Rímur af bókinni Ester – Önnur ríma | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Rímur af bókinni Ester 2

Rímur af bókinni Ester – Önnur ríma

RÍMUR AF BÓKINNI ESTER
Fyrsta ljóðlína:Enn skal stofna annan brag
bls.169–173
Bragarháttur:Stafhent eða stafhenda (stuðlalag)
Viðm.ártal:≈ 1600
Flokkur:Rímur
1.
Enn skal stofna annan brag,
óbreytt verður kvæðalag.
Af Eddu fékk ég öngvan snert
um efnið þyki mér meira vert.
2.
Hugsi um það heimsins þjóð
hvar fyrir dæmin ill og góð
í Ritning verða lesin og lærð,
í ljóða smíðið síðan færð.
3.
Það er að sönnu meining mín
að muni því Drottinn orðin sín,
svo innilegana oss nú tjá
að þeim vilji hann láta gá.
4.
Því samt er herrans sinnið enn
svo sem að reyndu fyrri menn:
Ofmetnaður fær ætíð smán
en auðmýkt fylgir gæfulán.
5.
Nær sem einn sér hreykir hæst,
hann er fallinn þessu næst
sem sá lengi lágt var settur
litlu síðar við mun réttur.
6.
Skjótlega þessu skiptir sá
sem skynja og reyna hjörtun má.
Gefum vér allir gaum að oss,
guðhræðslan er besta hnoss.
7.
Inna verður Ester frá,
öðling fékk hún sæmdir hjá.
Sú kom tíð að milding mætur
meyna hvörja prýða lætur.
8.
Heilt ár skyldi hvör sem ein
hegða sinni prýði grein,
í balsam hræra hvörn sinn lið
og hafa þar myrru blandað við.
9.
Annan helming ársins skal
æðra fá til smyrsla val
að bera um hennar bjarta hold
svo betur að ilmi menja fold.
10.
Síðan var þá sérhvör skrýdd
með sæmdarskart og gulli prýdd,
leidd til öðlings ein í senn
með ágætlega fylgdarmenn.
11.
Þar skal hvílast þessa nótt
en þegar að morgni leiðast skjótt
til geldings þess í góðan stað
sem gætti kóngsins frillum að.
12.
Hvað sú girnist meyjan merk
mildings veitir tignin sterk;
í hvörju gildi sem það sé
sveinar láti strax í té.
13.
Aldrei má sú auðar grund
aftur koma á hilmirs fund
utan að kóngur sveina sín
sendi að kalla menja lín.
14.
Þá Abíels dóttir, Ester frú,
til öðlings skyldi leiðast nú
er það ljóst hún einskis bað
utan þar víkur Hegi að.
15.
Mardokeus, sem mæltum vér,
meyna hafi tekið að sér,
fóstrað best í foreldra stað,
frændræknin má veita það.
16.
Á sjöunda ári ríkis rétt,
ríkið hans, sem fyrr var sett,
í mánuði tebet meyjan svinn
mæt var leidd fyrir kónginn inn.
17.
Janúaríus, merki menn,
mánuður sá nú kallast enn.
Hann er tíundi haldinn þar,
hefst nú með honum nýja ár.
18.
Assverus með ástarband
Ester festi sér við hand.
Drottning varð í Vastí stað,
vel mun Júðum gegna það.
19.
Allir lofuðu Ester frú;
auðnusterk var, dygg og trú;
gullkórónu glæsta bar,
af göfugum jöfri tignuð var.
20.
Hilmir lætur heimboð eitt
höfðingjunum með sóma veitt.
Fyr Esters skuld og æruplag
öll hans hirð fékk góðan dag.
21.
Af skiptum þessum skipast svo við,
skjöldung sæmir allt sitt lið.
Lýður er ekki í landi þjáður,
lofðung gefur nú meir en áður.
22.
Það bar enn til einhvörn dag
jómfrúr höfðu gleðinnar plag;
Mardokeus að sínum sið
settist niður við borgarhlið.
23.
Bigtan hét og Teres tveir,
tiggja sveinar báðir þeir,
settir að geyma siklings port,
en svik fá jafnan auðnuskort.
24.
Reiðir bjuggu ráðið ljótt
ræsir að deyða á þeirri nótt.
Mardokeus það heyrði hjal
og hermdi drottningu inn í sal.
25.
Ester kóngi innir frá,
öðling lætur fanga þá;
sannir urðu að svikunum tveir,
síðan hengdir báðir þeir.
26.
Skjöldung lætur skrifa það inn,
skýrt og rétt í annál sinn
því Guð vill ekki að gleymist sú
góða dyggð og holla trú.
27.
Einn höfðingi Aman hét
er öðling mest að heiðra lét,
son Medata settur hæst
og sjálfum kóngi virtur næst.
28.
Aman þenna upphóf senn
yfir alla sína tignarmenn;
honum skal hneigja hvör sem einn
heiðarlegasti kóngsins sveinn.
29.
Mardokeus af Júða ætt,
er ekki fékk að þessu gætt;
fyrir Aman beygir hann aldrei hné,
er þó sagt hann frómur sé.
30.
Hirðmenn báðu hann hneigja sig
því hilmirs boð eru merkilig;
Aman laut hann ekki að heldur,
eitthvað slíkri þrjósku veldur.
31.
Aman segja þeir hegðan hans
og heiti líka þessa manns;
Gyðinga kyns þeir greina þegn,
gramdist hann við þessa fregn.
32.
Hann grípur upp eitthvað grimmdar ráð
svo Gyðinga fengi hann lífi náð
því hefndar háttur þykir ei neinn
þó þennan mann að hengi einn.
33.
Með fjölkynngi bruggar bragð
og brýst nú um sem hamaðist flagð;
af ofsa þeim sem í honum brann
enginn maður hann stöðva kann.
34.
Hér mun sannast orðtak enn
það inntu forðum spádóms menn:
Móti Drottni dugir ei ráð
né djúpsett annað viskusáð.
35.
Hann mun skipta heillum best
og hjálpa þeim hann reynir mest.
Sé honum lof sem leysti þjóð,
lykta eg þanninn stýfðan óð.