Ljóðabréf Hallvarðs Hallssonar til Daða Ormssonar | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Ljóðabréf Hallvarðs Hallssonar til Daða Ormssonar

Fyrsta ljóðlína:Efnis leita mitt skal mál í mærðar blandi
bls.158–162
Bragarháttur:Braghent – samrímað eða braghenda samrímuð
Viðm.ártal:≈ 1750
Tímasetning:1744
Flokkur:Ljóðabréf

Til Daða Ormssonar, ritað 6. september 1744.

1.
Efnis leita mitt skal mál í mærðar blandi,
þó með orða þýðu standi
þér til gamans tilheyrandi.
2.
Uppá skemmtan einum þér í orðasnilldi,
það er ei sem þéna skyldi
þú ef fleirum sýna vildir.
3.
Setja vil eg Sónar þátt í sögu rétta
um getandi fátt til frétta,
fljótt þó undirvísi þetta.
4.
Ef að greina eg skal þér í efnum vöndum
eyðiplássið allt á Ströndum,
ólíkt er það Suðurlöndum.
5.
Held eg vera Horn á ströndum, hér má sanna,
í fyrstu viku fardaganna
fullbúinn eg var að kanna.
6.
Sjófarandi, víða var þó vegurinn stirði,
kom eg leið úr Kollafirði,
kannski margir fyrir sér virði.
7.
Var ég orðinn þjáður þá til þrauta löngum
af óvegunum ærið ströngum
en allt var fyrir sig norður að Dröngum.
8.
Minn þá bróðir með mér var, so má eg greina,
orku reyndi oft óseina,
engum síður vanur að reyna.
9.
Vorum við sagðir vitlausir í vinnugerðum;
tíðum veginn tveir þó herðum
tamir lítt í sjóarferðum.
10.
Í Trékyllis eina vík eg ört réð halda.
Bæði gekk þar brim og alda
beint í land með austankalda.
11.
Á grynningum ekki par sig aldan duldi.
Stóð þar eftir stormur og kuldi,
Strandasýslu fjöllin huldi.
12.
Drifsjór stundi, drun um allan dag til enda
sem upp að landi eg réð benda,
aldrei var þar gott að lenda.
13.
Straumur, hafís, stormur, sjór með stærð ófríða
einninn mót hvert öðru ríða
út um flóann hafsins víða.
14.
Hestinum Ægis hleyptum úr því hafinu stundum
upp að klettum eða grundum,
aldrei lending rétta fundum.
15.
Eitt sinn komst eg uppá land hjá óveg stórum.
Í Trékyllisvík þá vórum,
viku seinna þaðan fórum.
16.
Alla tókum strax að stundu stefnu valda.
Þegar gjörðum þaðan halda
þá var hvítalogn og alda.
17.
Hákallamiðin héldum á í hafið bláa
þar til sáum Hornbjarg háa,
hæstu fjöll og kletta smáa.
18.
Mér var þá í minnsta máta mótgangs baginn
ört að róa allan daginn,
á það tókum stefnu slaginn.
19.
Hvít voru ofan hæstu fjöll og hálsabörðin.
Djúpt fyrir framan Drangaskörðin
drógum við gegnum Bjarnarfjörðinn.
20.
Fjallið leit ég furðu hátt í ferðum efna,
glöggt sem þjóðir Geirhólma nefna,
gjörði eg framan á hann að stefna.
21.
Held eg þar vera hættumest að hleypa til landa.
Áfallsskriður öllu granda,
endar hjá honum sýslan Stranda.
22.
Lítill vestanvindur var á víðu flesi.
Krókalaust þó kælan blési
kom eg þar að á Látursnesi.
23.
Þaðan stýrði eg öldu orm á ufsa leitir,
tók eg stefnu, til so breyti,
á tanga þann er Straumnes heitir.
24.
Þótti mér ei þægilegt á þessu slekti,
ekki neitt eg áður þekkti,
Ás Barðsvíkur mig þá blekkti.
25.
Hugði eg að hleypa þar upp að háum sandi
öllum skipum ólendandi,
ekki komst eg þar að landi.
26.
Skipinu fyrir Barðann brátt eg burtu vendi.
Var þá Smiðjuvík fyrir hendi
vel þar enginn maður lendir.
27.
Eina stefnu enn þá tókum áfram rétta,
bæði sáum björg og kletta
brotna fljótt og ofan detta.
28.
Oft féll skriða yfrið hátt so undir dundi,
fann eg margan fugl á sundi,
í flokkum ofan úr björgum hrundi.
29.
Frá Smiðjuvíkurbjargi brátt eg burt réð venda.
Þar kann engin þjóð að lenda,
þá var dagur kominn á enda.
30.
Að Bjarnarnesi lögðum langa leið so snjalla.
Sá eg björg og óbyggð alla,
Axarfjallið verst má kalla.
31.
Heiðnabjargið held eg versta Horns á ströndum.
Þar er víða fullt af fjöndum,
fólskum, slægum jarðaröndum.
32.
Hjá stórum töngum stutta gjörði eg stund að bíða.
Út á sjónum eg sá víða
eins og menn á landi ríða.
33.
Horfði eg lengi, heilann um það helst að grafa.
Mér heyrðust bæði skurka og skrafa,
skrattann bað eg þá (það) að hafa.
