingjum
hylli góða
og alþýðu
allri þokkist.
87.
Allt verði þér
að jóðmælum,
meyjan unga,
það eg mælt hefi
hríni það á þér
með heill mestri,
barnið góða,
sem best gegnir.
88.
Hlaðist þú dygðum
sem hafið dropum,
haninn fjöðrum
en himinninn stjörnum,
sandur kornum,
foldin götum,
fjöllin steinum,
fiskar í vötnum.
89.
Akrar stöngum,
eyjar fuglum,
sólin geislum,
sjórinn fiskum,
góð bók línum,
gamminn hljóðum,
skipin nöglum,
skógar kvistum.
90.
Reið með vatni
og rekka mein
sólir tvennar
sá er hilmis þjón
og leiðir úlfs
lagður spjóti
orti fræði,
allljóst er það.
91.
Hagall með kauni
hætt á auð
og björg himin
sól og ís knífi stungin
hagall og mein
hátt í fjöllum,
ræsis arfinn
ráða hljóti.
92 Barngælu bálk
bragnar kalla
þetta kvæði,
það er harla stutt,
spök munu verða
sprunda arfi
ef það er þrisvar
yfir kveðið.
93.
Mál skal svo endast,
meyjan fríða,
gef eg þig guði
gamla og unga
en að endaðri
æfi þinni
Kristur vitji þín,
kvæðið er úti.


Athugagreinar

20.3 sjálf] ágiskun útgefanda, skinnlag rifið úr handriti.; gladliga JS 531 4to. –20.8 verða] svo JS 531 4to; skinnlag rifið úr handriti.
21.5 þinna] svo JS 531 4to; skinnlag rifið úr handriti.
36.
4 gunna] þ. e. gumna, manna.
37.
3 vorskuldir] þ. e. vorgjöld sem landeigendur létu innheimta að vori af leiguliðum fyrir afnot af jörðum eða kvikfé.
38.6 sýslur] svo JS 531 4to; skinnlag rifið úr handriti.
38.7 hygg] svo JS 531 4to; skinnlag rifið úr í handriti.
39.3 með gáti] svo JS 531 4to; skinnlag rifið úr í handriti. –
39.8 kappar ræði] ágiskun samkvæmt 10. erindi í Barngæludikti; ‘kapp’ sést einungis, því skinnlag er rifið úr handriti.
40.5 en] ágiskun útgefanda; skinnlag rifið úr handriti.
41.1 bjarta] ágiskun, skinnlag rifið úr handriti svo að ekki sést nema ‘b’ og ‘tta; Jód þetta’ JS 531 4to.
42.
Á spássíu er jafnarma kross og upphafslína stefsins sem vísað er inn í texta, sbr. 19. og 31. erindi sem einnig eru merkt með jafnarma krossi í handriti.
50.7 OOit] ólesandi, rifa í handriti.
55.5 auricularis] latína, þ. e. ráðsmaður, umboðsmaður.
61.
klén] þ. e. lin. Í kaþólskum sið var forboðið – og lágu við kárínur – ef kona hafði samræði við mann þann tíma sem hún hafði á klæðum svo sem fram kemur í skriftaboðum biskupa og skriftamálum kvenna, sjá t. d. ‘Íslenzkt fornbréfasafn’ I, 242; Íslenzkt fornbréfasafn, VII, 239’.
65.4 býta] þ. e. skipta.
80.1 Veð] ur-ending virðist bundin yfir enda orðs en yfirstrikuð.
84.5–6. gangi þér dagur hver að sólu] Orðtakið kemur fram í ævisögum biskupa og konunga á íslensku að fornu, sjá ‘Biskupa sögur’ II (Íslenzk fornrit XVI). Jónas Kristjánsson ritstýrði. Rvk. 2002, 19, 314; ‘Flateyjarbók’ II. Christiania 1869, 298; ‘Heilagra manna sögur’ I. C. R. Unger gaf út. Chria 1877, 709; ‘Saga Óláfs konungs hins helga’. Oscar Albert Johnsen og Jón Helgason gáfu út. Oslo 1941, 672; sbr. Johan Fritzner. ‘Ordbog over Det gamle norske Sprog’ III. Kristiania 1896, 474.