Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Ekkjuríma | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Ekkjuríma

Fyrsta ljóðlína:Semja skal hér Sónar vín ef seggir hlýða
bls.11–25
Bragarháttur:Braghent – samrímað eða braghenda samrímuð
Viðm.ártal:≈ 1575
Flokkur:Rímur
1.
Semja skal hér Sónar vín ef seggir hlýða,
bágt þó veiti brag að smíða,
því bernskan vill á móti stríða.
2.
Vilja á kvöldin liljur líns og lundar geira
nokkuð oftast nýtlegt heyra
og nenna að leggja þar við eyra.
3.
Meistarar kvæða máls og snilldar menntum högum
dikta ljóð af dæmisögum,
dýrum oft með lista brögum.
4.
Fæst eg síst við fordild þá sem fróðir rækja,
brags þó gjöri eg bögurnar flækja
og bössum meður saman krækja.
5.
Skárra held eg skafið sé en skorið illa,
bössunum er brjál að spilla,
breytni sú mun lítið gilla.
6.
Mín að vana mærðin leikur máls við stýri,
út af nokkru ævintýri,
efnið ljóða það eg skýri.
7.
Hvort það halda drengir dikt eða dagsatt kalla,
meining sína má hver spjalla,
mun eg um það keppa valla.
8.
Hyggnum ekki hygg eg bjóða heimsku slíka,
bragar ruglið bernsku ríka,
ber eg það fyrir mína líka.
9.
Munu þetta mínir ekki makar lasta,
ei þó falli við artugasta
erindunum fram að kasta.
10.
Historíurnar metast meir í mærðar brjáli
lærðum hjá en lausu máli,
þó lasti það margur heimskur gáli.
11.
En skuli eg eiga skýra mengi skjalið fræða,
best mun slík að bresti ræða,
byrjast þannig efnið kvæða.

> – – –
12.
Bóndi nokkur bjó og átti búgarð ríkan,
öldin vissi ei annan slíkan,
auðs af nægtum honum líkan.
13.
Gamall þessi geirs var Týr og grár af hæru,
átti sér þó unga kæru
artuga með bragði skæru.
14.
Hef eg ekki að herma mengi heiti hjóna,
firn þau áttu leifturs lóna,
lausafé og akra gróna.
15.
Borg var ein og byggðin þétt á breiðu stræti,
gárungar með glanna læti
gjörðu sér þar margir kæti.
16.
Losta neistinn lék þar sumum leynt við hjarta,
fipla vildu fljóðið bjarta
og fóru um slíkt í hljóði að kvarta.
17.
Frúnni sýndu glingurs glettur glæpa hrókar,
sverðin örðugt báru brókar,
brögðum seinna mættu krókar..
18.
Vildi þenna vansa forðast vitur svanni,
soddan aldrei sinnti ganni,
sérhverjum hún varðist manni.
19.
Aðra kvaðst ei elska mundi eikin falda,
sinn við bónda heldur halda,
hirðir meðan lifði skjalda.
20.
Skeði so þá skötnum bjó um skilnings svæði,
leiða snót í losta æði
leynt, ef hentugt gæfist næði.
21.
Hennar manni hættleg sótt til handa vendi,
ánauð tjónið andar sendi
örðug hærðum randa bendi.
22.
Hryggðar vígðist hrundin standi hrannar bjarma,
bóndans náði burtför harma,
bylgjan súta vall um hvarma.
23.
Brátt nú fréttist bana hrunið bóndans fjáða,
glöddust runnar grettis láða,
grund sem elska vildu þráða.
24.
Brunuðu heim til brúðar þrír af brjótum sverða,
snótar hugðust vinir verða,
vissi ei neinn til annars ferða.
25.
Sá hinn fyrsti seint um kvöldið sótti heim frúna,
fold var döpur frænings túna,
fala tók hann hana núna.
26.
