Litla skáld á grænni grein | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Litla skáld á grænni grein

Fyrsta ljóðlína:Litla skáld á grænni grein
bls.109–111
Bragarháttur:Ferskeytt (ferskeytla)
Viðm.ártal:≈ 1900
Flokkur:Náttúruljóð
1.
Litla skáld á grænni grein,
gott er þig að finna;
söm eru lögin sæt og hrein,
sumarkvæða þinna.
2.
Við þinn létta unaðsóð
er svo ljúft að dreyma,
það eru sömu sumarljóð
sem ég vandist heima.
3.
Ég ætla að líða langt í dag
laus úr öllum böndum,
meðan þú syngur sumarlag
Sjálands fögru ströndum.
4.
Láttu hljóma hátt og skært
hreina og mjúka strengi —
svo mig dreymi, dreymi vært,
dreymi rótt og lengi.
5.
Ég ætla að heilsa heim frá þér
Hlíðinni minni vænu;
hún er nú að sauma sér
sumarklæðin grænu.
6.
Niðri um engjar, uppi um hlíð
yrkja á hörpur skærar
sumarljóðin létt og blíð
lindir silfurtærar.
7.
Þær verð ég að faðma fyrst
fyrir margt eitt gaman;
við höfum sungið, við höfum kysst,
við höfum dansað saman.
8.
Þar mun líka lifna á ný
litur bleikra kinna
hinum bláu augum í
æskusystra minna.
9.
Vilji og einhver vinur kær
vísur mínar heyra,
syng ég eins og sunnanblær
sumarljóð í eyra.
10.
Sjái ég unga silki-Hlín
sitja fölva og hljóða,
kannist hún við kvæðin mín,
kyssi ég hana rjóða.
11.
Syngdu, vinur, syngdu skært,
syngdu á þýða strengi
svo mig dreymi, dreymi vært,
dreymi rótt og lengi.