Sandy Bar | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Sandy Bar

Fyrsta ljóðlína:Það var seint á sumarkveldi
bls.99-102
Bragarháttur:Tíu línur (tvíliður) AAAbCCCbOb
Viðm.ártal:≈ 1925
1.
Það var seint á sumarkveldi
>sundrað loft af gný og eldi,
regn í steypistraumum felldi,
>stöðuvatn varð hvert mitt far.
Gekk ég hægt í hlé við jaðar
>hvítrar espitrjáaraðar,
Kom ég loks að lágum tjaldstað
>landnemanna’ á Sandy Bar,
Tjaldstað hinna löngu liðnu
>landnámsmanna á Sandy Bar
2.
Þögnin felur þeirra heiti.
>Þeir voru lagðir hér í bleyti.
Flæddi þá um laut og leiti
>lands, við norðan skýjafar.
Andi dauðans yfir straumi
>elfar, sveif í hverjum draumi.
Var þá sem hans vængjaskuggi
>vofði yfir Sandy Bar.
Skuggablik hans fálkafjaðra
>félli yfir Sandy Bar.
3.
Það er hraustum heilsubrestur:
>hugboð um að verði gestur
kallið handan, höndum frestur
>hlotnist ei að smíða far,
þá til ferðar yfir álinn
>ei er reiðubúin sálin, -
og á nálaroddum voru
>iljar manna, á Sandy Bar,
>voru á nálum óljóss ótta
allir menn á Sandy Bar.
4.
Að mér sóttu þeirra þrautir,
>þar um espihól og lautir,
fann ég enda brenndar brautir,
>beðið hafði dauðinn þar.
Þegar elding loftið lýsti,
>leiði margt ég sá, er hýsti
landnámsmanns og landnámskonu
>lík - í jörð á Sandy Bar,
menn, sem lífið, launað engu
>létu fyrr á Sandy Bar.
5.
Heimanfarar fyrri tíða
>fluttust hingað til að líða,
sigurlaust að lifa, stríða
>leggja í sölur heilsufar,
falla, en þrá að því að stefna
>þetta heit að fullu efna:
meginbraut að marki ryðja
>merkta út frá Sandy Bar,
braut til sigurs rakleitt, rétta
>ryðja út frá Sandy Bar.
6.
Ég varð eins og álft í sárum,
>og mér þótti verða, að tárum
regn af algeims augnahárum -
>ofan þaðan grátið var,
reiðarslögin lundinn lustu,
>lauftrén öll hin hæstu brustu,
sem þar væru vonir dauðra
>veg að ryðja, á Sandy Bar,
ryðja leiðir lífi og heiðri
>landnemanna á Sandy Bar.
7.
Vonir dána mikilmagnans
>mega færa áfram vagn hans,
verða, að liði, vera gagn hans,
>vísa mörgum í hans far.
Rætast þær í heilum huga
>hvers eins manns, er vildi duga,
og nú kenndur er við landnám
>allt í kringum Sandy Bar,
hefir lagt sér leið að marki
>landnemanna á Sandy Bar.
8.
Hafin verk og hálfnuð talin
>helgast þeim, sem féllu’ í valinn.
- Grasnál upp með oddinn kalinn
>óx, ef henni leyft það var,
en þess merki í broddi bar hún
>bitru frosti stýfð að var hún.
Mér fannst græna grasið kalið
>gróa kringum Sandy Bar,
grasið kalið ilma, anga
>allt í kringum Sandy Bar.
9.
Ég fann yl í öllum taugum,
>og mér birti fyrir augum.
Vafurloga lagði af haugum
>landnámsmanna nærri þar.
Gullið var, sem grófst þar með þeim,
>gildir vöðvar, - afl var léð þeim, -
þeirra allt, sem aldrei getur
>orku neytt á Sandy Bar.
Það, sem ekki áfram heldur,
>er í gröf á Sandy Bar.
10.
Stytti upp og himinn heiður
>hvefldist stirndur, meginbreiður
eins og vegur valinn, greiður,
>var í lofti sunnan far. -
Rofinn eldibrandi bakki
>beint í norður var á flakki.
Stjörnubjartur, heiður himinn
>hvelfdist yfir Sandy Bar,
himinn, landnám landnemanna,
>ljómaði yfir Sandy Bar.