Orð hans heyrði auðar Ná þó yndið bresti,
en artuglega af sér hressti
og andsvör veitti sínum gesti.
27.
„Lítill hlutur meinar mér“, kvað menja tróða,
„ástar kossinn yður að bjóða.“
Enn nam svara vífið rjóða:
28.
„Viljir þú þar vinna á bót so vel mér lyndi,
glöggt skal þá í glettu vindi
glæðast okkar kærleiks yndi.“
29.
Spurði ferðugt spillir vella spjalda Hildi,
hvaða fljóðið valda vildi
vinnu önn hann gjalda skyldi.
30.
Þorngrund járna þolli spjallar þýtt af létta,
báru fýrs hvað blítt án pretta
Baldur skyldi nýtt útrétta.
31.
„Líkkistu hér“, ljóst hún ræddi, „lét eg stofna
bónda míns, er burt réð sofna,
búkinn á að leggja hinn dofna.
32.
Vildi eg láta líkið strax þar leggja niður,
eftir því sem er til siður,
ei fæ eg því komið viður.
33.
Böl mér eykur böngun sú með beiskum harmi,
stendur úti í kirkju karmi
kistan líks með öngvum farmi.
34.
Ef þú gjörir inn til morguns“, auðs tér Friggja,
„í náhvílunni nú að liggja,
nefnda bón skalt af mér þiggja.
35.
Síst vil eg hún sé þar tóm“, hvað seljan tvinna.
„Þessa hægt er þraut að vinna“,
Þundur mælti dýnu linna.
36.
Njótur sagðist geira glaður greitt so skyldi
þóknast hér með þorna Hildi,
þó áskilja meira vildi.
37.
Brjótur stáls frá brúði síðan burtu vendi,
vísa hélt sér veiði í hendi,
að verma fengi sig á kvendi.
38.
Randa Þundur rekks nam dauða rúmið finna,
lagðist þar í líkur slinna,
las hann fátt, en söng þó minna.
39.
Brátt sem þessum brík frá vikin brims var ljóma,
annar kemur Ullur skjóma
inn til selju Skrímnis dóma.
40.
Mjög þá vafin hrings var hrundin hryggðar kjörum,
mátti hún varla miðla svörum,
maðurinn fljóðs því lá á börum.
41.
Kauðinn hugði káfa vífs um kviða mótin,
hefði vænleg viljað snótin
veita honum yndishótin.
42.
Áform sitt hann brúði birti blíðu meður,
sinnar þurftar sérhver kveður,
so veit eg það löngum skeður.
43.
„Geyst minn hvessti gríðar blær“, kvað Gautur hneita,
„þín til fylgilags að leita,
líf fyrst missti runnur skeyta.
44.
Þér er kæran“, kesju bör so kvað með orðum,
„óvandara en áður forðum,
ektabands þá varstu í skorðum.“
45.
Öðrum kvaðst hún önnum framar eiga að gegna,
húmið meðan hyldi þegna
hindrast mundi slíkt þess vegna.
46.
„Liðinn áðan minn var maður,“ mælti frúin,
„mikið vel til moldar búinn,
mín það vinna gjörðu hjúin.
47.
Kappar lögðu kroppinn so í kistu þröngva,
hún er úti í salnum söngva,
seggi vaka fæ eg öngva.
48.
Verð eg þar að sitja sjálf og syrgja hans bana.“
Byrðar sagðist Gautur Grana
gjöra skyldi það fyrir hana.
49.
Hitt þá kvöldið halurinn óskar hún sig finni
og breyti eftir beiðni sinni.
Brúðurin frá eg játa kynni.
50.
„Vil eg þú so hegðir högum,“ hún þá ræðir,
ljós á tveimur lömpum glæðir,
líks so niður óttann bræðir.
51.
Annað settu á altarið með öngvum stansi,
húsa blysið hitt vel glansi
hökla njóts á kennslu skansi.
52.
