Rímur af bókinni Ester – Þriðja ríma | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Rímur af bókinni Ester 3

Rímur af bókinni Ester – Þriðja ríma

RÍMUR AF BÓKINNI ESTER
Fyrsta ljóðlína:Enn skal þriðja óðarvers af Esters þætti
bls.175–177
Bragarháttur:Braghent – samrímað eða braghenda samrímuð
Viðm.ártal:≈ 1600
Flokkur:Rímur
1.
Enn skal þriðja óðarvers af Esters þætti
setja fram með sögðum hætti,
sérhvör vildi eg að því gætti.
2.
hvörsu valt að veraldarlánið verður þeim
sem treysta upp á auð og seim
og ofmjög stunda þennan heim.
3.
Sá sem hæst í heiðri sat og hugði að engi
ofsa sínum aftrað fengi
undarlegana missti gengi.
4.
Annar beið í ótta Guðs þann átti að deyða.
Guð kann ráði illu að eyða.
Aman lét í gálga leiða.
5.
Því athugi menn hvað eftir fer í óðarspjalli.
Hvör sem situr á hæsta palli
hagi svo til að ekki falli.
6.
Þá tólf ár hafði hilmir frægur haldið ríki
frá eg að Aman, fæstra líki,
foringja lands á eintal víki.
7.
Hér er ein þjóð, kvað beitir brands, í buðlungs veldi
sem langt ber frá vort lögmál héldi,
líðast má ei slíkt ofbeldi.
8.
Úr eigu minni ærið fé skal öðling þiggja
fá eg þau bréf af frómum tiggja
að fólk það mætti í helju liggja.
9.
Sjóli réttir signets hring og segir hann mætti
fólk það slá sem fallið þætti
en fé sitt geyma slíkt sem ætti.
10.
Skjöldung lætur skrifara sína skrá það boð:
af skuli máð með undaskóð
um allt það ríki Gyðingaþjóð.
11.
Í mánuði adar er sá tólfti ársins þar,
á dag þrettánda, það svo bar
að þetta ráðið ásett var.
12.
Allir kóngsins umboðsmenn það akti þá
um sérhvört land sem sagt er frá
á settum tíma Júða að slá.
13.
Bæði konur og börnin með hann bauð að slá
á einum degi svo allt í strá
hvar ebresk þjóðin hittast má.
14.
Með lofðungs hring var letrið þrykkt og lagt við ríkt,
hefndarboð þar heima líkt,
hirðmenn ekki kætti slíkt.
15.
Aman drakk með öðling frægum ágætt vín;
hótar Júðum heljar pín
en hugsar gott til ráða sín.
16.
Mardokeus fékk þá fregn og fylkirs letur,
klæddist sekk og grátið getur,
gekk í port því neyðin hvetur.
17.
En kæmi einn í kóngsins rann svo klæddur sekk
það lögmál eins yfir alla gekk
að illan dauðann sérhvör fékk.
18.
Frúr og sveinar út af salnum Esters ganga
og sögðu þetta selju spanga,
þá setti að vífi harminn stranga.
19.
Sendi klæði seljan gulls að sig þeim skrýði
en leggi af sekk þá ljóta prýði,
í lofðungs garð hún ekki hlýði.
20.
Mardokeus mæddur af sorg í móti sagði
raunir sínar brátt að bragði
og bréfið í sveinsins hönd að lagði.
21.
Hatak hét sá helsti sveinn til hans var sendur,
sagði þeim af sorgum vendur,
í sárri neyð hans efni stendur.
22.
Biður þá víst að bjarga sér og buðlung finna,
grimmdaræði Amons inna
því Ester megi þar bót á vinna.
23.
Undan taldist Ester því fyrir álma bendi
því mega kvað hvörki mann né kvendi
fyr milding gá nema boð til sendi.
24.
Heilan mánuð hef eg nú ei til hilmirs gengið
því boð hef eg ekki öðlings fengið,
er það ljóst fyrir kóngsins mengi.
25.
Gangi einhvör orðlofslaust þar inn um gættir
heiður og líf í hættu setti
nema hilmir að honum spíru rétti.
26.
Mardokeus af móði sárum mælti þá:
Hún mun komin í hefð svo há
að hjálpa Júðum dauða frá.
27.
