Átjánda sunnudag eftir trínitatis | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Guðspjallasálmar Einars í Eydölum 67

Átjánda sunnudag eftir trínitatis

GUÐSPJALLASÁLMAR EINARS Í EYDÖLUM
Fyrsta ljóðlína:Þá hræsnara flokkur heyrði
bls.71
Bragarháttur:Átta línur (tvíliður) þríkvætt AbAbcDDc
Viðm.ártal:≈ 1600
Tímasetning:1612
Flokkur:Sálmar
Átjánda sunnudag eftir trínitatis
Evangelíum Matt. xxij (34–46)
Með lag: Gæsku Guðs vér prísum
1.
Þá hræsnara flokkur heyrði
að herrann þaggar senn
þann villulýð sem lærði
að lífin væri ei tvenn,
safnast saman í ráð;
með undirhyggju orði
einn vitringur spurði:
Hvört er hið hæsta boð?
2.
Jesús ansar fróðum:
Elska skaltu Guð
af hug og hjarta góðu;
hæst er þetta boð,
að öll þín sál og sinn,
máttur máls og gjörða
megi því samþykk verða
að dýrka Drottin þinn.
3.
Enn er þvílíkt annað,
innir Jesús þá,
boðorð á milli manna,
minnist þar nú á
og hyggi að hvör um sig;
náungann og skalt elska
án alls táls og fölska
svo sem nú sjálfan þig.
4.
Í þeim tveimur orðum
er allt lögmálið fest
og það áður forðum
inna spámenn flest;
sonur Guðs sagði það;
en sem þeir saman kómu
sjálfur hóf upp rómu
og spyr þá aftur að:
5.
Hvað virðist yður eg vildi,
vita og heyra nú,
í hvörsu góðu gildi
þér geymið sanna trú,
um Krist, hvörs son hann sé?
Davíðs kóngs hins dýra
djarflega allir skýra,
draga sig hvörgi í hlé.
6.
Hvörninn hefur þá forðum
herra Davíð sagt,
sem veik að völdum orðum
í virðulegri makt,
að hann sé herra sinn;
þar hann fyr helgan anda
hefur það viljað vanda
og leiða í lofsöng inn.
7.
Minn Guð, mínum herra,
(mælti Davíð víst)
sagði því má þverra
þessi tignin síst;
sit mér á hægri hönd
þar til eg fjandmenn felli
á fótstall þinn að velli;
ei eru orðin vönd.
8.
Fyrst Davíð hann sinn herra
hefur svo kallað nú,
sem hafði ei neinn sér hærra
að hefð né sannri trú,
hvörneginn hyggi þér
hans son víst þá vera
og virðing slíka bera
hvað ólíklegt að er?
9.
Júða sveit ei lagði
andsvör hér til nein.
Þeirra flokkur þagði
og þótti vanda grein;
þeir blygðast allir eins,
svo þann dag enginn þorði
þá með ljósu orði
framar að frétta neins.
10.
Angur er mitt að meira,
mest í hjartans rót,
þau hæstu boðorð að heyra,
eg hefi þeim fallið mót;
auví, ó Jesú minn,
Davíðs sonurinn dýri,
Drottinn Guð vor hýri,
auktu mér anda þinn.
Vísan
1.
Spurði í öðru orði
um Krist, hvað úr leysti,
hvörs sonur hann sé þá raunar;
þeir sögðu Davíðs og hugðu,
Jesús hvað að auglýsi
í orði Davíðs svo forðum;
herra sinn hann þar kennir,
hvar fær sonur þá æru?
2.
Þó Júðar ekki tryðu
Jesúm hér Guðs son vera
heldur allir einfaldan
auman mann síður en annan,
þá er mín trú og það læri
af orði Guðs fast að skorða,
gátulaust Guðs son heitir,
Guð og mann, speki hin sanna.
(Vísnabók Guðbrands 1612; útg. 2000, bls. 71–72)