Sloppnum klæddur,“ slyng að tempra slægðar hjólin,
„praktugt gakktu,“ pells kvað sólin,
„predikunar upp í stólinn.
53.
Síðan gjörðu saltara einum sundur fletta,
sálma drýgðu sönginn rétta,
sætt og lengi rödd með netta.
54.
Áttu í nótt með iðju slíka alla vaka,
mest sem orkar kverkin kvaka,
kvarðann máls við sönginn skaka.
55.
En ef nokkur örðugt brýst í innið klerka,
náhvílluna að lama og lerka,
leggðu fram þitt aflið sterka.
56.
Hratt þann dröttinn hrektu óspart með hreysti þinni,
grimmd með kremdu úti og inni,
eymd og skemmdir so hann finni.“
57.
Hét án tafar hér um góðu hjörva Baldur,
ræðu síðan rénaði skvaldur,
rokkinn var þá Suðra faldur.
58.
Glaður mjög í glettu þey sá glósum hlýddi,
beint að messu búð sig hýddi
og bjöllu ranninn ljósum prýddi.
59.
Snotur niður sniðaði allt með snöggvu bragði
maðurinn rétt sem mengrund sagði
og messuklæðin yfir sig lagði.
60.
Síðan upp í stólinn stígur stála Þundur,
ræðu skarðið reif í sundur,
rýmdist þaðan hósta klundur.
61.
Rekkurinn bjó sig róms til iðju rétt sem henti,
grallara einn með greipum spennti
og grana fiðrið strjúka nennti.
62.
Drengurinn sönginn drýgja vann með dirfð óraga,
langt og hátt sem lýðir plaga
laginu eftir nótum haga.
63.
Þegninn má sig þreyta fyrst með þunga tóna.
Geta skal um frænings fróna
foldu, einn sem tældi dóna.
64.
Halurinn þriðji hringa þöllu heim nam sækja,
eftir beiddist iðni klækja,
átti hún ljóst að verða skækja.
65.
Sumar mundu seljur núna svofnis heiða
Bifurs hafa báls við meiða
betur tekið þessum greiða.
66.
Hans þá viljann skýrt fékk skilið skorðan klæða,
gjörði so við rekkinn ræða
reinin bjarta jötuns kvæða:
67.
„Böl mér þetta bannar þinni bón að taka,
önduðum mínum ektamaka
öngvan fæ eg hjá að vaka.
68.
Kistan líks í kirkju stár,“ nam kæran þylja,
„mínum þvert á móti vilja
menn við hana allir skilja.“
69.
Dörs kvað grér: „Um dimman get eg Derlings sprakka
hirðir vaktað hildar stakka,
heljar veg sem gjörði flakka.
70.
Fá vil eg þá,“ fleygir sagði Fjölnis bríma,
„vífs faðmlög um vissan tíma,
víst þá endast þessi gríma.“
71.
Játar snotur japa þessu jarðar lilja.
Golnis vallar grér má skilja,
ganga mundi sér að vilja.
72.
„Breyttu rétt sem býð eg þér,“ kvað brúðurin káta,
„skikkun mína skaltu láta
skeika ekki á nokkurn máta.“
73.
Lofar þessu laufa grér en lindin spanga
burt frá rekknum gjörði ganga
greitt og tafði stund ei langa.
74.
Gráa ólpu grettis bóla grundin djarfa
færði hirðir styrjar starfa
og stóran hatt með sama farfa.
75.
Kynja mikið krókaspjót hún kom með líka
handa Þundi Bölverks bríka,
byrjar þanninn ræðu slíka:
76.
„Meður skrúða þú skalt þessum, Þundur spanga,
klæða af þér kuldann stranga,
kirkju dyrunum að so ganga.
77.
Forðast gjörðu ört þar inn með ákefð strjúka,
heldur skaltu hurð upp ljúka
í hálfa gátt og kænsku brúka.
78.