Vilji hún ekki voga sér til fyr vísir ganga
föðurhús hennar hefnd fær stranga
en hjálp munum vér af Drottni fanga.
28.
Þá Ester heyrði orðin þau hún ansar móti:
Hætta skal þó hirðlög brjóti
ef hagið svo til eg bæna njóti.
29.
Í þrjá daga skulu þér með mér þá þvingan líða,
Gyðinga fólk á bænum bíða,
búið í sekk með föstu stríða.
30.
Þernur lét og þénara með sér þanninn breyta,
og allir Júðar einskis neyta
einn Guð báðu sér hjálp að veita.
31.
Hvar um lönd, sem heyrðist þessi harmaræða,
allir báðu Guð það græða;
Gyðingalýð mun sorgin mæða.
32.
Í öllum löndum Júða mæðir angrið stríða;
föstumóðir kenna kvíða,
klæddir sekk með iðran stríða.
33.
Á deginum þriðja drottning Ester dyggðaprúða
með gullkórónu og glæstan skrúða
gengur inn fyr stillir prúða.
34.
Innanvert við öðlings port að Ester stóð
gagnvart kóngi, heldur hljóð;
hilmir gladdi sæmdarfljóð.
35.
Gullspírunni vísir veik að veiga ná;
því er það ljóst hún orðlof þá;
við oddinn ljúft að hendi brá.
36.
Hvað er að angri Ester frú, kvað öðling mildi.
Síðan biður hann seima hildi
segja hvörs hún beiða vildi.
37.
Fékk hún þessi fyrirheits orð af frómum tiggja:
Lát það ekki huginn þinn hryggja
þó hálft mitt ríki vildir þiggja.
38.
Aman bið eg, kvað Ester frú, fyr yður að kalla;
enn að sinni voga eg valla,
vísir, lýsa nauðsyn alla.
39.
Þér og Aman þiggið hjá mér þegar að morni
veisluboð og vín af horni;
veittur skal þá mjöðurinn forni.
40.
Aman kemur sem öðling bauð til Esters hallar.
Vísir enn við vífið spjallar
að veita skuli henni bónir allar.
41.
Vínið gladdi hilmir hreint og hvörs kyns fæða;
við Ester gjörir hann oft að ræða,
allra skuli hún njóta gæða.
42.
Ester biður enn að morgni Aman þá
veislu þiggi vífi hjá;
við því segir hann gjarnan já.
43.
Aman gekk þá út um port að aftni síð;
með honum kveiktist meinlegt stríð
því Mardokeus hann stóð þar við
44.
og hneigði ekki heldur en fyr þó hryggur væri.
Aman trú eg það illa særi
af sér þó með hörku bæri.
45.
Aman kemur í hús sitt heim og hrósar gengi
að vald og ráð af vísir fengi,
virtur fram yfir allt hans mengi.
46.
Vinum síðan safnar hann og sagði líka
sína hefnd og sælu slíka;
við Seres talar hann, húsfrú ríka:
47.
Sér þú minna sonanna heill og sómann þennan
að Ester drottning afbragð kvenna
með öðling bauð mér vín að kenna.
48.
Öngan virti hún öðlingsmanninn annan þess
að fá hjá kóngi sæmdar sess;
í sinni ber eg þó harma vers
49.
á meðan sá leiði Mardokeus á minni braut
stár sem fíll eða stirðfætt naut;
sá stolti sveinn mér aldrei laut.
50.
Af þessu er mér hvörgi hægt meðan hefni eg eigi
á þeim leiða laufa sveigi,
lít eg hann þó á hvörjum degi.
51.
Bið þú hilmir, hústrú kvað, hann hengja láta
fyrst hans gengur fram úr máta
fólskan sú, hann gjörir sig státa.
52.
Þá situr þú glaður, sagði hún, með sjóla að veislu
hann maktar þig til málagreiðslu,
mun það gjört af þinni beiðslu.
53.
Aman þóknast þetta ráð og þegar í stað
um gálga bjó, sem gjört var það,
glaðlega frá eg hann lék og kvað.
54.
Fimmtigu álna eikitré þar upp var sett.
Mardokeus fyr minnstan prett
að morgni skal þar hanga rétt.
55.
Amans fær nú ofsinn brátt sinn endadag.
Sérhvör gæti að sínum hag;
svo skal lykta þriðja brag.