Minni kvenna | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Minni kvenna

Fyrsta ljóðlína:Hver mundi gumi því gleyma
bls.33
Viðm.ártal:≈ 0
Tímasetning:1886
1.
Hver mundi gumi því gleyma
á gleðinnar brosandi stund
ástblíðra, mærra að minnast
meyja, sem prýða vorn fund?
2.
Hvað er sem betur fær harmi
og hryggðinni´ í brjóstinu eytt
en ástmilda brosið þitt, brúður
og blíðan þín? - Alls ekki neitt!
3.
Hrund, þú sem tilfinning hjartans
helgustu uppvekja mátt
hvöt vor til heiðurs og frama
hefir þú verið svo þrátt.
4.
Æskumanns takmark og yndi
æðsta á jarðlífsins braut
honum þú hefir til sigurs
hjálpað í stríði og þraut.
5.
Heim þegar hryggur þú kemur
úr hrakningi´ á mannlífsins sjó
í konunnar faðmi þá fær þú
friðsælu, huggun og ró.

6.
Í botn drekkum meyjanna minni
og minnumst, að oft var það sagt:
hið fegursta, blíðasta´og besta
í brjóst þeirra guð hefði lagt.



Athugagreinar

Í samsæti á Akureyri 1886