Stjarna | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Stjarna

Fyrsta ljóðlína:Hún birtist mér, alein og óvænt á rökkursins kveldi
bls.80
Viðm.ártal:≈ 0
1.
Hún birtist mér, alein og óvænt á rökkursins kveldi.
Undarleg, framandi stjarna
brá leiftri á myrkvaða leið.
– Hví beindirðu för um hnattanna húmdökku veldi
hingað um langvegu farna?
Var einhver sem eftir þér beið?
2.
Sem áleitin spurn bjó í óræðu stjörnunnar skini.
Orðvana, hljóð urðu svör mín.
Hví vitjaði hún á minn veg?
– Þú einmana stjarna. Ef varstu að skyggnast að vini
vonlaus er orðin sú för þín.
Það var ekki – var ekki ég.
3.
Svo slokknaði skinið og aftur varð almyrkt á vegi.
Óráðin, torskilin gáta
mér aðeins eitt augnablik heimt.
– Ó, þú varst í senn mín hamingja og hjarta míns tregi.
Hví skyldi ég þig vera að gráta
fyrst get ég ei, stjarna, þér gleymt?