Hallgrímur Pétursson 1614–1674
157 LJÓÐ — ÁTTA LAUSAVÍSUR
Hallgrímur hefur verið talinn fæddur í Gröf á Höfðaströnd en komið barnungur að Hólum þar sem faðir hans var hringjari. Hann fór ungur utan og var um tíma lærlingur hjá járnsmið í Kaupmannahöfn. Ekki festist hann þó í þeirri iðn heldur hóf nám í Vorrar frúar skóla þar í borginni og var þar kominn fast að lokaprófi þegar honum var falið að hressa upp á kristindóminn hjá því fólki sem Tyrkir höfðu hertekið á Íslandi en nú hafði verið keypt úr ánauð úr Barbaríinu. Meðal þess var Guðríður Símonardóttir úr Vestmannaeyjum og felldu MEIRA ↲
Hallgrímur hefur verið talinn fæddur í Gröf á Höfðaströnd en komið barnungur að Hólum þar sem faðir hans var hringjari. Hann fór ungur utan og var um tíma lærlingur hjá járnsmið í Kaupmannahöfn. Ekki festist hann þó í þeirri iðn heldur hóf nám í Vorrar frúar skóla þar í borginni og var þar kominn fast að lokaprófi þegar honum var falið að hressa upp á kristindóminn hjá því fólki sem Tyrkir höfðu hertekið á Íslandi en nú hafði verið keypt úr ánauð úr Barbaríinu. Meðal þess var Guðríður Símonardóttir úr Vestmannaeyjum og felldu þau Hallgrímur brátt hugi saman. Héldu þau til Íslands 1637 og settust að á Suðurnesjum. Þar stundaði Hallgrímur ýmiss konar vinnu uns hann varð prestur á Hvalsnesi og þjónaði þar í nokkur ár. Síðan varð hann prestur í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd uns hann varð að láta af prestskap vegna sjúkleika en hann varð holdsveikur á seinustu árum sínum. Hann dó á Ferstiklu, næsta bæ við Saurbæ, árið 1674. Hallgrímur er tvímælalaust frægasta skáld síns tíma og frægasta sálmaskáld Íslands fyrr og síðar. Þekktustu verk hans eru Passíusálmarnir, fimmtíu sálmar út af píslarsögu Krists, og útfararsálmurinn Um dauðans óvissan tíma (Allt eins og blómstrið eina) sem sunginn hefur verið yfir moldum flestra Íslendinga síðustu fjórar aldir. ↑ MINNA