Án heitis (Um Húnaþing) | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Án heitis (Um Húnaþing)

Fyrsta ljóðlína:Um Húnaþing gerast nú válynd öll veður
Viðm.ártal:≈ 0
Tímasetning:1960
Flokkur:Gamankvæði
1.
Um Húnaþing gerast nú válynd öll veður
þótt veturinn annars sé mildur og hlýr
Sitthvað í bígerð og sitthvað sem skeður
og sjaldan að vita hvað upp á morgun snýr.
Hann Snorri er að byggja upp á milljón eða meira
- mikil þó undur og býsn er að heyra.
Ja, Steinunn vor Hafstað skal orð fá í eyra
ef hún sér vogar í fleiri ævintýr.
2.
Úti um sveitir hér allt er í voða
ef að hann Sverrir til Hvammstanga fer.
Brátt liggur önnur hver belja í doða.
Bændum er órótt, sem kannski vonlegt er.
Og nú treysta allir á Einar sveitarstjóra
að honum takist að láta kýrnar tóra.
Brunaliðsæfing um básstokka og flóra
bjargar við málinu eins og hver einn sér.
3.
Í herbúðum Framsóknar flest var í molum
- fallnir og særðir þar lágu í val.
En þar kom að lokum að lifnaði í kolum
og loftvogin hækkaði fram í Blöndudal.
Og Birni tókst mætavel metin að jafna
margþvældu liði til orrustu að safna.
Hann pundar ei skotum á hálfdauða hrafna.
Hausinn er afbragð og vitið puða skal.
4.
Alþýðu- sjálfstæðið ræður nú ríkjum.
Rusli þess liðna er sópað í bing.
Kommar og Framsókn á snöpum og sníkjum
snúldra við gættir og hlaupa allt í kring.
Íhaldsmenn kröftum í ósköpum safna.
Ísberg og Hermann með krötunum dafna.
Framsóknarvígin við jörðu þeir jafna
og Jóni á Akri var smyglað inn á þing.
5.
Húnvetningseðlið er ætíð hið sama
ódeigt og þrálynt í sókn og í vörn
vann sér að lokum til frægðar og frama
fyrir að þjóðnýta Löngumýrar-Björn:
Björn er nú alþingis bjartasta stjarna.
Björn virðist hérna, en samt er hann þarna.
Björn er jú hreint ekkert blávatn að tarna.
Björn verður annar de Gaulle í næstu törn.




Athugagreinar

Þetta gamankvæðið var flutt við færeyska lagið: Kenna tit Rasmus, Rasmus í Görðum, sem naut vinsælda um þessar mundir.