Kræktu í hringinn króknum spjóts á kistu gafli,
hana dragðu út með afli
að þér so í snöggu hrafli.
79.
Vaktu síðan úti einn á Yggjar svanna
arms hjá liðnum lundi fanna,
líkum nærri dauðra manna.
80.
Máttu þar so, málma grér, til morguns bíða,
hver sem vill þér hindran smíða,
honum skaltu á móti stríða.
81.
Sjáðu til að sérhvað takist sem eg vildi.“
Þegninn lofar ske svo skyldi,
skundar síðan baugs frá Hildi.
82.
Seggurinn gráa satans hamnum sig nam reifa,
gjörði so til kirkju að keifa,
klókheitunum mun sá hreifa.
83.
Greina skal frá Gefnar harma Gauti skúra,
sem í kistu líks nam lúra,
lýðs um skapta eyktar dúra.
84.
Þegar hann líta þegninn vann, er þuldi sálma,
íhugaði hirðir hjálma,
hver sá væri reynir álma.
85.
Fyrr lést söng ei fengið hafa fegri að heyra
en sá framdi Gautur geira,
grér það meinti fofnis leira.
86.
Að þar væri engill drottins ofan af hæðum
kominn í stólinn krýndur gæðum,
kröftugur í verki og ræðum.
87.
Skilja lést á skrúða rekks það skjóma viður,
af því að hann var upp og niður
alhvítur sem svana fiður.
88.
Fagnaðar sú færði sjónin firna gleði
þeim í kistu kúra réði,
kappinn hljótt so við sig téði:
89.
„Víst hefur sá bóndi brúkað bestu siði
sem hér leiddist lífs frá miði
og lifað vel með spekt og friði.
90.
Auglýsa það englarnir með alúð staka,
þessumyfir þeirra maka
þreifanlega sjálfir vaka.
91.
Vissulega verð eg nú,“ kvað veifir skjóma,
„í hans stað með yndi og blóma
uppnuminn í dýrðar ljóma.
92.
Vel mér líkar virðing sú, þó vera hljóti
að eg vífsins aldrei njóti,
yndis mér sem lofaði hóti.“
93.
Sem hann var að sífra mest á soddan stagi
og söngvarinn sér lék í lagi
lítill varð á gleðinni bagi.
94.
Í því bili ólpumaðurinn upp nam ljúka,
hurðar lokur frá lét fjúka,
framdi hann ekki átekt mjúka.
95.
Inni staddir óttuðust þetta Ullar spjóta,
drengir hugðu djöfulinn ljóta
dyrnar þar sem upp nam brjóta.
96.
Þar til meintu kónginn kvala kominn vera,
moldarskrínið bóndans bera
burt í heljar díkið þvera.
97.
Mælti sá í stólnum stóð með stríðum trega:
„Brík við þessu bæsings vega
búist hefur sannarlega.“
98.
Seggurinn vildi söngnum meður satan fæla,
en hann kunni ei orð að mæla,
olli þessu hræðslu kæla.
99.
Kvíða skæður kvillinn svall í kistu gesti,
inn sér hann þá freisting festi,
fjandinn væri kominn sá versti.
100.
Sig að draga í sálar hel til sinna granna,
herrann biður himna ranna
honum soddan áform banna.
101.
„Þetta hefur vitað víst sú vonda dækja,“
skelfdur þenkti skýfir mækja,
„skrattinn mundi bóndann sækja.
102.
Hún so ætlað hefur til með hrekki stinna,
hingað mig að gabba og ginna,
so gjöldin skyldi eg þessi finna.“
103.
Hættur ótti hann þá gjörði hér um reyra,
þorði ekki Gautur geira
grand að láta til sín heyra.
104.
Kominn vomur kænn sem ber nú klæðin gráu,
inn um dyr það seggir sáu,
og seilist til með spjóti bláu.
105.
