Gefðu mér jörð | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Gefðu mér jörð

Fyrsta ljóðlína:Gefðu mér jörð einn grænan hvamm
bls.32
Viðm.ártal:≈ 0
1.
Gefðu mér jörð einn grænan hvamm
glitrandi af dögg og sól
að lauga hug minn af hrolli þeim
sem heiftúð mannanna ól.
2.
Gefðu mér lind og lítinn fugl
sem ljóðar um drottins frið
á meðan sólin á morgni rís
við mjúklátan elfarnið.
3.
Kyrrlátan dal með reyr og runn
rætur og mold og sand
sólheita steina - ber og barr
- blessað ósnortið land.
4.
Þar vil ég gista geislum hjá
gefa mig himni og sól
gleyma hve þessi góða jörð
margt grimmt og flárátt ól.