Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Píslargrátur | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Píslargrátur

Fyrsta ljóðlína:Faðir vor Kristur í friðinum hæsta
bls.189–206
Bragarháttur:Hrynhent
Viðm.ártal:≈ 1525–1550
Flokkur:Helgikvæði
Píslargrátur

1.
Faðir vor, Kristur, í friðinum hæsta,
form smíðandi allra tíða,
sonur í dýrð að síðan færði
sanna lausn og hjálp til manna.
Heilagur andi á hverri stundu,
hér rennandi um heiminn þenna,
blási hann oss í brjóstin þessi
bestum ráðum guðdóms náða.
2.
Heilaga þrenning hér mega finna
hjörtun hrein í sögðum greinum.
Guðs almætti gefið með réttu
grundvöll þennan oss að kenna.
Skiptir hann til skilnings mönnum
skýring um sinn guðdóm dýran.
Einn og þrennur er hann að sönnu
ævinligur sem trúnni hæfir.
3.
Hreinast hold og mestrar mildi
menniligt í heiminn þenna
borið var eitt, sem bækur votta,
blómið allra helgra dóma.
Áður fyrr og aldri síðan
annar með svo guðdóm sannan
á jörðu fæddur, ei* hefur orðið
Jesúm líkur að krafti* og ríki.
4.
Meistarar hafa með mörgum listum
minniliga í ræðu sinni
vandað margt með visku *kennda
vessa smíð af Jesú þessum.
Enginn kann með orðum inna
alla hans dýrð með letrum skýrða.
þó hann fengi þúsund tungur
og þær allar *á máli *snjallar.
5.
*Enn hefi eg þessum öllum *minna
af orða snilld og lærdóms mildi.
Þó bið eg að þetta kvæði
þjóðum verði allt til góða.
Átreystandi árnað bestan
inniliga í hugsun minni
Jesús dyggð til elsku nægða
upphvessandi tungu þessa.
6.
Vilda eg eftir vorri skyldu
vera minnugur pínu þinnar,
hversu þú þoldir í heimi þessum
harða nauð og sáran dauða.
Jesús gjörði lýð að leysa
langminnugur og til sín vinna.
Græðari heimsins gefur oss síðan
guðdóms blóðið kristnum þjóðum.
7.
Á skírdags kvöld sem skriftir halda
skír Ritningin þanninn vitnar:
Gekk hann út í grafgarð nokkurn,
grandhreinastur og lærisveinar.
Sjálfur vissi og sagði þessum
sína fyrir þá beisku *pínu.
Holdið skalf á Herra mildum
hugsterkum við dauðans merki.
8.
Í fyrstu grein hann féll til bænar,
flóði sveitinn út með blóði,
niður á jörð með neyð svo harða,
nú þenkjandi holdið krenkja.
Guðdóms listin gjörði hrausta
græðarans önd af sorgar böndum,
líkama sinn með ljúfu kaupi
lagði hann fyrir *sálir manna.
9.
Samtíðis komu, sendir af Júðum,
sveitir þær að Jesúm leita,
búnir honum til bráðra meina
brynjað fólk með vopnum dynja.
Þegar þeir orðið eitt hans heyrðu
allir hlutu á jörð að falla.
Sína makt í svoddan greinum
sýndi hann þeim í þessum heimi.
10.
Síðan lét þá sjálfa ráða
sínu verki illsku sterka
því hann vildi í þessu holdi
þola *þá nauð og sáran dauða.
En þeir neyttu orðlof þetta
aðgangandi og Jesúm fanga.
Bundinn drógu og börðu höndum,
blessaður þagði hann við þessu.
11.
Lof og dýrð með lesning orða,
líf og sál af bestu máli,
ættum vér fyrir elsku rétta
inniliga í hjarta að minnast.
Yfir voldugri allri mildi
er skínandi Jesús pína.
Hún gefur best þeim henni treysta
himneskt ráð til guðdóms náða.

