Álafossbragur | Kvæða- og vísnasafn Mosfellinga
Kvæða- og vísnasafn Mosfellinga

Innskráning ritstjóra

Álafossbragur

Fyrsta ljóðlína:Um Reykjavík má það segja með sanni
Höfundur:Ásgeir Jónsson
Viðm.ártal:
Flokkur:Ástarljóð

Skýringar

Hegrinn, sem kemur fram í fyrsta erindi, var gamall kolakrani við höfnina
Um Reykjavík má að segja með sanni
að hún er svipfögur nýtískuborg.
Húsabáknin þar blasa við manni
bílar þjóta um götur og torg.
Og við höfnina er allt á ferð og flugi
fjöldi skipa þar siglir út og inn.
Söngur hegrans þar hrífur allra hugi
hátt hann gnæfir við bláan himinn.

Hér í borginni allt er á iði
en í sveitinni friður og ró
þar sem bændurnir brugga í friði
meðan Blöndal er suður með sjó.
Hérna um daginn þá ók ég út úr bænum
að Álafossi ég kom um miðjan dag
og þá heyrði ég hugljúft í blænum
hljóma seiðandi harmónikkulag.

Svo ég stoppaði skrjóðinn í skyndi
og ég skundaði glaður af stað
og þá fannst mér allt leika í lyndi
er ég leit þennan þjóðfræga stað.
Frá stórri tjaldbúð sem stóð þar úti á velli
stöðugt hljómaði fjörug músíkin
þangað fór ég í hvínandi hvelli
keypti miða og gekk síðan inn.

Þarna inni var glaðværð og glaumur
gleðin ljómaði á sérhverri brá
ungar meyjar sem dýrlegur draumur
voru að dansa þar gólfinu á.
Þó var ein þarna öllum öðrum fegri
augun broshýr með sólarhlýjum glans.
Ég stóð og gapti eins og sturlaður negri
stuttu síðar ég bauð henni í dans.

Út á gólfið svo svifum við saman
síðan hvað eftir annað á ný
lífið allt fannst mér glaðværð og gaman
aldrei ég gleymi kvöldinu því.
Mér fannst ég svífa til sólarfegri heima
ég var sæll en þó kveið ég fyrir því
að mig væri nú aðeins að dreyma
og að morgni ég vaknaði á ný.

Út við leiddumst og grösug var grundin
glóði sólin við úthafsins rönd
er við komum í angandi lundinn
ég þá fagnandi tók hennar hönd.
Þarna sátum við saman tvö í næði
sólin hneig o´ní geislum stafað haf.
Þar í lundinum brutum við bæði
eitt það boðorð er drottinn oss gaf

Við ókum saman er ballið var búið
ég bílnum stýrði af hreinustu list.
Oft var bremsað og stoppað og snúið
stöðugt faðmað og hjalað og kysst.
Svo um þetta ég segi ekki meira
ég er sæll og um kærleikann ég syng.
En á morgun við ætlum að keyra
upp til lögmannsins bæði með hring.