Erindi nökkur úr Ellikvæði Jóns Hallssonar | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Erindi nökkur úr Ellikvæði Jóns Hallssonar

Fyrsta ljóðlína:Í æsku en unga kæra
Bragarháttur:Átta línur (tvíliður) þrí,- fer,- fimm- og tvíkvætt AbAbCddC
Viðm.ártal:≈ 1525
Flokkur:Ellikvæði
1.
Í æsku en unga kæra
um erindi nökkur beiddi mig,
lést hún vilja læra
og lesa fyr þeim sem bæði sig.
Skemmra þykir nær skemmtir nökkur í húmi
eða þá væna veigagátt
um vintrar nátt
vakandi liggur í rúmi.

2.
Nær á mann stríðir elli,
ungir mega þar þenkja á,
flesta trú eg hún felli
þó fordild nökkur þyki á.
Augnaráð, afl sem heyrn og minni,
skekur hún þetta skötnum frá,
en skapar þeim þrá,
þögn og þunglegt sinni.

3.
Kláða, hryglu og hósta,
hefur það ellin nóg með sér,
kveisu í limu kann ljósta,
leikur hún þetta stundum mér.
Líkama mannsins lætur hún allan dofna,
kaldur og freðinn klæðfár er,
hann klórar sér
í sæng þá hann vil sofna.

4.
Gjör enn greina kunni
getur hún elli komið af stað,
tennur úr mannsins munni
molna burt svo raun er að.
Mælskan verður og málsnilld niður að falla,
lysting öll er lokuð á burt,
með list og kurt,
svo fer um konur sem kalla.

5.
Leggst þá flest til lýta
þó á listum hafi mann kunnað skil,
nær vill enginn nýta
neitt það hinn gamli leggur til.
Við yngisfólkið er eg því fús að skilja,
mér virðist margur mega það sjá
og minnast á
að hafa vill hvör sinn vilja.

6.
Hvörninn á þessu að hegða
svo hafi hinn gamli náð og frið?
Eða skal búinu bregða
og buldra ekki fólkið við?
Og verða þá hnepptur í horn til frænda sinna
og hafa það eina að halda þá
sem hinn vill ljá
eða nökkrum munum minna.

7.
Heiðri trú eg þá halli
þó hefði í æsku viljann sinn,
er hann innst á palli
og undir lítið gæruskinn.
Brók er vond en beyglast skór á fótum,
af öngvu skarti er eftir par,
því áður var
nema hryggðin í hjartarótum.

8.
Burt er bónda fæða,
á borði sínu hann hafði fyrr,
um rétti þarf ei að ræða,
þeir rata ei inn um hússins dyr,
hans diski og skál að dúkur er enginn undir.
Meiri er von þó maðurinn sá
megi minnast á
liðnar lífsins stundir.

9.
Í æskunni halurinn hafði
hæga sæng að liggja á,
vífið hann að sér vafði
og veitti allt sem lysti þá.
Nú mun hann með þökkum verða að þiggja
hærusekk og hempu grá,
að honum skal ljá
í flet þar hann fær að liggja.

10.
Elli trú eg að enginn
yngismaðurinn þekkja kann,
lætur hún eftir honum lengi,
að lyktum frá eg hún pretti hann.
Þó þykist mann stoltur og sterkur í limum öllum,
kann hún flestum að koma á kné
þó karskir sé,
svo vel konum sem köllum.

11.
Elli hefur brjóst til að binda
bæði á gömlum hendur og fætur,
einninn augun blinda,
af þeim tekur hún svefn um nætur.
Volkast hugur nær vakir mann einn í ranni,
víl og hugsun varast má sá
sem venst það á
ef hún er ekki að manni.

12.
Eg má á mig játa
að of lengi hef eg seinkað við
lestina af að láta
og líkjast dugandi manna sið.
Ætlaði eg aldrei ellin mundi nenna
að taka í einu allt að sér
sem æskan mér
með ljúfleik réð að léna.

13.
Vesligum villu brautum
vafrað hef eg svo lengi á,
kominn að þessum þrautum
sem hinum gamla sagt er frá.
Ellin kveðst fyrir æsku skuli mér gjalda,
hún kallast mig hafa keypt og fest,
hún keppir mest
að hún skuli þetta halda.

14.
Mér vinnst henni ekki að verjast,
vefst hún mér svo fastlega að,
við brúði er illt að berjast,
bótlaus pína er öllum það,
hlýt eg að hafa það hún vill á mig leggja.
Skal eg þó aldrei skötnum tjá
eða skýra frá
skiptunum okkar beggja.

15.
Í æsku kunni en kæra
svo kurteislega að búa að mér,
hún hreykti öngvum hærra,
hvör hann átti ei meira að sér,
og látið mig því langan tíma halda.
Gjöri eg þar öngva undran að
þó ellin það
grimmlega vilji mér gjalda.

16.
Ei vil eg elli blóta,
ætla eg hún hafi lög fyrir sér,
svo er eg farinn til fóta,
föllin trú eg nú vísust mér.
Finnst ei ráð að forðast megi eg þetta
nema eg taki mér stinnan staf
og hafi stuðning af
ef eg skal ekki detta.

17.
Þó á æsku í freistni falli,
svo fái mann ekki gjört þar að,
þá trú eg að hún elli
af muni nökkuð plána það,
ef vér þolum og þökkum vorum herra,
hvört sem gengur mót eða með
það manninn sker,
kann það kvalirnar þverra.

18.
Lof sé lausnara mínum
fyrir lánið allt hann veitti mér.
Hvör að högunum sínum
hyggi, sá sem roskinn er,
hvað vér eigum Guði á móti að gjalda
fyrir æskublóm og aura nægð
og alls kyns frægð,
hann lætur oss lengi halda.

19.
Lífsins stundir líða,
loksins þykjunst eg þetta sjá,
þess er best að bíða
sem blessaður Drottinn leggur á.
Búin er sæng sem búkurinn manns skal fanga,
blóðrauð mold er breidd þar á
en í burtu frá
vinirnir vorir ganga.

20.
Þá er gæfa og gifta
að hinn gamli hafi þess aflað rétt,
sem skyldir með sér skipta,
í skálunni mun það ekki létt,
sem með kærumálum komist höfum að illa.
Vesleg sálin verður að sjá
þá viktina á,
að hana mun ei hægt að stilla.

21.
Hvar er þá mennt eður mæti
sem mannkindinni var lánað hér
og allt það eftirlæti
er í æsku vorri höfðum vér,
mekt og heiður, mannhaldið með auði,
réttafjöldann víns og vist,
að vér höfum misst,
þá kemur hinn dapri dauði.

22.
Frá margföldum móði
mildur Guð[s] son leyst hefur oss
með sínu síðublóði,
særður og negldur á helgan kross.
Hvað mun eg aumur hér á mót mega gjalda
fyrir það lán þú léntir mér,
að lof sé þér
um allar aldir alda.

(Vísnabók Guðbrands 1612 (útg. 2000), bls. 437–439)