Bréf til Lárusar | Kvæða- og vísnasafn Mosfellinga
Kvæða- og vísnasafn Mosfellinga

Innskráning ritstjóra

Bréf til Lárusar

Fyrsta ljóðlína:Mig langar að skrifa þér Lárus minn
Höfundur:Ásgeir Jónsson
Viðm.ártal:
Flokkur:Ljóðabréf
Mig langar að skrifa þér Lárus minn
um lífið í sveitinni og fleira.
En dáðlaus er jafnan dugurinn
því dáðlaust er flest hjá Geira.
Hænurnar lifa og hafa það gott
og hanarnir nudda af þeim spikið.
Þær hafa það náðugt en verpa ekki vott,
ég verð þó að fóðra þær mikið.
Já, búskapurinn er býsna smár
ég bara á krakkann og frúna.
En næsta vetur þá verður það skár
ég vona það fastlega núna.
Því ef ég kemst aftur ærlega á flot
og út fram hjá skerjum og flúðum
þá rækta ég svörðinn og reisi mér slot
með risi og útskornum súðum.
en tímarnir breytast og mennirnir með
og margur ruglast í trúnni.
Nú hætti ég Lárus og kærlega kveð,
með kveðju frá Bjössa og frúnni.