Fossaniður | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Fossaniður

Fyrsta ljóðlína:Þá væri, Sjáland, sælla hér
bls.208
Bragarháttur:Ferskeytt (ferskeytla)
Bragarháttur:Ferskeytt – hringhent (hringhend ferskeytla) – hringhenda
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1900

Skýringar

10. vísa er hringhenda.
1.
Þá væri, Sjáland, sælla hér
sumarið þitt og blómin,
ef þú gætir gefið mér
gamla fossaróminn.
2.
Hefði allur auður þinn
eitthvað slíkt að bjóða,
léti ég fyrir lækinn minn
leikhússönginn góða.
3.
Þó að vanti þennan nið,
þér finnst ekki saka.
Engir hérna utan við
eftir þessu taka.
4.
Heima blítt við blómin sín
brekkurnar allar sungu,
því finnst okkur engin þín
eins og þau vanti tungu.
5.
Þegar við heyrðum út’ við á
óma báruhljóðin,
sumarið allir þekktu þá,
það voru fyrstu ljóðin.
6.
Enginn vetur mæddi mann
meðan við heyrðum kliðinn:
það var markið, þegar hann
þaggaði lækjaniðinn.
7.
Okkar sælu sumartíð
sama létta braginn
sungu þeir upp’ um alla hlíð
endilangan daginn.
8.
Þó þeir ættu öngva sál
eða skiptu hljómi,
sungu þeir heilagt hjartnamál
hver með sínum rómi.
9.
Ljóð eru annað, eins og þín,
eru mér lítið gaman,
því að kærstu kvæðin mín
kunna þeir einir saman.
10.
Hljóðin snjöllu úr hamra þröng
heiðra ég öllu meira;
þar eru tröll og syngja söng
svo að fjöllin heyra.
11.
Hárra fjalla frægðaróð
fossarnir mínir sungu;
það hefur enginn þeirra ljóð
þýtt á danska tungu.
12.
Meðan þú, Sjáland, svafst í mar,
sungu þeir Frón úr græði;
þeir ætla eins að enda þar
allra manna kvæði.