12.
Innleiðandi aumir Júðar
í þá borg með neyð og sorgum
bundinn Jesúm síðan sendu
sínum herrum búinn til pínu.
Krossfesting og kvalirnar stærstu
kalla þeir með ópi allir
verðugan þann er vann á jörðu
verkin best og nytsemd mesta.
13.
Annas hét, sá eigi með sönnu
ákæru réð fyrst að færa
upp á Jesúm, allt með kappi
ógurliga með þeirra rógi.
Forsvar rétt, að faðir vor, Drottinn,
fengið vann því sök var engin.
Höggið eitt, sem harðast mátti,
hann var sleginn í þessum ranni.
14.
Þetta högg með þungum hætti
þvingan kenndi af stæltri hendi,
lausnarans kinn að lamdist þanninn
leysti bein í höfði hreinu.
Marðist hold en munnurinn mildi,
móður og sár, hann fylltist blóði.
Jesús fékk í Annas húsi
öngva vægð til hvíldar nægða.
15.
Júðar harðir Jesúm færðu,
járnum bundinn, drógu og hrundu
fyrir þann mann er Kaífas kennist
og kirkju valdið hafði að halda.
Yfir-Gyðingar allir þangað
innan borgar komu að sinni
sem áður höfðu um Drottins dauða
diktað fund á þeirri stundu.
16.
Allir þeir með ákefð fulla
*en kærandi Jesúm *þenna,
Háð og spott með hrákum leiðum,
högg og bönd í þeirra höndum,
þoldi hann með þögn og mildi
þessa nótt og allt til óttu,
angur og pín með ýmsum greinum,
öngva náð af þeirra ráðum.
17.
Hugarins rásum hjörtun vísi
hrein að minnast þessar greinir,
inniliga og elska kunna
allra mest hans pínur flestar.
Yfir voldugri allri mildi
er skínandi Jesús pína.
Hún gefur best þeim henni treysta
himneskt ráð til guðdóms náða.

18.
Gyðingar þá með grimmd og reiði
gjarnan vildu að Jesús skyldi
deyja áður en dragist til náða
dyggðir hans í þeirra byggðum.
Færa hann með flokki stórum
fyrir þann *jall er Pílatus kallast,
kváðu hann skyldi af keisarans valdi
kvelja þann, sem lögmál sannar.
19.
Pílatus kallar einn frá öllum
Jesúm inn og vildi finna
sakanna hæð með settu ráði
og sanna grein til slíkra meina.
Spurði hann með spéskaps orðum
spektar laust í heimsins trausti:
Ertu kóngur yfir því mengi
er þig leiða hingað reiðir?
20.
Jesús svarar: Eg er að vísu
jafnan kóngur og með því nafni
býð eg rétt með bestum hætti,
banna eg syndir hverjum manni.
Ekki kom eg enn að dæma,
eigi ríkjandi í manndóms líki,
heldur er eg af hærra valdi
hingað sendur og sannleik kenndi.
21.
Andsvar rétt að *jalli þótti
Jesús halda í sannleiks valdi,
síðan gekk og sagði Júðum
svoddan grein með orði einu:
Öngvar sakir að eg get fengið
ásannaðar þessum manni.
En þeir reiðir og með æði
illsku ljótir töluðu á móti.
22.
Villir hann lýð og víkur öllu
voru ráði sér til náða,
gjörir hann tákn, með göldrum læknar,
guðlastandi trúnni kastar.
Kóng hefur hann sig kallað lengi,
keisarans vill hann æru spilla.
Því skal hann og þó með sönnu
að þínum dómi á krossi pína.
23.
Orðin vond og illar gjörðir,
angur og hryggð af rógi og lygðum,
þoldi hann með þagnar haldi
þessar nauðir allt til dauða.
Yfir voldugri allri mildi
er skínandi Jesús pína.
Hún gefur best þeim henni treysta
himneskt ráð til guðdóms náða.

