Vísur um Jón biskup Arason á Hólum | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Vísur um Jón biskup Arason á Hólum

Fyrsta ljóðlína:Borgfirðingar biskup Jón / og bræður sviku forðum
Bragarháttur:Fimm línur (tvíliður) fer-, þrí- og fimmkvætt:aBaaB
Viðm.ártal:≈ 1650
1.
Borgfirðingar biskup Jón
og bræður sviku forðum,
biðu af því böl og tjón,
blindaður var hugr og sjón
að þeir trúðu tálslegum þeirra orðum.
2.
Kappar treystu á kirkjufrið,
það kunni lítið stoða;
nú vissu þeir af nýjum sið
naum voru þar og lítil grið. –
Feigur enginn forðar sér við voða.
3.
Höfðu feðgar hundruð þrjú
í heimreið Sunnanmanna
en þeir héldu öngva trú,
aftur heyktust við það nú
að þeir heyrðu bóndann Daða banna.
– – –
Blessaður sé hann biskup Jón
bæði lífs og dauður.
Hann var þarfur herrans þjón
þó heiminum virtist snauður.


Athugagreinar

(Biskupa sögur gefnar út af Hinu íslenzka bókmentafélagi. Annat bindi. Kaupmannahöfn 1878, bls. 508. Vísurnar eru þar teknar eftir Rask 88, bl. 263, og er nafn höfundar þar skammstafað undir vísunum. Handritið er talið frá 1670–1680). Síðasta vísan er undir ferskeyttum hætti.