Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Ilmur er Jesús eðla skær | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Ilmur er Jesús eðla skær

Fyrsta ljóðlína:Ilmur er Jesús eðla skær
bls.125–129
Bragarháttur:Sex línur (tvíliður+) ferkvætt aabbcc
Viðm.ártal:≈ 1650
Flokkur:Sálmar

Skýringar

Upphafsstafir fyrsta orðs hvers erindis mynda nafnið Jesús. Kvæði sem eru ort með því lagi eru nefnd griplur. Fyrstu orð hverrar línu koma síðan öll fyrir í réttri röð í 5. línu fimmta erindis: ilmur – eilífð – sannleikur – vegur – sigur. Má segja að í þeim séu dregnir fram allir megineiginleikar frelsarans. Sálmurinn var prentaður í Hallgrímskveri frá upphafi og er hann hvergi eignaður öðrum en Hallgrími Péturssyni.
Ilmur er Jesús eðla skær
X. psalmur. Um bókstafa þýðing í Jesú nafni sra H: P.s.ar.
Tón: Faðir vor sem á himnum ert.
1.
Ilmur er Jesús eðla skær,
oss við Guð föður sætta fær
andvarpan sanna syndugs manns
so gjörir fagra bænin hans,
eins og þá sólin uppljómar
allan himin og stjörnurnar.
2.
Eilíft líf Jesús oss tilbýr,
allri hörmung í gleði snýr,
grimmd og ógn dauðans eyddi hér,
andlát vort hægur svefn því er.
Heljarbrodd skæðan herrann braut,
hans makt og vald með öllu þraut.
3.
Sannleikur Jesús eflaust er,
oss rétta lífsbraut kennir hér.
Heimspekin öngva huggun ljær.
Herrans orð, náð og blessan fær.
Allir sem treysta uppá það
eilífan finna hvíldarstað.
4.
Vegur er Jesús vís og beinn,
vel má hann ganga hvör sem einn.
Fyrir hreina trú og helgan sið
hann leiðir oss í dýrðar frið.
Hræðast þarf sá ei heljardeyð
sem heldur sér við þessa leið.
5.
Sigurvinningin sætust hér
á synd og dauða Jesús er,
djöful fangaði en frelsti oss;
fyrir þá kvöl hann leið á kross.
Ilm, eilífð, sannleik, veg, sigur skær
sem Jesú nafn útleggjum vær.
Amen.
(Hallgrímur Pétursson: Ljóðmæli 3, bls. 125–129. Í útgáfunni er sálmurinn prentaður eftir JS 272 4to II, bl. 368v–369r. Auk aðalhandrits er sálmurinn varðveittur í 13 handritum. Þau eru: Lbs 509 8vo, bls. 65–67; Lbs 706 8vo, bls. 72; Lbs 736 8vo, bl. 173v–174r; Lbs 915 8vo, bl. 53v–54r; Lbs 1119 8vo, bls. 430–431; Lbs 1246 8vo, bls. 58–59; Lbs 1422 8vo, bls. 60–61; Lbs 1485 8vo, bl. 90r–v; Lbs 1536 8vo, bl. 43v–44r;
JS 208 8vo, bls. 5–6; ÍB 181 8vo, bl. 103r–104r; ÍB 380 8vo, bls. 57–58, og MS Boreal 113, bl. 140r–141r. Hér er útgáfu Ljóðmæla algerlega fylgt)