Tíðavísur | Kvæða- og vísnasafn Mosfellinga
Kvæða- og vísnasafn Mosfellinga

Innskráning ritstjóra

Tíðavísur

Fyrsta ljóðlína:Árið sem á enda fer
Viðm.ártal:≈ 1925
Tímasetning:1922
Flokkur:Tíðavísur

Skýringar

Í handritinu stendur að vísurnar séu ortar á þorláksmessu árið 1922 eftir sunnlenskan sveitakarl. Undirritaðar BB Gr.h.
Árið sem á enda fer,
á æfi minnar nóni
veðra besta ár það er,
ég sem man á fróni.

Janúar á foldu fyrst,
festi snjó í hryðjum.
Útsynnings með bragðið byrst,
besta tið frá miðjum.

Febrúar við foldarbing,
ferðum helst til baga,
oftast var með um hleyping,
alla sína daga.

Mars í skauti blíðu bar,
bætti heyjaforðann,
síðast eina viku var,
veður hvasst á norðan.

Apríl kaldur oftast var,
engum þó með byljum
þurra frost og þyrkingar,
þó með hægum kyljum.

Maí svalur allur eins,
oft með frost um nætur,
gróðrinum til mikils meins,
meinlega spar á vætur.

Júní krapa kalsa með
og kuldaþyrking lengi.
jarðargróðri granda séð,
á görðum og engi.

Júlí nátta færði frost,
fram á auka nætur.
Síðan bauð hinn besta kost,
batinn tíðar mætur.

Ágúst góður allur var,
ýmist þurt og rekja
hentug tíð til heyskapar,
hagkvæm eftirtekja.

September hið sama má,
segja gæða veður,
rosalaust á réttu fá,
rekka jafnan gleður.

Október var ágæt tíð,
eins og best má haga,
fram að vetri furðu blíð,
frost þó nokkra daga.

Nóvember var hægur hlýr,
heldur veðra góður,
undir vetur best það býr
bændum sparar fóður.

Desember svo vægur var,
að varla fraus á læmi.
Tólf mánaða tíðarfar,
tel ég slíkt fádæmi.