34.
Sofandi á sjó að vera síst við eirðum.
Þá upp í klettum óminn heyrðum
áfram lengra burtu keyrðum.
35.
Hornbjarg síðan tekur til með tindum háum.
Út frá töngum yfrið smáum
eina mikla röst við sáum.
36.
Margar skriður féllu fljótt í fyrsta gengi.
Allt eins skelfur og á strengi,
undir kváðu fjöllin lengi.
37.
Fugl í björgum hljómar hátt sem hans er vandi,
framan úr hafi flaug að landi
flokkum saman óteljandi.
38.
Ólgusjónum Ægis dýrið aldan dreypti,
norður sjónum nóg í hleypti,
nokkrum kvikum inn so steypti.
39.
Róið höfðum röstinni að á réttum vegi
sem tókum enda til aldregi
tíu vikur sjós á degi.
40.
Leit eg síðan Hornbæ, Höfn og háa sanda
enn á snið til hægri handar
Hælavíkurbjargið standa.
41.
Mér leist á höfninni lognið best á land upp spenna,
þurfti eg ekki því um kenna,
þá var sólin upp að renna.
42.
Heim að naustum sama sinn í svip réð keyra.
Ekki segi eg af því meira,
um annað geta skal þó fleira.
43.
Áður fyrr þá allt var byggt í eyðilöndum
með helgidómsins heiðri vöndum
í Höfn var kirkja byggð á Ströndum.
44.
Eftir vanda sannleiks settur söngur versa,
yfirvaldið bauð að blessa,
bæði vor og haust að messa.
45.
Vígður garður veggjalaus þar var til búinn.
Leiðin síðan liggja fúin
landsins eftir vanda snúin.
46.
Þessi bygging orðin er í auðn og tómi.
Nú á tíðum sér ei sómir
svo sem fyrr í heiðindómi.
47.
Á Hornströndum ekki jörðin ört er gróin.
Hæst eru fjöllin helst við sjóinn,
hafa þau á sér jöklasnjóinn.
48.
Víða er þar vandasamt og vegur stríður
allt um kring á allar síður,
enginn maður hestum ríður.
49.
Hælavíkur held eg bjarg með hæstu fjöllum,
þó sem Hornbjarg þarflegt köllum.
Þau eru mest á Ströndum öllum.
50.
Kátlegt er þó kunnugt sé, minn kæri vinur,
Hornbjarg undir harðast stynur
þá Hælavíkurbjargið hrynur.
51.
Steinar falla stundum þar með stórum skriðum.
Þeir, sem detta hátt úr hliðum,
hafa þeir stað á fiskimiðum.
52.
Þegar úr miðju bjargi bláu bráðum detta
upp í loftið aftur spretta
yfrið hátt í neðstu kletta.
53.
Þeir, sem eiga nýja nót á Norður-Ströndum,
selveiðina hafa í höndum
hvar sem koma fyrir sig böndum.
54.
Sumir hákallssóknir tíðum saman keyra,
ífærur og annað fleira,
allt sem bátnum kann tilheyra.
55.
Vaðinn eiga verða þeir sem vel þar búa,
strengi saman sterka snúa,
stóru skipin þeir á trúa.
56.
Hvergi bregst á helstu miðum hákallstetur.
Þorskurinn aldrei þverrað getur.
Það er allteins sumar og vetur.
57.
Þeir mega fuglinn þar til fá í þrautum nauða
sem leggja uppá líf og dauða,
við lítinn pening er það sauða.
58.
Á Almenningum allt um kring sem oft er vandi
víða sést þar viður á landi,
vel sandorpinn, óþrjótandi.
59.
Sá sem er í soddan plássi sumar og vetur
heldur kyrrt við heima setur,
hvorugur annan fundið getur.
60.
Marga veit eg mjög vel skýra menn innlenda
þegar burtu vilja venda
villast allan dag til enda.
61.
Allt um kenna ókindum og illskutröllum,
heiðar (hlíða) liggja hátt á fjöllum,
hvergi fært með sjónum öllum.
62.
Sjódraugarnir bæði bæi og byggðir kanna
álits fyrir augum manna,
einninn flokkur bjargbúanna.
63.
Einu sinni ef til ber að um þá tölum,
sjást þeir víða saman í hölum
sem sagt er frá í Áradölum.
64.
Með því öllu *mun eg þó hafa
þar mitt aðsetur,
annars staðar ekki betur
um ævidagana sumar og vetur.
65.
Aldrei skal eg lýta það land í ljóðamæli.
Það er valið þjófabæli
þó því engi maður hæli.
66.
Saman hef eg merg og mál að mestu kvalið
í bréfsefnið bundið og falið,
bæði kost og löst upptalið.
67.
Seðil bið eg senda mér ef sjá kannt þetta
getirðu nokkuð fært til frétta?
Framar kann eg undirrétta.
68.
Tryggð og vinsemd þakka þér með þýðleik sönnum.
Hér með öllum heiðursgrönnum
heilsa bið eg góðum mönnum.
69.
Vil ég meira vinnudagsins verk ei bjóða.
Því skal enda þáttinn ljóða.
Þeir, sem lesa, haldi til góða!


Athugagreinar

64.2 mun] < man Lbs 1293 4to (leiðr. KE)