Landkostir | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Landkostir

Fyrsta ljóðlína:Landið er hvorki langt né breitt
Heimild:Glæður.
bls.55
Viðm.ártal:≈ 0
1.
Landið er hvorki langt né breitt
líklegast má það Guði þakka
annars hefði það eflaust þreytt
eftirlitsmenn og smalarakka.
Tún og engi er göddum girt
gallar og kostir inni byrgt.
2.
Margir telja þar málm í jörðu
mitt er ekki að dæma um slíkt
en grjótið er eflaust gott í vörðu
garða, veggi og því um líkt.
Ekki vantar þar voldugt hrís
í vendi og fleira - ef hugur kýs.
3.
Heitar lindir og háir fossar
heimilið gera vonabjart
en vanans draugar, sem heimskan hossar
halda þó enn í myrkrið svart.
Lækir og vötn af veiði full
viðarrekinn er á við gull.
4.
Allir vilja þar æðstir vera
arðinum ráða sjálfir í hag
en ábyrgðina vill enginn bera
svo ekki er kyn þótt lendi í slag.
En svona er út um allan heim
með ágæt býli og stjórn á þeim.
5.
Fólkið er þar í feikna önnum
fljótandi í svita ár og síð
grasið í klof á meðalmönnum
og meira í góðri sprettutíð.
Á vetrum festir þar varla snjó
þó vindarnir sofi í kyrrð og ró.
6.
Ýmsir magar þar ístru safna
undirvöxturinn hjálpar til
ungviði feikna fljót að dafna
og finna á sínum hvötum skil.
Útsæði er þar af ýmsri gerð
uppskeran líka mikils verð.
7.
Þar er nú ekki þörf að kaupa
þorskalýsi né fóðurmjöl
á kollóttum gimbrum hornin hlaupa
heyin þau er svona þvöl.
Mæðurnar flæða fleiru en mjólk
fullorðnir sauðir löðra í tólk.
8.
Húðarklárar á harða spretti
hendast um völlinn til og frá
bítast um græna gróðurbletti
gaman er að þeim til að sjá.
Húsbændur líka á fleygiferð
með formælingum og bænagerð.
9.
Velgengnin berst úr öllum áttum
úr iðrum jarðar og lofti og sjó
ofin saman úr þremur þáttum
það ætti að vera meira en nóg.
En galla má telja aðeins eitt
að afgangs verður þar sjaldan neitt.