Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Á sumardaginn fyrsta 1896 | Vísnasafn Skagfirðinga
Vísnasafn Skagfirðinga

Innskráning ritstjóra

Flokkar

Allt  (46)
Bæjavísur  (1)
Gamankvæði  (3)
Tíðavísur  (1)

Á sumardaginn fyrsta 1896

Fyrsta ljóðlína:Blessuð sumarsólin skær
Viðm.ártal:≈ 1896
Tímasetning:1896
Blessuð sumarsólin skær
ljómar hæst á hnjúkum fjalla,
hennar fegurð gleður alla,
nú sem lifa nær og fjær.
Hita, líf og ljós hún vekur,
lofti, jörðu og hafi frá.
Kulda, dimmu og dauða hrekur
Drottins náðargjöfin há.

Fagurt syngur fuglahjörð
lofgjörð sínum sólarherra,
sem ei blessun lætur þverra,
jafnt af himni, hafi og jörð.
Blómin rísa úr dauðans dvala
dýrðarbúning skreyta lóð.
Fossar kveða fram til dala,
frelsis náttúrunnar ljóð.

Ó mín tunga, ó mín sál!
Þennan undir óm skalt taka,
og sem fuglar loftsins kvaka,
blíðuríkt með barnamál
þínum ljúfa ljóssins herra,
líkn og náð sem streymir frá.
Heita lofgjörð lát ei þverra
lífsins meðan æðar slá.

Eilíf sólin alheims blíð
láttu kærleiks ljósið bjarta
ljóma mínu kalda hjarta,
vonar blómin væn og þýð
ávöxt dyggða endurnærðu,
auktu trúar styrk mér hjá
mig í skrúða fagran færðu
fyrir þér sem skarta má.

Guð í þínu nafni nú,
fyrsta sumar fagna ég degi
frá mér náð þín víki eigi
blíð og heil er bæn mín sú.
Segðu blessun yfir alla,
unga og gamla, nær og fjær
láttu engan frá þér falla,
friðar sól þín ljómi oss skær.