24.
Jallinn vondur Jesúm sendi,
jafnan haldinn stóru valdi,
kóngi þeim að kominn var þangað,
kenna bækur Heródes þennan.
Hann vildi með hyggju kalda
heyra kunna af Drottins munni
tákn eður nokkur tignar lækni
torfengin en fékk þó engi.
25.
Heyrast mátti að hélt fyrir dára
Heródes illur í sinni villu.
Hvítu klæði hann réð skrýða,
háð merkjandi í þessu verki.
Sendir aftur í samri stundu
svo fyrir jall, en Júðar kalla:
Krossfestu þann *keisarann lastar,
kóng heldur sig í móti hans veldi.
26.
Pílatus vildi pínu halda,
plaga í neyð en ekki deyða
Jesúm því að hann vissi að vísu
vera kláran af dauðans fári.
Síðan lét með svipunum meiða,
svo flengjandi hart og lengi,
limirnir allir lamdir fullu,
leysti hreinast hold af beini.
27.
Standa hlaut við stólpann bundinn
styggiliga með ásján hryggva.
Mátti hann varla af manndóms mætti
meiri pínur þola eður fleiri.
Kalla þeir sem kvölunum ullu
kaldráðir með stóru háði:
Krýnum hann sem kóngi einum
kann að þjóna í augsjón manna.
28.
Þyrnikórónu þangað færa,
þrengja og spenna að Jesús enni.
Broddar þeir með beiskum göddum
bein og hold í gegnum skeina.
Enn leiðandi út fyrir Júða,
undum hlaðinn en dreyrinn dundi,
sárin öll af sviðanum sullu.
Sjá hér mann sem ritning sannar.
29.
Lítum nú vorn lausnarann sæta,
lífin hrein í sögðum greinum.
Sjáum það verð hann gjalda gjörði
grandalaus fyrir vorar andir.
Yfir voldugri allri mildi
er skínandi Jesús pína.
Hún gefur best þeim henni treysta
himneskt ráð til guðdóms náða.

30.
Jallinn sagði enn fyrir öllum:
Eg fann eigi með þessum manni
sanna grein að soddan pína
sé honum nóg að yðrum rógi.
Jesúm vil eg nú láta lausan,
lífi halda að mínu valdi
elligar beri þér ábyrgð fulla
um allar nauðir, písl og dauða.
31.
Júðar svara með *jöfnu *æði
*jarlinn muntu kunna varla
landsins rétt með laganna hætti,
lætur þennan villu kenna.
Kalla þeir með kappi öllu:
Keisarans ríki vill hann svíkja
og mátt þú fyrir orðið þetta
eigi haldast í þínu valdi.
32.
Jallinn hræðist Júða reiði,
jarðligt valdið vill hann halda.
Dáðum horfinn dæmdi síðan
dauðann þeim er leysti nauðir.
Jesúm leiddu Gyðingar gladdir
grimmliga hrundinn, reipum bundinn,
út af borg með angri mörgu
en hæðandi stórri mæðu.
33.
Krossinn þungan kvalarar fengu
Kristi að bera með hörðum kvistum,
særðust hans enu sælu herðar
svo blæðandi hann féll af mæði.
Manndóms styrkur mátti eigi orka
meiri pínu á holdi sínu
því hann var lengi þreyttur af göngu,
þorsta neyddur í stóru frosti.
34.
Síðan mætti hann sinni móður
svo fallinn hún kenndi hann valla.
Sverð hins gamla Simeons orða
sárliga snart þá hennar hjarta.
Guðdóms styrkur gaf henni orku
grát að stilla vel í máta.
Höfuðdúk sínum hún réð sveipa
harmi vend um sonarins lendar.
35.
Sonarins neyð og sorgir móður
samblandað í hugarins landi
ættum vér fyrir elsku rétta
inniliga í hjarta að minnast.
Yfir voldugri allri mildi
er skínandi Jesús pína.
Hún gefur best þeim henni treysta
himneskt ráð til guðdóms náða.

