Sólskríkjan | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Sólskríkjan

Fyrsta ljóðlína:Sú rödd var svo fögur og hugljúf og hrein
bls.163–164
Bragarháttur:Sex línur (þríliður) aBaBaB
Viðm.ártal:≈ 1900
1.
Sú rödd var svo fögur, svo hugljúf og hrein,
sem hljómaði til mín úr dálitlum runni;
hún sat þar um nætur og söng þar á grein
svo sólfögur ljóð um svo margt sem ég unni,
og kvöld eftir kvöld hóf hún ástarljóð ein –
ó, ef að þú vissir, hvað mikið hún kunni.
2.
Hún kvað um sitt fjölbreytta fjalldala skraut,
hve frítt er og rólegt að eiga þar heima,
hve mjúkt er í júní í ljósgrænni laut,
hve létt þar er vetrarins hörmum að gleyma,
og hvað þá er indælt við ættjarðarskaut
um ástir og vonir að syngja og dreyma.
3.
En sætast af öllum og sigrandi blíð
hún söng mér þar ljóðin um dalbúans næði,
um lundinn sinn kæra og lynggróna hlíð,
þó lítil og fátækleg væru þau bæði;
en svipurinn hýrnar, þér sýnast þau fríð
í syngjandi snjótittlings vornæturkvæði.
4.
Þar söng hún í kyrrðinni elskhugans óð
um óbyggðar heiðar og víðsýnið fríða,
og æskunnar barnglaða, blíðróma ljóð,
sem biður þess sumarið: aldrei að líða;
því sitja þar vorkvöldin hlustandi hljóð,
því hika þar nætur og dreymandi bíða.
5.
En fjarri er nú söngur þinn, sólskríkjan mín,
og sumur þíns vinar hin fegurstu liðin;
hann langar svo oft heim á Þórsmörk til þín,
hann þráir svo ljóðin og vornæturfriðinn, –
hann harmar í skógunum hrjósturlönd sín,
hann hlustar sem gestur á náttgalakliðinn.