Útlagi | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Útlagi

Fyrsta ljóðlína:Dagur er horfinn og húmið
Höfundur:Longfellow
bls.197
Viðm.ártal:≈ 0
1.
Dagur er horfinn og húmið
hnígur af dimmvængja nótt
sem örn láti fjöður falla
á fluginu hægt og rótt.
2.
Frá þorpinu ljósin leiftra
ég lít gegnum þoku´ og regn
og merki sáran söknuð
er sál mín stenst ei gegn -
3.
sáran söknuð og löngun
er sækja á huga minn
og minna á hulda harma
sem haustið á veturinn.
4.
Kom nú og lestu mér kvæði
ég kýs mér hjartans söng
er hugarstríð mitt stilli
svo styttist nóttin löng.
5.
Ég þrái´ ekki þrumandi bragi
né þjóðskálda glymjandi söng
sem ennþá endurhljóma
aldanna hallargöng -
6.
þau kalla sem herópshljómur
úr hugans fylgsnum skjótt
á þjáning og þrautir lífsins -
nú þrái ég hvíld í nótt.
7.
Lestu mér nýgræðingsljóðin
sem laga hjartanu frá
sem skúrir úr sumarskýjum
eða skínandi tár af brá -
8.
skálds, sem í áhyggju´ og önnum
þótt ei væri nátthvíldin löng
heyrði í hjartanu óminn
af himneskum unaðssöng.
9.
Sá söngur fær sætt oss við stríðið
og sorganna þunga kross
sem bænin má blessun veita
og byrðunum létta´ af oss.
10.
Svo taktu þá kvæðakverið
ið kærasta lestu mér hátt
og leggðu við ljóðahreiminn
þá ljúfustu rödd sem þú átt.
11.
Þá líður í ljóði nóttin
og lítt mun um áhyggjur spurt -
þær hirða plögg sín og pinkla
og pukrast svo hljóðlega burt.