36.
Færði Jesúm fólkið harða
fram á leið og gjörði reiðu
krossins pín í kvölunum þessum,
kvíðir hold en sárin svíða.
Gadda stóra grimmum broddum
gegnum slógu Jesús lófa,
svo festandi sínu hastir
sigurmerkið á trénu sterka.
37.
Fætur drógu sem fastast gátu,
fleini líkan nagla einum
keyrðu þeir með *hamri hörðum,
Jesú ristur í gegnum nistu.
Undum gjörði oft um venda,
æðum tók þá fast að blæða.
Sinarnar togna en sárin magnast,
sviði og mein í holdi og beinum.
38.
Móðir hans og margir lýðir
mjög angraðir komu þangað.
Sorgir hennar sýnast margar,
sonarins nauð og harður dauði.
Jón postuli Evangelista,
oss kennandi, fylgdi henni.
Bæði þau með bestu ráði
blóði rignd við krossinn stóðu.
39.
Vínið súra vondir færa,
varla klárt og blandað galli,
munni Jesús, menga þanninn,
mátti hann ekki af slíku drekka.
Þorstinn gjörði að þvinga brjóstið,
þrauta mest og pínur flestar,
og mátti því eigi fyrir þetta
öndin halda líkams valdi.
40.
Lífsins styrkur og líkams orka
linaðist magn en sálin fagnar.
Öndin Jesús út því sendist
ógrönduð frá þeirra höndum.
Syngjum nú með sætum tungum,
samhljóðandi vilja góðum,
hæsta lof með heiðri mestum,
haldist dýrð með guðdóms valdi.
41.
Hold og líf með himna valdi
hann hefur nú fyrir dýrðir sannar.
Sonarins þrenning svo má inna
samblandað með föður og anda.
Yfir voldugri allri mildi
er skínandi Jesús pína.
Hún gefur best þeim henni treysta
himneskt ráð til guðdóms náða.

42.
Vissu Júðar valla af þessu,
vildu þeir að Jesús skyldi
deyðast eftir dæmdu ráði.
Dásöm undur á þeirri stundu
urðu þá yfir allri jörðu,
ógna myrkur en sólin styrkva
geymdi sína geisla hreina
Guði líkjandi í himnaríki.
43.
Blindi riddarinn búinn til vanda
bragða fljótur lagði spjóti
á síðu Jesú, sett með ráði,
svo það snart í gegnum hjarta.
Blóð og vatn af búknum dauðum
blessað rann og veitti þessum
skæra sýn og skilning hreinan
skýrandi yfir kristni dýra.
44.
Undan fellur í orða spjalli
allmörg grein af Jesús meinum.
*því að fundingum þori eg ei blanda
þetta mál eður fræða táli.
Heldur vilda eg hafa að skyldu,
heiðra og treysta þeim er oss leysti.
Rennum hug með röddu og munni
yfir ræðu þessa og lítið kvæði.
45.
Því gjörða eg íslensk orðin,
óglósuð í máli ljósu,
að greiðara hugði eg gefast til náða
góðviljugum það allir skilja,
en þér bæri að offra tárum
öndin mín fyrir Jesús pínu.
Píslargrátur plagi að heita
*pentað *vess um dýrðir þessar.
46.
*[Biðjum vér] þann best mun heyra
blessaður gefi að pínan þessi
ávallt renni oss til minnis
og styrki fyrir synda myrkri.
Hennar minning hún fær unnið
heimsins nauð og andar dauða
þá freistarinn fjúki lasta
fljótur kastar oss í móti.
47.
Jesús lífið lýða leysti.
Jesús öndin eyddi gröndum.
Jesús pína oss gjörir hreina.
Jesús dauðinn frelsti nauðir.
Megnast ást þó að málið þagni,
minn Drottinn, af pínu þinni.
Gráturinn fellur en gef eg oss alla
Guði í vald um aldir alda.
Amen