Krókinn sterka unda als lét Ullur spanga
kistuhringinn gegnum ganga,
gaflinum sem í nam hanga.
106.
Geyst fram kistu geira Týr á gólfið fölva
að sér dró sem ætli að mölva,
er hinn dauði í hljóði að bölva.
107.
Þeggar laufa lundur leit þann ljóta kauða,
hjá sem átti drjólnum dauða
dvelja so hann kenndi ei nauða.
108.
Honum strax sú hugsun jókst um hyggju svæði,
brúðar missti hann blíðu gæði
bónda fjandi sá ef næði.
109.
Stökk so rekkur stólnum úr og stáls í hanka
grípur nú og gjörir stjanka
greitt þar spratt upp heiftin kranka.
110.
Hann að innan heldur nú sem harðast getur,
fast til jarðar fætur setur,
feginn vill sér takist betur.
111.
Kjöltur hér við kistu rekks ei kunni linna.
„Láti guð,“ hann lágt nam inna,
„ljúfan engil sigurinn vinna.
112.
Skil eg síst að skrattinn honum skæður verði,
fítonskraftinn hann þó herði,“
hugarsjúkur mæla gerði.
113.
Togast á með heiftarhörku hinir báðir,
mjög so urðu mæðu fjáðir,
málma njótar ergjast bráðir.
114.
Nadda brjótar nasalæti nógleg höfðu,
blöskra tók þeim borðin vöfðu,
bæði á honum eyrun löfðu.
115.
Allra mest það upp í honum ofboð vekur
að nú kistan togast tekur,
tré eins og þá straumur hrekur.
116.
Kappið lengi þreyttu þessir Þundar hringa,
báðum var þeim búið að springa,
bragna gjörði mæðin þvinga.
117.
Geyst svo kistu garpar teygðu í göflum hrikti,
kauðinn grái hart á hnykkti,
henni fram að dyrunum rykkti.
118.
Hún um þveran þrepskjöld stóð, en þegninn hræddi
sínar brækur stýft í stæddi,
straumur þarma niður flæddi.
119.
„Mér ef kemur,“ þar um þenkir þegninn klökkur,
„út úr kirkju kölski dökkur,
í kvaladýkið niður sökkur.“
120.
Rann um gólfið garnatjörn so gjörðist bleyta,
engill þegar vörn skal veita,
varla mátti hann fóta neyta.
121.
Karlmannlega keyrast lét hann kistuskrokkinn
upp á dyra undirstokkinn,
út af féll so véla bokkinn.
122.
Ótta settur Yggur þenkti Ullar nökkva,
væri nú með kistu klökkva
kölski vondur farinn að sökkva.
123.
Veikhugaður vitinu sleppti vella Þundur,
beljaði með býsna undur
og borðskífunum spyrnti sundur.
124.
Þusti kistan þá í sundu þvert í parta,
skjóma bör með skelkað hjarta
skaust þá út í myrkrið svarta.
125.
Þaðan rjóður flúði fleins með forgang stríðan
hart í burt með hræðslu kvíðann,
hefur hann aldrei fundist síðan.
126.
Ofan í hræðslu djúpið dimma drengir krupu,
ofboðs hveljur seggir supu,
sinn í hverja átt þeir hlupu.
127.
Yfir kirkju gildan garð sér garpar skutu,
sig á háls þar báðir brutu,
bana af því skjótan hlutu.
128.
Öngva sagt er ágæt snótin ónáð fengi,
hún í friði lifði lengi
og lofstír fékk af öllu mengi.
129.
Er nú þetta ævintýr á enda farið,
saman allt með bössum barið,
berst það heim í þagnar varið.
130.
Lýði bið eg ljóðin stirð í lag að færa,
hverjum, sem þau lystir læra,
lukkan fylgi, sæmd og æra.
131.
Mitt hér styttist mála brjál og magnið sagnar,
gæfu hæfi gagnið magnar,
greina seinlegt stag nú þagnar.