Uppreisnarmaðurinn | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Uppreisnarmaðurinn

Fyrsta ljóðlína:Um kirkjugarðinn gustur haustsins fer
Höfundur:Carl Snoilsky
bls.47–50
Bragarháttur:Sex línur (tvíliður) fimmkvætt aaBccB
Viðm.ártal:≈ 1950
1.
Um kirkjugarðinn gustur haustsins fer,
að gráum rúðum skólans laufin ber
og þyrlar fyrir glugga bleikum blöðum.
Þar inni sitja piltar bekk við bekk
sem bundnir væru sterkum töfrahlekk,
– hver barmur knúinn hjartaslögum hröðum.
2.
Í voðarómi, er rymur allt í kring,
þá reynir kennarinn í sagnbeyging
og gefur hvorki frest né fyrirvara.
Á augnabliki, er lævíst líður burt,
skal latínuna finna er um var spurt,
uns nafn hann kallar. Þá skal seimlaust svara.
3.
Einn hrekkur upp, sem skotinn strax í stað,
en stamar bara – ekki meira um það –
fær góðan kinnhest, granninn spurninguna.
Svo gengur fræðslan öll í sömu átt,
en eitt ég fékk að vita á þennan hátt,
að taugar hef ég – það ég má þó muna.
4.
Hve óralangur oss var tími sá!
Og augun læddust sífellt til að gá
hvort klukkan yrði aldrei tólf þann daginn.
Þá skyldi matast – gleypa samt í sig –
og síðan lesa undir drep og slig,
því klukkan þrjú skyldi aftur byrja braginn.
5.
Þá kverið sína þraut og þjáning býr
og þangað til hver mínútan er dýr,
með hönd á forki, fræðin vor í hinni.
Þar hljómar loks hið lengi þráða slag!
Oss latínan ei pínir meir í dag. –
Nú ríður á að hraða heimför sinni.
6.
En kennarinn er ekki búinn enn,
og augnablikin fljúga – tvenn og þrenn
uns korterið er þrotið. – Þá er heima!
Um bekkinn læddist mögl og muldur hljótt,
en meistarinn leit við – og allt varð rótt.
Þá gerðist það sem eg mun aldrei gleyma.
7.
Þá stóð upp einn – er sérhver hokinn hékk –
sem hafði sæti innst á fremsta bekk,
næst kennaranum allra innan gætta.
Hann mælti fast með friðsamlegri ró,
með fullri kurteisi, en einbeitt þó:
„Það mætti ei biðja meistarann að hætta?“
8.
Hve djarft – af sveini er frjálsrar fræðslu naut!
Hann framan í sig líka svarið hlaut.
Það var sem allir gengjum vér á glóðum
er fimmtán ára unglingurinn hratt
við armlegg harðstjórans, sem næstum datt,
og keikur stóð með vöngum reiðirjóðum.
9.
Þá sauð fyrst upp úr. Sjálfur rektorinn
kom svipþungur og hátíðlegur inn.
Með einum hætti brotið mátti mýkja:
Með auðmjúklegum afsökunum strax
og opinberri hirting sama dags
til aðvörunar – annars burtu víkja.
10.
Vér athuguðum andlit félagans.
Þar orrusta var háð um forlög hans.
Hvort skal þann kaleik tæma – eða tregðast?
Hans framtíð veltur öll á einu hér
því enga fræðslu keypt hann getur sér
ef hérna skyldi skólavistin bregðast.
11.
Hann hefir gáfur, þráir þekking mest
og þýðir Cæsar allra pilta best,
til vegs og stöðu strax hann lagði drögin.
Hann hefir dreymt um háan menntaveg,
– en hér er engin læging möguleg.
Nei, þá er betri sjórinn eða sögin!
12.
Það var oss langt og leitt að heyra og sjá.
Vér litum roða og fölva skiptast á
á kinnum hans – hann mátti varla mæla. –
Svo stamaði hann aðein út úr sér:
„Ég ætla best að vera ei lengur hér.“
„Svo farið þér!„ Og hurðin skall á hæla. –
13.
Hann farinn var. En seinna sagt var frá
að sést hann hefði næstu grösum á
í sótugri úlpu og ekki hreinn í framan.
Og hvíslað því með leynd og vorkunn var,
í verksmiðju hann hefði ráðist þar,
hjá Bolinder, – svo bar þeim flestum saman.
14.
Um upphlaupsmannsins nafn slík nepja stóð
sem næddi gola af kaldri vetrarslóð
og færi um heita stofuloftið straumum.
Hinn villti fugl, er þoldi ei búr né bönd,
flaug burt á veruleikans auðu strönd.
Vér hinir sátum heima yfir draumum.
15.
Já, draumum! Hvar sem flett var blaði í bók
hin bjarta hetjufylking við oss tók,
Tell, Washington og Brútus – einn af öðrum.
Hve fagurt var í fornum skræðum þeim
þær frelsishetjur mega sækja heim
og hefja sig til flugs á þeirra fjöðrum.
16.
Og undir frelsismerkjum leið vor lá
með leiðtogunum æðra heimi frá
sem sagan hafði fléttað frægðarsveigum.
Og enginn kom í úlpu kolamanns
með ónotalegt vottorð sannleikans
– að lærdómur og líf fer hvort sinn veginn.