Hrynhent | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Hrynhent

Lýsing: Í þessum hætti eru 8 bragstöður í vísuorði. Hendingar eru eins og í óbreyttum dróttkvæðum hætti, nema hvað viðurhending er í 7. stöðu (í staðinn fyrir 5. stöðu). Hrynjandi í frumlínum (og síðar einnig í síðlínum) er jafnan trókísk (hnígandi tvíliðir). Það virðist einkenna hrynhendu (eins og kimlabönd) að síðari stuðull í frumlínum er jafnan í 5. stöðu, þ.e.a.s. í 3. sterkri stöðu, eins og í rímnakveðskap síðari alda. Þessi háttur á rætur sínar að rekja til latnesks trúarkveðskapar miðalda. Hann var fremur vinsæll, þótt fáar alveg reglulegar vísur fyrirfinnist fyrir tíma Snorra; sbr. þó 16. v. í Háttalykli Rögnvalds jarls, einnig Arnór Þórðarson jarlaskáld, Magnús Skeggjason og Gamla kanóka. Síðar var hrynhenda einnig mjög vinsæl, einkum í trúarlegum kveðskap (frægasta dæmið er Lilja Eysteins Ásgrímssonar), þ.á m. runhend afbrigði hennar (sbr. 90. v. Háttatals Snorra, 17. v. Háttalykils Rögnvalds jarls; einnig Málsháttakvæði). Í þessum hætti birtast einna fyrst einkenni kveðskapar síðari alda: hnígandi tvíliðir og fastur stuðull í 3. sterkri stöðu. (Í 62. v. SnE eru stuðlar í 5. og 7. stöðu (en hendingar í 3. og 7. stöðu í frumlínum (skothendingar) og í 2. og 7. stöðu í síðlínum (aðalhendingar)), og nefnir Snorri það dróttkvætt hrynjandi. Hins vegar fyrirfinnst þessi háttur ekki í dróttkvæðum kveðskap, en margar línur af svipaðri gerð eru í hrynhendum vísum í bland við línur af gerðinni 64. v. SnE, og bendir það til þess að skáld hafi ekki talið þetta sérstakan hátt.)

Dæmi

Vafði lítt, es virðum mætti,
vígrækjandi framm at sækja;
skerðir gekk í skúrum Hlakkar
Sköglar serks fyr roðnum merkjum;
ruddisk land, en ræsir Þrænda
Ribbungum skóp bana þungan,
Gunnarr skaut und gera fótar
grimmsetta il hjarna kletti.
Snorri Sturluson (1179–1241), Háttatal Snorra-Eddu, 64. vísa

Ljóð undir hættinum

≈ 1750  Árni Böðvarsson
≈ 1525  Höfundur ókunnur
≈ 1400–1550  Höfundur ókunnur
≈ 1525–1550  Jón Arason biskup
≈ 1600  Höfundur ókunnur
≈ 1600  Höfundur ókunnur