Kvæði flutt Ásg.Ásg. forseta 4.7.´54 | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Kvæði flutt Ásg.Ásg. forseta 4.7.´54

Fyrsta ljóðlína:Sjá, hve fagnar fursta tignum
bls.bls. 65
Viðm.ártal:≈ 0

Skýringar

Kvæði flutt herra Ásgeiri Ásgeirssyni forseta og frú hans við opinbera móttöku á Blönduósi 4. júlí. 1954
1.
Sjá, hve fagnar fursta tignum
frón, er birtist hölda sjónum
tjaldað grænu í vorsins veldi
vafið heiðu geislatrafi.
Sjáið þandar byggðir bænda
bæjaþil og víðar slægjur.
Standa vörð um strindi Húna
steyptu fjöllin, myndum greiptu.
2.
Finn, hve leyst úr frerabanni
fangið móðurjarðar angar.
Áfjáð brjóst með tökum traustum
teyga loftsins guðaveigar.
Töðuilmur gumna geði
gleði fær og endurnæring.
Laufgað barð og sólhýr svörður
seiða þrótt í glaðar dróttir.
3.
Heyrið vorsins hljóma bæra
hvikult loft í sólarbliki.
Auðnugaukur í austri leikur
óar bliki vestur á Flóa
syngja glöð um grund og traðir
grannur spói og dröfnótt lóa
Líf í hverri laut og kjarri
lofgjörð syngur, blóð vort yngir.
4.
Hér er heimur dáða og drauma
dulið afl í foldarskafli.
Menjar lifa moldu ofar
margar þær, sem oss eru kærar.
Íslensk saga átti huga
ítra kvenna og hölda nýtra
hafa skráð og heimi gefið
Húnvetninga sagnarúnir.
5.
Allar vættir í öldnum fjöllum
álfar góðir á hamraslóðum
dvergar hagir hjá dróttar vegi
dísir allar, sem fegurst lýsa
fagni glaðar gestum tignum
geri ferð um þetta hérað
ánægjulega og alla daga
unað veiti og hvers kyns teiti.