Á Holtavörðuheiði | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Á Holtavörðuheiði

Fyrsta ljóðlína:Fljótt sækist leið yfir fitjar og gil
Heimild:Ströndin.
bls.50
Viðm.ártal:≈ 0
1.
Fljótt sækist leið yfir fitjar og gil
fjörðurinn hverfur að ásanna baki.
Tindarnir speglast í tjarnanna hyl
tíbráin hvikar í vordagsins yl
Berast um heiðina ómar af álftanna kvaki.
2.
Brautin er eggslétt og bein eins og strik
brúuð hver spræna og fylltur hver slakki
geyst er því ekið en glampar og blik
glæringum slá gegnum hjólanna ryk.
Sindrar af krómstáli, gleri og gljáandi lakki.
3.
Bregður þá fyrir í brekkum og kvos
bugðóttum troðning, sem vaxinn er grasi.
Þögull og hvílist við fjaðrir og flos
fölnað er vordagsins sólhýra bros
leitt verður samferðafólkið með fjasi og masi.
4.
Gatan mín forna er gróin sem tún
gatan sem fór ég á æskunnar dögum.
Sól skein á fjallanna sillur og brún
samleið hér áttum við, ég og h ú n.
Hljómaði sál mín af ófæddum ljóðum og lögum.
5.
Samhliða riðum við bugðótta braut
brosið var feimið og roði á vöngum
áðum í þessari iðgrænu laut
ilmþrunginn blærinn í laufinu þaut.
Áfanginn gleymdist í sæludraum ljúfum og löngum.
6.
Vaxið er gras yfir götuna þá
glötuð er leiðin frá æskunnar dögum.
Enn mun ég síðar meir áfanga ná
enginn sem kemur mun slóð mína sjá
falda þar undir sem fénaður gengur að högum.
7.
Gatan mín hverfur í gleymskunnar skaut
gatan sem aldirnar mörkuðu í klettinn.
Nútíminn leggur sér bílfæra braut
beint yfir klungur og grösuga laut
og stansar ei framar við eldgamla áningarblettinn.
8.
Vegurinn forni - hann var ekki of mjór
og víst ekki of brattur né krókóttur talinn
og enginn í götunni steinninn of stór
ef stúlka og piltur, sem elskuðust fór´
um hásumar ein yfir heiðina niður í dalinn.