Litli fossinn | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Flokkar

Allt  (1289)
Afmæliskvæði  (11)
Ástarljóð  (10)
barnagælur  (1)
Biblíuljóð  (3)
Eftirmæli  (13)
Ferðavísur  (3)
Gamankvæði  (18)
Háðkvæði  (8)
Heilræði  (1)
Hestavísur  (2)
Hindisvík  (2)
Húnaþing  (8)
Húnvetningar  (7)
Jóðmæli  (1)
Jólaljóð  (3)
Kappakvæði  (1)
Lífsspeki  (2)
Ljóðabréf  (6)
Náttúruljóð  (48)
Oddi  (1)
Rímur  (1)
Sagnakvæði  (1)
Sálmar  (2)
Sálmur  (2)
Skáldsþankar  (44)
Strandir  (2)
Söguljóð  (11)
Söngvamál  (1)
Tíðavísur  (1)
Tregaljóð  (4)
Þululjóð  (1)
Ævikvæði  (2)

Litli fossinn

Fyrsta ljóðlína:Það var skrýtilegt, sem ég sá
Höfundur:Páll Ólafsson
bls.218
Viðm.ártal:≈ 0
1.
Það var skrýtilegt, sem ég sá
suður í fjörðum hérna´ um daginn
snemma morguns – ég sat við sæinn – :
glaður lækur í grænni lág;
hann hafði klofið klett í sundur
og keppst svo við, að aldrei blundur
hefur uppruna heimsins frá
honum sigið á ljósa brá.
2.
Það var fyrst undir þessum klett
þegar hann kom frá bröttum tindi
hann heyrði það mesta hjartans yndi
eins og hlátur og skvett á skvett
og söng og þyt og gleði´ og gaman
svo glaðlega þar var leikið saman
hoppað og kysst og hvíslast á
hlaupið og dansað til og frá.
3.
Þetta voru þá öldur allt
sem ekkert vissu´ af lækjum neinum
léku sér þar og stukku á steinum
og þótti gaman þá grjótið valt.
Þarna langaði lækinn unga
að læðast í gegnum; þar var sprunga
en kletturinn undir harður, hár
en hann svo lítill og kraftasmár.
4.
Svo þarf nú ekki sagan þér
að segja, hvað það var langvinn glíma
en á honum vann hann einhvern tíma
varð nú að foss og flýtti sér
að fela sig í fjörugrjóti
fór svo þegjandi o´n í móti;
svona komst hann um síðir nær
þær sáu´ ´ann um leið og hann kyssti þær.
5.
Öldurnar stukku út á sjó
allar reiðar við litla fossinn
allar kafrjóðar eftir kossinn
eins og kveldroða á þær sló.
En lækurinn tók að kveða´ um kossinn
þær kölluðu´ í land og spurðu fossinn:
„Hvað heitir þú?“ – „Ég heiti foss.“
„Hvað vildir þú?“ – „Að fá mér koss“
6.
„Koss!“ sögðu þær og kipptust við
kom þá strax fjöruborð á sæinn;
en þegar lítið leið á daginn
höfðu öldurnar engan frið:
fjörugt lagið og fögur hljóðin
fossinn hvítur og ástarljóðin
og þessi koss, sem hann kyssti þær
kom þeim til þess að læðast nær.
7.
Sú hefur orðið sættin á
þær séu hjá honum öllum dögum
að skiptast á kvæðum, kossum, sögum
og láta´ ekki koma blund á brá.
Hann væri sæll er svona gæti
til sinna gengið kvikum fæti
og létt sér þar hverja lífsins þraut
sem lækur falli´ í unnar skaut.