Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Til fánans | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Til fánans

Fyrsta ljóðlína:Rís þú unga Íslands merki
bls.243
Bragarháttur:Sex línur (tvíliður) ferkvætt AbAbAb
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1906

Skýringar

Prentað í Hafbliki 1906.
Aðeins fyrsta og fimmta erindi eru prentuð í Skólaljóðum.
1.
Rís þú, unga Íslands merki,
upp með þúsund radda brag.
Tengdu í oss að einu verki
anda, kraft og hjartalag,
Rís þú Íslands stóri, sterki
stofn með nýjan frægðardag.
2.
Hvort skal nokkur banna og bjóða
börnum frjálsum þessa lands
og til vorra ættarslóða
augum líta ræningjans?
Fylkjum oss í flokki þjóða.
Fram, að lögum guðs og manns.
3.
Gætum hólmans. Vofi valur
víðskyggn yfir storð og hlé.
Enginn fjörður, enginn dalur
auga hauksins gleymdur sé.
Vakið, vakið, hrund og halur,
heilög geymið Íslands vé.
4.
Storma og ánauð stóðst vor andi
stöðugur sem hamraberg.
Breytinganna straum hann standi
sterkur, nýr á gömlum merg.
Heimur skal hér líta í landi
lifna risa fyrir dverg.
5.
Skín þú, fáni, eynni yfir
eins og mjöll í fjallahlíð.
Fangamerkið fast þú skrifir
fólks í hjartað ár og síð.
Munist hvar sem landinn lifir
litir þína alla tíð.
6.
Hvert eitt landsins fley, sem flýtur,
fáni vor, þig beri hátt.
Hvert þess barn, er ljósið lítur,
lífgar vonir sem þú átt.
Hvert þess líf, sem þverr og þrýtur,
þínum hjúp þú vefja mátt.
7.
Meðan sumarsólir bræða
svellin vetra um engi og tún
skal vor ást til Íslands glæða
afl vort undir krossins rún,
djúp sem blámi himinhæða,
hrein sem jökultindsins brún.