Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Hið minna Jesúskvæði

Fyrsta ljóðlína:Herra Jesús heyr þá raust
Bragarháttur:Hugbótarlag
Viðm.ártal:≈ 1600
Tímasetning:1612

Skýringar

Með eins lag og hitt.
1.
Herra Jesús, heyr þá raust
eg hugsa í mínu hjarta,
á þér einum er allt mitt traust,
engla ljósið bjarta.
Varstu píndur vægðarlaust
fyrir vora syndaparta.
Sál og líf með sæmd og ráð
set eg allt á þína náð
á hæsta himni að skarta.
2.
Veit þú mér þá viskugrein
með valdi og miskunn þinni,
að leiðist fram á lífsins rein
frá ljótu glæpa sinni,
svo bætast mætti bölið og mein
sem búið er sálu minni.
Því vona eg á þína dyggð,
þú munt setja í hjartans byggð,
það lýðum lækning vinni.
3.
Sjá þú hvörsu að synda neyð
særir hyggju mína,
löstu af mínu lífi sneið,
svo lækkist verðug pína.
Frelsi veit mér fyrir þinn deyð,
að forðast reiði þína.
Bið eg þann Guð að bjarga mér
sem blóði sínu úthellti hér
fyrir auma mannkind sína.
4.
Herrann Jesús, hugga mig
af hrelldum synda grunni,
svo að eg verk mín sauruglig
sjá með visku kunni.
Sjálfur faðirinn sendi þig
af sínum gæsku brunni.
Friðar andinn fylgir þér
með fremd og makt af himni hér,
meir en telst af munni.
5.
Ó, mildi Jesú, þitt maktarskraut
mig lát frá heimi spenna,
en líknar veg og lífsins braut
lát mig ætíð kenna.
Minnka láttu mikla þraut
manna um heiminn þennan,
svo að eg hverfi syndum frá
og sætt föðurs þíns eg mætti ná
en lýti og löstu að brenna.
6.
Herra Jesús, með heiður og vald,
hjálpin allra lýða,
leys af mér það lastagjald
að líf mitt mætta eg prýða
með það rétta regluhald
sem ritningarnar þýða.
Guðdóms maktin gefin er þér,
að græða allt á jörðu hér
og himin heiðri að skrýða.
7.
Guð fyrir sína guðdóms makt
gefi mér, þræli sínum,
girnd og vild með góðri vakt
að ganga frá syndum mínum,
svo að eg fangi sanna akt,
að snúa frá lasta línum.
Mér, sæti Jesús, send þá náð,
svo að æ nökkuð hjálparráð
verði að vilja þínum.
8.
Eg hefi svo lengi í ljótum sið
lifað á margar lundir.
Eg dýrðarfullan Drottin bið
að draga mig miskunn undir,
svo að eg fengi að fara með frið
á fagrar lífsins grundir
og ganga fram með góðleiks dyggð,
glaður frá allri synda hryggð,
þá dynja á dauðans stundir.
9.
Vilda eg síðan veittist mér
vist með helgum öllum
og af að láta angri hér,
orða og verka föllum,
og herra þeim sem hæstur er
í himnaríkis höllum.
Lof hans syngi öll lifandi þjóð
æ á meðan að endast hljóð
af innstum hjartans pöllum.


Athugagreinar

Sjá einnig: Vísnabók Guðbrands 1612 (útg. 2000), bls. 315–316.