17. júní 1944 | Kvæða- og vísnasafn Mosfellinga
Kvæða- og vísnasafn Mosfellinga

Innskráning ritstjóra

17. júní 1944

Fyrsta ljóðlína:Það voru fagrir skógar forðum hér
Höfundur:Ásgeir Jónsson
Viðm.ártal:
Það voru fagrir skógar forðum hér
er feður vorir byggð sína hér reistu
og Þingvellir sem þingstað kusu sér
á þessum helga stað þeir bönd sín treystu.
Þá bar hver Íslendingur höfuð hátt
og hafði trú á landsins gróðurmátt.

Ei vættir landsins varnað gátu því
að vorrar þjóðar fjöregg yrði brotið
Hér frömdu illverk erlend leiguþý
en aldrei hefur baráttuna þrotið.
Vorlitla þjóð, í sárri sorg og neyð
sífellt þráði vonaði og beið.

Á meðan frelsi sviptir vorum við
ég veit að frelsisþráin var sá kraftur
sem hefur létt oss þessa lögnu bið
en loksins frjálsir stöndum við hér aftur.
Í dag við getum borið höfuð hátt
við höfum öðlast nýjan sigurmátt.

Vort fagra land við föngum því í dag
að frelsissöngvar hljóma um þínar lendur
og fjöllin enduróma sérhvert lag
og aldan niðar það við klettastrendur.
Sem frjálsir menn í dag við hefjum hátt
mót himni merkið rautt og hvítt og blátt.